Beint í efni

Bátur með segli og allt

Bátur með segli og allt
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Gerður Kristný sendir frá sér tvær nýjar bækur fyrir þessi jól, barnabókina Jóladýrin og skáldsöguna Bátur með segli og allt sem hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrr á árinu. Í þessari skáldsögu er hún má segja á heimaslóðum; söguhetjan, sem er ung kona að nafni Oddfríður, gerist blaðamaður á vikublaði og snýst sagan að hluta um heim blaðamennskunnar sem ég ætla þó ekki að gera að sérstöku umtalsefni hér. Hinn þráðurinn og sá sem er í raun yfirgripsmeiri, er fjölskyldusaga Oddfríðar þar sem áherslan er á samband hennar við foreldra sína og systur. Sagan hefst í erfidrykkju föður Oddfríðar, en við þessi umskipti fer ýmislegt á flot í sálarlífi hennar og hún tekur að gera upp samband sitt við föðurinn og mæðgurnar eftirlifandi og svo ekki síst við sjálfa sig.

Eins og segir á bókarkápu er Oddfríður "óráðin stúlka á þrítugsaldri", hún hefur næstum lokið háskólaprófi í íslensku (á ritgerðina eftir), hefur unnið í snyrtivöruverslun í nokkurn tíma en finnur þörf fyrir að breyta til eftir dauða föðurins. Henni býðst óvenjulegt blaðamannastarf sem felst í því að ráða sig hjá vikublaði til þess eins að njósna um starfsaðferðir og blaðamenn þess og skrifa síðan grein um reynslu sína fyrir samkeppnisaðilann. Oddfríður tekur starfið að sér, er vandræðalaust ráðin á Vikuskammtinn, og tekur í senn til við að tileinka sér blaðamannastarfið og að skrifa umrædda grein í hjáverkum. Hún leikur þannig tveimur skjöldum en þessi óheilindi og tilheyrandi feluleikur eru á vissan hátt speglun á fjölskyldulífi Oddfríðar sem einkennist öðru fremur af sambandsleysi fjölskyldumeðlima við sjálfa sig og aðra þar sem bæði samsæri og samsæriskenningar svífa yfir vötnum og vantraust og ýmis konar dylgjur um óheiðarleika eru daglegt brauð.

Oddfríður var náin pabba sínum en eldri systirin móðurinni, og fjölskyldan skiptist þannig í tvær fylkingar, en systursonur Oddfríðar er sá eini sem allir geta sameinast um að elska. Móðurin hefur oftar en ekki verið í lyfjavímu frá því Oddfríður man eftir sér, og eldri systirin virðist stjórna henni og hafa öll vopn í hendi sér eftir að faðirinn fellur frá. Samband Oddfríðar við mæðgurnar jaðrar við stríðsástand, sérstaklega er kalt milli þeirra systra og móðirin enginn bógur til að ganga á milli. Einu jákvæðu samskiptin sem Oddfríður á við fjölskylduna eftir dauðsfallið er við fyrrnefndan systurson. Það truflaði mig svolítið hve myndin af fjölskyldunni er eindræg og neikvæð, en á móti kemur að Oddfríður segir sögu sína í fyrstu persónu, og hún er afar bitur og sár út í bæði mömmu sína og systur. Mynd þeirra verður allt að því eins og skopmynd, sem dregin er grófum dráttum. Á hinn bóginn eru litríkari og fínlegri drættir í mynd pabbans, enda Oddfríður mun tengdari honum, hann reynir að vera dóttur sinni stoð og sambandi þeirra er lýst á næman hátt, en hann er líka breyskur og glíma hans við eigin skapbresti og vonbrigði skín alls staðar í gegn í frásögn hennar.

Oddfríður er töffaratýpan, hún er kaldhæðin og ekki mikið fyrir að flíka tilfinningum sínum. Í samræmi við það einkennist stíllinn af kaldhæðnum húmor og fjarlægð, og verður persóna Oddfríðar mjög sannfærandi fyrir vikið. Hún er, sérstaklega framan af, að vissu leyti blind á sjálfa sig og tilfinningar sínar, og þannig verður feluleikurinn margfaldur í textanum. Hún er upptekin af yfirborðinu, sem meðal annars kemur fram í mikilli umræðu um útlit og merkjavöru, sérstaklega ilmvötn (afleiðing af snyrtivörustarfinu) og föt. Oddfríður er vel læs á þetta allt saman en oft síður á það sem undir býr, en þetta tekur að breytast eftir því sem á líður frásögn hennar. Hún þarf að velta því fyrir sér með hverjum hún eigi að standa þegar hún er búin að koma sér í þær aðstæður að vinna fyrir tvo andstæða aðila og mál taka að flækjast, en þar mitt á milli stendur hún sjálf með sögu sína / greinina sem er, þegar allt kemur til alls, það sem skiptir mestu máli. Á einu plani er Oddfríður ennþá lítil stelpa sem þráir viðurkenningu og ást foreldra sinna, en hún er líka ung kona sem er að finna sér stað í tilverunni og leita að eigin rödd og sjálfstæði. Það er mikil einsemd og leit í textanum undir hrjúfu yfirborðinu og Gerður Kristný fer ákaflega vel með þennan þráð sögunnar; saga Oddfríðar hreyfir við lesandanum og snertir hann án þess að missa sig nokkurs staðar út í væmni (sem lesendur Gerðar hafa nú væntanlega ekki búist við) en um leið sér hann bresti hennar og húmorinn er aldrei langt undan.

Að lokum langar mig að minnast á fallega kápuhönnun sem gleður augað mjög og fellur vel að innihaldi bókarinnar. Óvenjulegur, en skemmtilegur titillinn skýrist ekki fyrr en langt er liðið á bókina, en hann og kápan saman vísa bæði til veraldar barnsins og hins fullorðna, drauma og leiks og gleðinnar yfir vel sköpuðu verki.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2004