Beint í efni

Argóarflísin, Goðsagnir í aldanna rás og Penelópukviða

Argóarflísin, Goðsagnir í aldanna rás og Penelópukviða
Höfundur
Sjón
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Argóarflísin, Goðsagnir í aldanna rás og Penelópukviða
Höfundur
Karen Armstrong
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Argóarflísin, Goðsagnir í aldanna rás og Penelópukviða
Höfundur
Margaret Atwood
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er best að játa það strax að sería af þessu tagi, þarsem höfundar eru fengnir til að skrifa bækur með goðsagnaívafi, og fræðimaður fenginn til að skrifa inngangsrit, er gasalega eitthvað fyrir mig. Bæði er ég goðsagnafíkill og svo finnst mér alltaf gaman að svona seríu-konseptum, og svo er ég líka hrifin af því að fræðiskrif séu sett í samhengi við skáldskap.

Vonbrigðin urðu því kannski óþarflega mikil þegar ég hóf lestur á inngangsriti Karenar Armstrong, Goðsagnir í aldanna rás. Armstrong þessi er dálítið spútnik í trúarbragðaskrifum og hefur skrifað mikinn fjölda rita, þeirra þekktast í dag er líklega A Story of God eða Saga Guðs. Ég vænti því einhvers sem ég hvergi fann í bókinni, en veit þó ekki almennilega hvað var. Og þó, ég vildi fá innsýn, innblástur eða bara ánægju af því að lesa gott yfirlitsrit um efni sem ég þekki nokkuð vel til og hef mikinn áhuga á. Í stuttu máli fann ég ekkert af þessu, yfirlit Armstrong er afar hefðbundið, stíllinn upphafinn og næstum andaktugur á stundum. Þýðing Ingunnar Ásdísardóttur er að sama skapi nokkuð stirðleg og allt þetta gerði lesturinn lítt gleðilegan. Ég tek það þó fram að sem upplýsingarit um ferð goðsögunnar í gegnum tímann er rit Armstrong ágætt, hefðbundið eins og áður sagði, en allt saman þar í lagi og á sínum stað.

Í lok verksins fjallar hún um hnignun goðsögunnar í nútímanum (utan mögulega dýrkun á poppíkonum) og vísar fram til bókmenntanna og nefnir að mögulega hafi bókmenntir tekið við hlutverki goðsögunnar. Þetta er kenning sem fræðifólkið Georges Bataille og Julia Kristeva hafa fjallað þónokkuð um í sínum verkum, en Armstrong virðist ekki þekkja til þeirra, allavega vísar hún ekki til þeirra skrifa. Þetta er synd því þar eru skemmtilegar kenningar á ferðinni sem hefðu gefið góðan tón fyrir framhaldið.

Gleðina tók ég á ný við lestur á Penelópukviðu Margaret Atwood, en það er fyrsta skáldverkið í þessari ritröð. Hér er Atwood í miklum femínískum ham og skrifar söguna útfrá Penelópu, hinni bíðandi konu Ódysseifs. Inn í frásögn hennar fléttar hún kór hinna tólf þjónustumeyja sem Telemakkus hengdi eftir að þeir feðgar höfðu slátrað biðlum Penelópu. Þær tala yfirleitt í ljóðum að hætti forngrískrar leikritunar. Hér er margt forvitnilegt, bæði fær lesandinn innsýn í líf Penelópu áður en hún varð ‘bara’ kona Ódysseifs, og svo teiknar Atwood heim Hadesar skemmtilega upp, en þaðan segir Penelópa söguna. Helsti gallinn er hinsvegar hin femíníska áhersla, sérstaklega eins og hún birtist í kór hinna tólf þjónustumeyja, en þar ber hugmyndafræðin skáldskapinn á stundum ofurliði. Þannig verður saga Atwood á köflum of mikill góður femínismi og of lítill góður skáldskapur. En inni á milli eru afarskemmtilegir sprettir, og það skín í gegn hversu höfundur hefur haft mikla ánægju af þessum goðsagnaleik. Atwood þýðir Sigrún Á. Eiríksdóttir og skilar því með ágætum.

Hamingjan varð þó eiginlega alger að Argóarflísinni lokinni, en þar sýnir Sjón og sannar að hann getur vel haldið áfram að hirða smádótarí eins og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs upp af götu sinni. Sjálfur sagði höfundur að besta lækningin við svona verðlaunum sé að skrifa nýja bók, en slíkt hlýtur þó einnig að vera hættuspil, því óneitanlega kemur samanburðaráráttan upp í lesendum jafnt sem rýnum. Það er því best að afgreiða þá hlið málsins strax: Argóarflísin er ekki síðri bók en Skugga-Baldur og minnir reyndar um margt á hana, bæði í formi og stílbrögðum. Reyndar var það ekki bara Skugga-Baldurinn sem kom upp í hugann, en þarna var einnig margt sem minnti mig á Með titrandi tár: Glæpasögu, frá 2001. Það fyrsta sem verður fyrir er afarfalleg kápa og teikning fremst og aftast í bókinni, Gunnar Karlsson á teikningar, en hin alltumvefjandi Ásta S. Guðbjartsdóttir mun hafa gert kápuna.

Sagan segir svo frá Valdimar Haraldssyni, sem vegna áhugamáls síns á fiskáti hins norræna kynstofns er staddur á farmskipi í eigu útgerðarfélagsins Kronos, en eigandi þess er faðir gamals vinar Valdimars, sem nú er látinn. Sagan snýst svo um máltíðir um borð í skipinu, aðallega meðan það er statt í norskum firði, en þar er það hlaðið pappamassa sem flytja á til Tyrklands. Valdimar situr við háborðið með skipstjóra og öðrum yfirmönnum um borð og meðal þeirra er Keneifur nokkur, annar stýrimaður. Sá reynist sögumaður mikill og eftir að hafa hlustað um stund á viðarbút sem hann hefur jafnan meðferðis, þá segir hann sögu í lok hverrar máltíðar. Það er sagan af ferð hans með Jasoni, á margneglda skipinu Argó, til fundar til gullreyfið og Medeu. En saga Keneifs nær ekki svo langt, við staðnæmumst með honum á eyjunni Lemney, hana byggja einungis konur því karlpeningurinn hefur að sögn yfirgefið svæðið.

Þannig blandar Sjón saman hinu norræna og hinu suðræna, praktískum kenningum Íslendingsins Valdimars sem hefur óþarflega mikinn áhuga á kynstofnum og dulúðugum ævintýrum suðrænna goðsagna, þar sem ekkert er sem sýnist. Reyndar á það við um Valdimar sjálfan líka og söguna í heild, en líkt og Skugga-Baldur er hún margslungin, þrátt fyrir að vera ekki mikil um sig og tengsl norðurs og suðurs finnast ekki bara í aðalpersónunum. Þetta samspil í tíma og rúmi birtist síðan á sérlega glæsilegan hátt í tungumálinu, en höfundur hefur örugg tök á þeim ólíku stílum sem hann teflir saman, gamaldags hofmóðugu tungutaki Valdimars, frá því um miðja öldina og eigin stefi við goðsögulegt tungumál Óvíds og Hómers og þeirra félaga. Og í gegnum þessi stílbrigði birtist svo alltaf hinn lúmski húmor höfundar og sérstæð tök hans á hinu undarlega og óvænta.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005