Beint í efni

Barnið í ferðatöskunni

Barnið í ferðatöskunni
Höfundar
Lene Kaaberböl,
 Agnete Friis
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þegar ég las Drengen i kufferten í fyrra var ég á ferð í Kaupmannahöfn. Ég bjó til skiptis hjá þremur frænkum mínum og stundaði því að skilja farangur eftir í geymsluhólfum aðal járnbrautarstöðvarinnar. Ein frænkan býr þar rétt hjá, við Stampesgade sem liggur fyrir neðan Istedgade og önnur býr aðeins lengra inni á Vesturbrú. Ég var því stöðugt á ferð um sömu slóðir og Nína, söguhetja bókarinnar, þegar hún fyrst finnur barnið í tösku í geymsluhólfinu og leitar síðar uppi vændiskonur til að gefa sér upplýsingar um drenginn í ferðatöskunni.

Það er alltaf dálítið sérstakt að lesa bók á sama tíma og söguslóðir hennar eru mældar og því er sagan mér sérlega minnisstæð. Þar er fjallað um sölu á börnum, þó ekki í kynferðislegum tilgangi heldur til ættleiðingar, en hin ógnin er þó alltaf undirliggjandi. Í þessu tilfelli bætist enn við að barninu er stolið til að bjarga keyptum bróður þess, en sá þjáist af nýrnasjúkdómi. Hér blandast því einnig inn siðferðilegar spurningar sem varða líftækni, en í krafti læknavísinda er nú hægt að bjarga börnum með ólæknandi sjúkdóma ef til er nægilega skyldur líffæragjafi. Læknavísindin hafa hinsvegar ekki svarað þeim fjölmörgu spurningum sem slík krafa á systkini og aðstandendur þeirra vekur upp, en um þetta er einmitt fjallað í skáldsögu Jodi Picault, Á ég að gæta systur minnar? (2006, kvikmynduð 2009). Hér er glímt við svipuð siðferðileg málefni, sem eru að auki sett í samhengi stéttaskiptingar og ólíkra lífskjara íbúa Norðurlanda og fyrrum Austur-Evrópulanda. Börnunum er semsagt stolið frá ungri móður sem býr í Litháen og seld vel stæðum dönskum foreldrum sem ekki geta átt börn sjálf. Þannig er dregin upp nokkuð margslungin mynd, því ljóslega býðst börnunum betra líf í allgnægtum Danmerkur, en það ríkidæmi er svo speglað í örvæntingu móðurinnar og örlögum fyrra selda barnsins.

Söguþræðirnir eru í raun fjórir, en aðalsöguhetjan er Nína sem er ákaflega taugaveikluð og yfirvaldsfælin og þjáist af stöðugum áhyggjum vegna hörmunga heimsins, sérstaklega gagnvart innflytjendum, konum og börnum, en á erfitt með að takast á við að sinna eigin fjölskyldu. Það er hún sem finnur barnið og leggur á einskonar flótta með það, jafnframt því að leita uppruna þess. Hin aðalpersónan er svo móðir barnsins, Sigita, sem leggur í örvæntingarfulla leit að því, en henni svíður enn missir hins. Báðar konurnar eru á barmi taugaáfalls allan tímann, Nína er áhugavert dæmi um vænisjúka persónu sem lesendur elska að hata, en Sigita fær öllu blíðlegri umfjöllun. Og svo er sagt frá glæpamanninum sem á að sjá um barnssöluna og er líka fullur örvæntingar og loks frá ríka danska parinu, aðallega föðurnum, sem kaupir börn eins og ferðatöskur.

Lene Kaaberbøl er þekktust fyrir fantasíur sínar kenndar við Ávítara en virðist ekki síður eiga heima í glæpasöguforminu. Þar skiptir persónusköpunin miklu máli, en sterkar persónur eru einkennismerki Ávítara-bókanna, líkt og þessarar sögu hér. Meðhöfundur hennar er einnig þekkt fyrir barnabækur. Barnið í ferðatöskunni var framlag Dana til skandínavísku glæpasagnaverðlaunanna og keppti þar við Harðskafa Arnaldar Indriðasonar, Hvarfið (sem vann) eftir Johan Theorin og Land draumanna eftir Vidar Sundstøl sem einnig komu út í íslenskum þýðingum á þessu ári. Ólöf Eldjárn þýðir með ágætum, þó ég geti ekki beint séð tilganginn í því að hafa barn í titlinum frekar en dreng.

Höfundarnir halda vel utanum þá ólíku þræði sem spinna söguna og bókin er bæði spennandi sem glæpasaga og athyglisverð fyrir þau samfélagslegu málefni sem hún tekur til, auk þess sem persóna Nínu er sláandi sterk ímynd fyrir þá togstreitu sem margir vesturlandabúar upplifa í dag.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010