Beint í efni

Bankster

Bankster
Höfundur
Guðmundur Óskarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á vef breska dablaðsins The Guardian birtast nú reglulega topp tíu listar yfir núllta áratuginn, fyrsta áratug þessarar nýju og góðu aldar. Einn þeirra sker sig úr fyrir það að þar er ekki fjallað um eitthvað sem er best, pistlahöfundur leggur fram tillögu að lista yfir tíu verstu bækur áratugarins sem mótvægi við tíu bestu og minnir á að við lifum ekki endilega á tímum góðra bóka og að það sé fullt eins mikilvægt að muna eftir vondu bókunum líka.

Mér varð hugsað til þessara skrifa þegar ég las skáldsögu Guðmundar Óskarssonar, Bankster, sem nýverið var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar sagan um bankahrunið og er sett fram í formi einskonar dagbókar ungs bankastarfsmanns sem missir vinnuna við fall íslensku bankanna. Sambýliskona hans, sem einnig starfar í fjármálageiranum, missir svo líka vinnuna, en fær fljótlega hlutastarf við afleysingar í kennslu - sem hún missir svo reyndar líka.

Dagbókin lýsir því hvernig bankastarfsmaðurinn tekst á við atvinnuleysið og þær breytingar á lífsstíl sem því fylgja, en í stuttu máli þá gengur honum engan veginn að takast á við neitt af þessu. Dagarnir líða í doða og deyfð, hann hangir á kaffihúsum og fer í langa göngutúra og þegar honum býðst aftur starf við bankann þá treystir hann sér ekki til að takast á við það heldur, því þar eru allar aðstæður gerbreyttar og hugmyndafræðin orðin önnur.

Allt er þetta afar snyrtilega gert og það er óhætt að segja að höfundi takist vel að setja lesanda inn í þá tilfinningu tilgangsleysis og andlegs dauða sem grípur bankamanninn, því önnur eins leiðindi hef ég varla upplifað við lestur skáldsögu, allavega ekki síðan ég las Laugardag Ian McEwans (sem kemur einmitt við sögu í fyrrnefndum skrifum á Guardian-vefnum). Sagan er því miður of hlaðin þeirri deyfð sem einkennir upplifun aðalpersónunnar af atvinnuleysinu, það örlar hvergi á húmor eða hlýju og ekki er heldur hægt að segja að í sögunni sé að finna mikil átök, hvorki við hugmyndafræði, í persónusköpun, né samfélagsgreiningu. Þó er þetta þrennt þarna einhversstaðar undirliggjandi, en nær aldrei neinskonar risi.

Bókin byrjar ágætlega með símtölum milli sögumanns og foreldra hans og hugmyndinni að dagbókaskrifum, en svo fer fljótlega að halla undan fæti. Persónurnar eru svo leiðinlegar og óáhugaverðar að það er ógerlegt að finna með þeim nokkra samúð og þegar kemur að mjög svo táknrænni sláturmáltíð (við sömu kerti og höfðu logað þegar hjónaleysin gæddu sér á foie gras stuttu áður), var mér nóg boðið. Mögulega er það markmið höfundar að gera persónur sínar svona fullkomlega ósympatískar og í því samhengi datt mér í hug fræg skáldsaga Bret Easton Ellis, American Psycho (1991, kvikmynduð árið 2000), en sú bók er einnig eftirminnileg fyrir hversu leiðinleg hún er og þar er einmitt lýst ungum mönnum í fjármálageiranum, sem eru allir óendanlega lítið áhugaverðir. Sagan er sögð af siðblindum fulltrúa verðbréfasala sem dundar sér við að pynta og drepa konur í frístundum og er í raun ágætis dæmisaga fyrir fjármálasveiflur núllta áratugarins, svona eftir á að hyggja. Hinsvegar er allan tímann ljóst að markmið sögunnar er að ganga fram af lesanda með persónusköpun og hátterni - og leiðindum sem felast meðal annars í upptalningu á fatnaði og lífsstíl - og deila þannig á þennan innantóma heim fjármálageirans.

Eins og áður segir er það ekki alveg ljóst hvort eitthvað álíka hafi verið markmiðið með Bankster, en hinsvegar er ljóst að sagan varpar áhugaverðu ljósi á kreppuna og ekki síður gróðærið sem fór á undan henni. Það rifjaðist upp fyrir mér hversu ótrúlega leiðinlegur þessi tími glansfrétta af óáhugaverðu fólki var, fólki sem hafði ekkert fram að færa og ekkert að segja, en gerði það samt, ítrekað. Og við lestur bókarinnar gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort þetta væri ekki hin raunverulega ástæða fyrir hruninu; leiðindi.

Á þessum forsendum má auðveldlega færa fyrir því rök að skáldsaga Guðmundar Óskarssonar sé þarft innlegg í bókmenntalandslagið og á sjálfsagt eftir að verða miklvægur minnisvarði tímabils andlegrar kreppu.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009