Beint í efni

Aflausn

Aflausn
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Stúlka verður fyrir árás á salerni í kvikmyndahúsi og stuttu síðar taka vinir hennar og vandamenn að fá óhugnanleg myndskeið af henni send í gegnum samfélagsmiðilinn snapchat. Í kjölfarið verður annað fórnarlamb, að þessu sinni ungur strákur, fyrir barðinu á sama geranda, og svo virðist sem lögreglan eigi í höggi við aðila sem vilji hefna fyrir einelti. Sá hefur gefist upp á kerfinu og ákveðið fullnægja réttlætinu sjálfur.

Á þá leið er söguþráður nýjustu glæpasögu Yrsu Sigurðardóttur sem ber titilinn Aflausn. Hefndarþorsti og uppgjöf gagnvart máttlausu kerfinu er þema sem finnst í fyrri bókum höfundar og það þekkt minni að tala mætti um heila bókmenntagrein sem fjallar um slík mál og kalla hana hefndarsögur. Íslendingasögur og fleiri bókmenntir fornaldar fjalla margar hverjar um hefndir. Í samhengi samtímabókmennta mætti nefna einn þráð í sögu Lisbeth Salander í hinni feykivinsælu og áhrifamiklu glæpasögu Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson. Þá fjallar Kata eftir Steinar Braga um móður sem leitar hefnda vegna nauðgunar og morðs á dóttur sinni en hún kom út fyrir jólin 2014 og vakti sterk viðbrögð.

Aflausn er þriðja sagan í seríu sem fjallar um lögreglumanninn Huldar og félagsráðgjafann Freyju en áður komu DNA árið 2014 og síðan Sogið í fyrra. Hér er framvindan ef til vill aðeins hægari en áður og spennuþrunginn hryllingurinn ekki eins áberandi og í fyrri sögunum tveimur. Hér leyfir höfundur sér að nostra meira við sögusviðið og kafa ofan í eineltismál sem henni virðast vera hugleikin. Einelti er andstyggilegt samfélagsmein sem erfitt virðist vera að uppræta og hefur átakanlegar afleiðingar. Eins og höfundur bendir á eru þessi mál einnig mun algengari og í senn alvarlegri en margan grunar. Í samtímanum hefur einelti ennfremur tekið á sig nýja og svæsnari mynd en áður með tilkomu samfélagsmiðla og internetsins, sem eru alltaf til staðar í snjallsímum gerenda og þolenda og fylgja þeim hvert skref.

Yrsa er gríðarlega fær glæpasagnahöfundur og skrifar flottar sögur sem hafa yfir sér samtímalegt yfirbragð. Hún veigrar sér ekki við að takast á við samfélagið eins og það blasir við okkur en um leið að kafa undir yfirborðið. Hún hefur næma tilfinningu fyrir sögupersónum sínum og skrifar um hugarheim þeirra af sannfæringu og öryggi, svo lesendur fá að skyggnast inn í kollinn á einstaklingum úr ólíkum kimum samfélagsins. Þá hefur hún sannfærandi tök á efninu og nýtir sér samfélagsmiðla með trúverðugum hætti, en það hefur reynst mörgum glæpasagnahöfundum vandmeðfarið. Ég hef oft heyrt því fleygt að tilkoma snjallsíma hafi gert glæpasagnahöfundum erfitt fyrir, en hér verða þeir beinlínis að viðfangsefni frásagnarinnar og um leið að frásagnartækjum fyrir framvindu hennar.

Yrsa hefur einnig sýnt það í fyrri verkum að hún er fær í að nýta sér stef og brellur hefðarinnar á nýstárlegan hátt. Ég vil jafnvel ganga svo langt að staðhæfa að það skrifi enginn glæpasögur sem eru jafn spennandi og sögur Yrsu – hún er eintaklega snjöll í að byggja upp spennu og skapa bullandi „suspens“ eins og það heitir á góðu máli. En þrátt fyrir að Aflausn eigi spennandi spretti hefði ef til vill mátt vinna betur í plotti sögunnar og í því hvernig rannsókn lögreglunnar miðar áfram. Framan af eru senur um löggulífið, þar sem allir eru á nálum og svefnvana, heldur fyrirferðarmiklar, en lítið gengur í rannsókninni þangað til að flókin lausnin er útskýrð með dálítið hraðsoðnum hætti í hversdagslegu samtali tveggja persóna.

Textinn er yfirleitt lipur hjá Yrsu sem beitir myndlíkingum af kímni og húmor. Stundum missa þær þó marks og smá gúgl um Dieter Roth hefði kannski sýnt að Jackson Pollock ætti betur við á einum stað. Þess á milli skrifar hún fínan texta og á tveimur stöðum staldraði ég sérstaklega við og las aftur senur þar sem mér þótti höfundi takast einstaklega vel að fanga mótsagnakennt og  mettað andrúmsloft. Þá þykir mér lokaatriði sögunnar vera afar vel heppnað – það hvílir falleg værð yfir textanum á meðan nístandi sársaukinn kraumar undir. Og allt í einu gerir lesandi sér grein fyrir að höfundur hefur kannski ekki alveg sagt skilið við sögupersónurnar sem hún kynnir til leiks í Aflausn en þær eru vægast sagt ansi safaríkar.

Vera Knútsdóttir, desember 2016