Beint í efni

Bjarg og Heimsendir fylgir þér alla ævi

Bjarg og Heimsendir fylgir þér alla ævi
Höfundur
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ljóð
Bjarg og Heimsendir fylgir þér alla ævi
Höfundur
Eva Rún Snorradóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Undanfarna mánuði hef ég ferðast um Ljóðakort Reykjavíkur sem samstarfsfólk mitt á Borgarbókasafninu hefur staðið í að undirbúa. Mitt framlag hefur verið að fikra mig eftir bókstöfum stafrófsins, fletta bókum og finna ljóð þar sem Reykjavík, götur, hús, hverfi eða torg eru nefnd. Á þessu ferðalagi hefur fyrrum úthverfabúanum orðið ljóst að í borgarljóðum ríkir fullt eins mikil rómantík og í náttúruljóðunum áður. Helsta breytingin er sú að í stað þess að fjalla um upphafna náttúru lýsa flest borgarljóðanna miðbænum, iðulega gegnum rósrauð gleraugu. Laugavegur, Lækjartorg, Austurvöllur og Hljómskálagarðurinn eru algengustu kennileitin sem ég hitti fyrir í Reykjavíkurljóðunum – og náði hámarki sínu í bók Gunnars Dal, 100 ljóð um Lækjartorg.

Miðbærinn er orðinn að hinu nýja (Ís)landslagi vona, drauma og drama og það er í sjálfu sér ekkert að því, þetta ferðalag mitt hefur gefið mér marga gullmola og glatt mig ógurlega. En, ég er eftir allt saman alin upp í úthverfum og þó ég geti ekki kallað mig hreinræktað blokkarbarn þá er fjölbýlishúsið það búsetuform sem ég hef valið mér. Og ég saknaði þess að finna ekki fleiri ljóð sem kynntu fyrir mér ný hverfi eða gæfu mér sýn á þau sem ég hef dvalið í, ljóða sem lýstu lífi utan miðbæjarrómantíkurinnar, ljóða sem fjölluðu um þá tilfinningu að búa í landslagi endurtekinnar byggingarlistar, í blokk sem er eins og allar hinar og innanum fólk sem allskonar. Eiginlega varð ég svolítið undrandi, því þarna leynast svo mörg tækifæri til að leika sér að ljóði.

Bjarg eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur og Heimsendir fylgir þér alla ævi eftir Evu Rún Snorradóttur. Bjarg kom út fyrr á árinu en Heimsendirinn nú í október. Báðar þessar bækur fjalla um líf í fjölbýli, en hvorug er staðsett á Reykjavíkurkortinu mínu. Aftan á Bjargi segir aðeins að blokkin sé á höfuðborgarsvæðinu og káputexti Heimsendans gefur ekkert upp um staðsetningu. Samt kannaðist ég strax við tilfinninguna og sviðið sem Eva Rún lýsir, enda kom á daginn, í viðtali við hina ungu skáldkonu, að bókin geymir minningarbrot hennar frá æsku og unglingsárum í neðra Breiðholti.

Í káputexta Bjargs er sérstaklega tekið fram að „yfirleitt þykja blokkir á Íslandi ekki kjörlendi ljóða“ og eru það orð að sönnu, eins og áður hefur komið fram. Báðar bækurnar sýna hinsvegar ákaflega vel fram á að blokkir eru einmitt kjörlendi ljóða – enda hafa þær svosum áður átt innkomu, sem dæmi má nefna að þriðja ljóðabók Sjóns, Birgitta (hleruð samtöl) (1979) gerist einmitt í blokk. Bókin inniheldur ekki nema átta ljóð, sem eru í raun eitt, ljóðabálkur með þessum inngangsorðum:

Ég heiti Birgitta. Ég bý í fjölbýlishúsi og oft þegar mér leiðist, þá legg ég eyrun að veggjunum í íbúðinni og hlusta á fólkið tala saman ...

Og svo byrja samtölin og þau eru greinilega ekki alveg það sem gera má ráð fyrir úr nýraunsæum blokkaríbúðum úthverfisins: „Hvar eru fætur þínir? / Undir borðinu. / Hvar eru varir þínar? / Bak við runnana, yfir vatninu.“

Bjarg hefst á nokkuð hefðbundinni ljóðrænni tilvísun, í Eyðiland móderníska skáldsins T.S. Eliot:

Sigga finnst apríl grimmastur andvaka loðir föst við bringuna rænir svefni af kodda treður undir lak  Sængin minnislaus og hlý snjóbreiða konan á koddanum fjarlæg vera 

Ljóðið er merkt „1a“, sem vísar til íbúðarinnar og staðsetningar hennar í húsinu og þannig eru öll ljóðin merkt, skáldkonan fikrar sig milli íbúða og hæða og hittir þar fyrir íbúa í ýmsum athöfunum. Bókin er því að nokkru leyti saga, saga þessa fólks og sambúðar þeirra.

