Beint í efni

Af mér er það helst að frétta ...

Af mér er það helst að frétta ...
Höfundur
Gunnar Gunnarsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Þessi nýja skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Af mér er það helst að frétta, passar vel við þá undarlegu tíma sem við erum að upplifa, þegar fjöldi manns berst í bökkum fjárhagslega eftir góðærið. Gilbert Benjamínsson er kominn á ystu nöf eftir rangar fjárfestingar og bíður bara eftir að verða lýstur gjaldþrota. Auk þess hefur hann falsað undirskriftir tengdaforeldra svo að líklega munu þau missa húsið sitt. Kannast einhver við svona sögur? Gilbert er að öðru leyti bara venjulegur launþegi hjá hinu opinbera, þó ekki alveg venjulegur því að hann er fréttalesari hjá Sjónvarpinu og þess vegna er andlit hans vel þekkt. Hálfbróðir hans, Kristleifur, er nærri og bendir honum á leið til að losna út úr vandanum. Sú útgönguleið er dálítið rosaleg. Alla bókina er söguhetjan að velta vöngum yfir því hvort hann eigi að taka þessu boði til að létta á fjárhagsvandanum eða láta gera sig upp. Inn í þessar hugleiðingar blandast uppvaxtarár í Grófinni (Blesugróf?) og undarleg og harmræn fjölskyldusaga.

Þetta er fyrstu persónu frásögn og Það er Gilbert sem segir söguna. Reykjavík er sögusviðið og fyrst og fremst Grófin, þetta gæti hafa gerst í fyrra eða jafnvel síðastliðið sumar á nokkrum dögum eða vikum. Bláendi sögunnar gerist þó einu og hálfu ári síðar. Bókin lýsir fantavel hugarangri og ráðleysi skuldarans sem er kominn á ystu nöf og veit í raun ekki sitt rjúkandi ráð. Vangavelturnar yfir fjármálunum og stöðugar áhyggjurnar eru helst rofnar með upprifjunum úr æsku, samtölum bræðranna og heimsóknum á æskuheimilið þar sem kjörfaðir Gilberts, leigubílstjórinn Benni suða, bruggar landa í bílskúrnum. Saga þessi er sérlega tímabær, nú þegar fjöldi manns stendur í svipuðum sporum og Gilbert.

Já það er rétt, höfundurinn er sá hinn sami og skrifaði bækurnar Gátan leyst (1979) og Margeir og spaugarinn (1980) en þessar tvær bækur marka upphaf nútíma glæpasagnaritunar hér á landi. Nokkrir fleiri áttu að vísu hlut að máli og má þar nefna Jón Birgi Pétursson og Leó Löve en bækur Gunnars eru einhvern veginn þær sem fólk hefur í huga þegar litið er til baka. Þessar bækur urðu líka mjög vinsælar og mikið lesnar.

Ýmis glæpamál forn og ný eru í bakgrunni þessarar sögu en ekki er um hefðbundna glæpasögu að ræða. Það eru önnur mál sem höfundi liggur á sinni og hann kemur því öllu vel frá sér. Oft er komið að því sama aftur og aftur svo að það er eins og um endurtekningu sé að ræða en líklega er það ákveðin aðferð til að sýna fram á hvernig hugsanir söguhetjunnar fara stöðugt í hringi, hann kemst aldrei út úr þessari hringferð, sömu atriðin kalla gegndarlaust til hans.

Sannarlega athyglisverð bók.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2008