Beint í efni

Átök í álfheimum

Átök í álfheimum
Höfundur
Gunnar Theodór Eggertsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur,
 Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Stjörnuljós er þriðja og síðasta bókin í fantasíuþríleiknum Furðufjall eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Furðufjall hverfist um tvo afskaplega ólíka krakka, sem eiga það þó sameiginlegt að þrá ekkert heitar en að lenda í ævintýrum og fá að upplifa eitthvað spennandi. Í fyrstu virðist þeim báðum ætla að verða að ósk sinni, en óskir geta líka verið varasamar og snúist upp í andstæðu sína, ef ekki er farið að öllu með gát. Í fyrri bókunum tveimur, Nornaseiði og Næturfrosti, kynnumst við aðalpersónunum, bakgrunni þeirra og heiminum sem þær búa í og þá er einnig lagður grunnurinn að lokauppgjörinu sem aðalpersónur standa frammi fyrir í upphafi síðustu bókarinnar. Þar sem bækurnar þrjár hanga allar saman og næsta bók hefst þar sem þeirri fyrri lauk er nauðsynlegt að lesa þær allar þrjár og alveg óhætt að mæla með að lesa allar í beit.

Andreas er almúgastrákur og lifir ósköp fábrotnu lífi, en hann dreymir í upphafi Nornaseiðs um að komast í þjónustu riddara og fá að hitta prinsinn sem ríkir yfir landinu hans. Íma er hins vegar álfastúlka og höfðingjadóttir sem býr á dularfullri hulinni eyju í norðri, sem manneskjur hafa bara heyrt um í þjóðsögum. Ímu dauðleiðist og þráir að fá að fara í læri til nornanna eins og systir hennar, en kemur sér í töluverð vandræði eftir að hún beitir óvart sterkum galdri sem leiðir til dauða hafgyðju sem er ein af fjórum verndurum eyjunnar. Dauði gyðjunnar hefur miklar afleiðingar fyrir álfana þar sem eyjan er ekki lengur falin og er þar með óvarin fyrir ferðalöngum úr mannheimum. Ímu verður samt að ósk sinni; hún fær að fara til nornanna sem halda til fjallinu á eyjunni miðri, þeim finnst öruggast að hafa auga með henni til að hafa hemil á kröftum hennar.

Á sama tíma en á allt öðrum stað í heiminum tekst Andreasi það sem hann dreymir um þegar hann kemst í þjónustu riddara í höllinni, en verður svo fyrir því óláni að koma sér í ónáð hjá prinsinum. Prinsinn er grimmur og hefnigjarn og Andreas neyðist til að flýja ásamt fjölskyldu sinni og fleiri útlögum. Þau taka stefnuna á eyjuna földu sem Andreas er sannfærður um að sé til í raun og þvert á áhyggjur margra í hópnum tekst þeim að finna hana.

Í framhaldinu, Næturfrosti, kemst Íma að því að ekki er allt með felldu í fjallinu og nornirnar geyma þar hrikalegt leyndarmál. Þær eru tilbúnar að fórna hverju eða hverjum sem er til að halda því leyndu, þar sem vald þeirra og virðingarsess meðal álfa veltur á því að leyndarmálið komi ekki fram í dagsljósið. Andreas, fjölskylda hans og útlagahópurinn taka upp búsetu í yfirgefinni álfaborg á eyjunni og gera samkomulag við álfanna í kring um að þau megi búa þar í friði. Íma og Andreas kynnast svo óvænt þegar þau rekast hvort á annað í hlíðum fjallsins í miðju eyjunnar og þrátt fyrir að vera varkár og tortryggin í fyrstu tekst með þeim vinátta, enda eiga þau ýmislegt sameiginlegt þrátt fyrir að vera ólík. Bæði búa þau til dæmis yfir sterkri réttlætiskennd og eru trú sjálfum sér og sannfæringu sinni, sem kemur þeim reyndar oft í vandræði.

Þó Andreas og Íma sjái kosti við að menn og álfar búi saman í friði, leika álfahöfðingjarnir sem sömdu frið við mannfólkið tveimur skjöldum og hafa þrátt fyrir friðarsamkomulagið líka gert samkomulag við nornirnar, með það markmið að losna við mannfólkið af eyjunni. Á eyjunni ríkir nefnilega eilífur dagur, fyrir utan eina langa nótt, þar sem illar verur fara á kreik og slátra öllu því sem verður á vegi þeirra. Verurnar, sem eru afskræmd álfaskrímsli, gegna mikilvægu hlutverki í valdajafnvægi eyjunnar og þær verða að fá sína fórn, annars fer allt úr skorðum. Þegar nóttin skellur á eiga Andreas og fjölskylda hans sér einskis ills von. Íma fær fréttir af svikum álfanna og er algerlega miður sín. Hún strýkur úr nornafjallinu til að reyna að bjarga mannfólkinu undan skrímslunum sem eru alveg tryllt úr hungri og vilja tæta þau í sig. Henni tekst við illan leik að bjarga Andreasi og nokkrum öðrum, en allt er breytt og ljóst að grimmd og illvirki einskorðast ekki við valdagráðuga prinsa.  