Á sama hátt er Heimsendir fylgir þér alla ævi einskonar saga, saga frá lífi stúlku í blokkahverfi. Hér er sjónarsviðið víðara, því allt hverfið er undir, þó blokkin og stigagangurinn taki sitt pláss:

Í þessum stigagangi hafa búið: Öldruð móðir dægurlagasöngvara sem sagði krökkunum að hún hefði hent giftingarhringnum sínum í sjóinn Þýsk kona. Enginn þekkti tengsl hennar við gamla manninn.  Tveggja barna faðir sem síðar fékk banka að gjöf frá góðum vini. Veik kona sem skrifaði miða til íbúanna og hengdi á hurðina sína. Ættleidd systkini frá sitthvoru Asíulandinu. Unglingur í kjallaraherbergi sem samdi lög til foreldra sinna á þriðju hæðinni.

Eva Rún lætur þessar smámyndir nægja, en fyrir Sigurlín Bjarney eru þær upphafið af heilmiklum lýsingum: 

Örn er með augun límd á tónsprotanum skilur hvorki upp né niður í þessum stöðugu taktbreytingum sem lífið er Týndi sprotanum stal heklunál úr skúffu hjá Bjarteyju sem aldrei læsir 

Þannig eru bækurnar gerólíkar, þrátt fyrir að viðfangsefnið sé svipað, og sem slíkar ákaflega gott dæmi um það að þrátt fyrir að byggingarlandslag úthverfanna einkennist af endurtekningum þá þýðir það ekki að ljóðin þurfi öll að vera eins. Bjarg er fyrirferðarmeiri og ljóðmálið ævintýralegra og flóknara, tilvísanirnar eru fjölþættari og tilvistarleg stef áberandi. Titilinn eykur enn á tilfinninguna fyrir hinu ævintýralega, en bjargið vekur með mér hugrenningatengsl til álfasteina og fjölbýlisforms þeirra: Sigurlín Bjarney hefur áður sent frá sér örsagna/prósaljóða bókina Fjallvegir í Reykjavík, þar dregur hún fram eftirminnilegar myndir af húsum sem steinum og steinunum sem híbýlum þjóðsagnavætta. 

Titillinn Heimsendir fylgir þér alla ævi kallar á önnur hugrenningatengsl, um úthverfið sem ystu mörk byggilegrar tilveru, en getur líka vísað til þess að það að flytja úr úthverfinu sé einskonar heimsendir – sem fylgi þér alla ævi. Þetta er undirstrikað í einu ljóðinu:

Ljóðin sem struku að heiman fjölluðu um: - Strætóbílstjóra sem heilsast að því er virðist tilviljanakennt þegar þeir renna sér inn og út úr Mjóddinni - Konu sem keypti sér varalit og fann hann svo ekki í öllu draslinu - Sviplaus börn í trúðabúningum - Indíánahöfðingja úr fyrri lífum og hvernig þeir takast á við blokkarlífið - Fólk sem er svo hresst að það stafar frá því ljósmengun

Tungutakið er hversdagslegra, Sigurlín Bjarney notar hversdagsleikann sem útgangspunkt fyrir ævintýralegar vangaveltur en sjálfur hversdagsleikinn er markmið Evu Rúnar, að fanga augnablikin og afhjúpa þau.

Ég hef áður lýst hrifningu minni á skrifum Sigurlínar Bjarneyjar, og Bjarg gerir ekkert annað en að staðfesta að þarna er komin skáldkona sem full ástæða er að fylgjast með. Eva Rún er hinsvegar spáný á vettvangi ljóðsins en á sér bakgrunn í leikhúsi og gjörningum. Með bókum sínum hafa báðar hafa lagt fram mikilvægan skerf til borgarljóða, sem ber að fagna. Báðar bækurnar eru, hvor á sinn hátt, auðlesnar og aðgengilegar, ísmeygilega fyndnar en jafnframt tregablandnar, eða með öðrum orðum, frábærir fulltrúar fjölbýlisins.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2013