Stjörnuljós hefst þar sem Næturfrost skildi við lesandann. Íma er nú fangi mannfólksins, sem er reitt yfir svikum álfanna og vill nota hana til að beita álfahöfðingjan föður hennar þrýstingi. Henni berst þó óvænt aðstoð í prísundinni þegar töfravera birtist henni og sýnir henni útgönguleið. Hún er leidd heim í Nornafjallið, en þar tekur síst betra við þar sem norninar eru henni ævareiðar. Þær kenna henni um að hafa spillt samkomulaginu sem þær gerðu við álfahöfðingjana, sem átti að slá tvær flugur í einu höggi, friðþægja skrímslin og losa álfana við mannfólkið. Íma sleppur naumlega frá þeim þegar furðuveran birtist henni aftur og leiðir hana á ókunnar slóðir lengst inni í fjallinu og að vel geymdu leyndarmáli nornanna. Hún áttar sig á því að eina leiðin til að lífið geti haldið áfram á eyjunni er að draga þetta ógnvænlega leyndarmál fram í dagsljósið og leysa úr því. Í millitíðinni hafa herskáir álfar laumast inn í álfaborgina til að frelsa Ímu, en þegar þeir átta sig á því að hún er horfin ræna þeir Andreasi í staðinn og halda með hann í herbúðir sínar. Það eru þó ekki aðeins leyndarmál nornanna sem ógna friðinum á eyjunni, heldur stefnir prinsinn hefnigjarni með flotann sinn til þeirra. Hann ætlar sér að finna Andreas og refsa honum og á sama tíma ná völdum yfir eyjunni og auðlindum hennar. Hermenn hans eru nú þegar komnir til að leita að Andreasi og þeir ráðast á álfanna sem halda honum föngum. Allt stefnir í að prinsinn fái vilja sínum framgengt, en þá berst hjálp úr óvæntri átt. Þau Íma og Andreas verða að sameina krafta sína og beita öllum sínum sannfæringarmætti til að sameina álfa og menn gegn innrásarlýðnum og bjarga þar með samfélaginu á eyjunni.

Furðufjall þríleikurinn er sígild fantasía. Hún gerist í öðrum heimi þar sem álfar, nornir, furðuverur og skrímsli eru til og eru eðlilegasti hlutur. Sagan sækir einnig innblástur til ævintýra, þar sem til dæmis mætti líkja Andreasi við dæmigerðan kolabít, fátækan almúgadreng, sem heldur á vit ævintýra og sigrast á hinu illa. Auk þess eru atriði úr þjóðsögum áberandi svo sem göldróttir álfar og sjávarvættir.

Eins og algengt er í fantasíum er upprunasaga heimsins rakinn en einnig er þjóðsögum álfa, hefðum þeirra og venjum lýst, ásamt dýralífi og gróðri sem ekki þekkist meðal manna. Heimi sögunnar er lýst nokkuð ítarlega og sögusviðið minnir helst á miðaldir sé horft til lýsinga á fötum, umhverfi og samfélagsskipan, sem er einkenni klassískrar fantasíu allt aftur til Tolkien. Eiginleikar álfa eru mismunandi eftir því hvaðan þeir eru á eyjunni, fatnaður og útlit eru ólík  og svo mætti lengi telja. Fremst í bókinni er kort yfir álfaeyjuna, sem kemur sér afskaplega vel fyrir lesandann þar sem staðir og staðsetningar skipta máli fyrir bakgrunninn og framvinduna. Myndir Fífu Finnsdóttur endurspegla textann vel, þær hafa yfir sér ævintýralegan fantasíublæ, sem eykur enn á áhrif sögunnar. Myndirnar eru útpældar og stundum getur glöggur lesandi fundið í þeim smáatriði sem tengjast framvindu sögunnar eða persónum hennar og eiga eftir að skýrast seinna.

Líkt og í fyrri bókunum er sagan sögð í fyrstu persónu, til skiptist frá sjónarhorni Andreasar og Ímu, og til aðgreiningar er mismunandi leturgerð notuð fyrir þau hvort um sig. Frásagnarstíllinn er léttur og skemmtilegur, þar sem Andreas og Íma skjóta bæði reglulega inn í frásögnina athugasemdum um framtíðina og hvernig þau héldu að hlutirnir myndu fara. Persónur sögunnar eru sannfærandi og þrátt fyrir að þær séu nokkuð margar og þó að sumar leiki jafnvel lítil hlutverk stíga þær fram ljóslifandi og skýrar. Heimurinn sjálfur er vel uppbyggður og myndar mjög heildstæðan ramma utan um frásögnina.

Furðufjall er afar vandaður þríleikur, og lokauppgjörið í Stjörnuljósi er algerlega í takt við fyrri bækurnar. Aðalpersónurnar tvær ganga í gegnum ýmsar raunir og þrautir, þroskast og verða betri fyrir vikið, hafa aukinn skilning á umhverfi sínu og því hvað það er sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Flókið samspil álfanna á eyjunni og koma mannfólksins sem setur allt úr skorðum varpar fram áhugaverðum spurningum um hvar mörkin liggja milli góðs og ills, hverjir eru vinir og hverjir óvinir, hverjir bandamenn og hverjir andstæðingar. Sagan er margslungin og spennandi og líkt og í mörgum fantasíum má greina í henni allegoríu, eða líkingasögu, þar sem hópur fólks flýr ofríki og sest að í fjarlægu landi þar sem allt er þeim framandi. Þó að vel sé tekið á móti þeim í fyrstu er ekki allt eins og það virðist og koma þeirra leiðir til ágreinings meðal íbúa. Mannfólkið sem flýr illa prinsinn þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum á eyjunni og sannfæra þau sem búa þar fyrir um að þau komi í friði og vilji bara fá að lifa venjulegu lífi. Álfarnir sem ráða þar ríkjum eru margir sannfærðir um að þeim stafi ógn af komu mannfólksins, að álfar og menn séu of ólíkir til að geta lifað saman í sátt og samlyndi. Þegar upp er staðið kemur samt í ljós að þeir eru alls ekki svo ólíkir og eiga jafnvel meira sameiginlegt en þeir gátu ímyndað sér.
 

María Bjarkadóttir, desember 2023