Beint í efni

Blindhríð

Blindhríð
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Veðurfréttamaðurinn Stefán kynnist breskri konu um borð í flugvél á leið til Íslands árið 2002. Þau eyða saman einni nótt á hóteli í Keflavík. Fljótlega fer honum að berast bréf frá konunni frá ýmsum stöðum á landinu og síðan tölvupóstur eftir að hún er komin til síns heima. Hann svarar litlu sem engu en líst illa á blikuna því að skeytin taka sífellt á sig óviðfelldnari svip. Stefáni verður brátt ljóst að þarna er um að ræða rafrænar ofsóknir eltihrellis eða netkvala. Ekki tekst að stöðva póstinn sem berst á netfangið á sjónvarpsstöðina, vinnustað Stefáns, þótt reynt sé að blokkera ofsækjandann og breyta netfangi Stefáns. Violu eða Fjólu, eins og hún kallar sig, tekst alltaf að finna leið fram hjá öllum varnarmúrum, meðal annars með því að breyta sífellt sínu eigin netfangi og senda frá nýjum þjónustumiðlum. Einnig sendir hún af og til ógnvekjandi sms-skilaboð.

Andlegri heilsu aðalpersónunnar hrakar nú ört, hann getur ekki látið ógert að lesa skeytin og þar fer Viola mikinn í lýsingum sem eru að miklu leyti kynferðislegir órar, ósvífnir og gjarnan ofbeldisfullir og segja frá kynnum hennar af ýmsum elskhugum og hvernig þeir fara að því að fullnægja henni og hún þeim, og eiginmaður sem er hálfgert gauð kemur líka við sögu. Hún virðist ferðast mikið og hefur átt elskhuga í hverri höfn. Það sem ýtir Stefáni út á ystu nöf eru upplýsingar sem hann lét út úr sér nóttina góðu (eða slæmu) í Keflavík og varða samstarfsmann hans. Tekst henni að koma því þannig fyrir að illa fer fyrir þessum manni.

Þegar konunni virðist áhugaleysi Stefáns fulljóst fer hún í hálfkæringi að biðja hann um að útvega sér áhugasamari ástmann, ekta víking, enda virðist hún í vergirni sinni vera með víkinga á heilanum. Hann tekur þessum nýja snúningi með fyrirvara, enda þess fullviss að hann sé eftir sem áður skotmark Violu. Stefán, sem er nokkuð venjulegur íslenskur helgaralki með sæmilega stjórn á drykkjunni, fer að endingu verulega yfir strikið og í kjölfar þess tekur hann sig á og ákveður að grípa til sinna ráða.

Inn í söguna fléttast samskipti Stefáns við fjölskyldu sína og ástarævintýri með samstarfskonu. Sorgleg er sagan af Jóa bróður sem næstum drukknar og verður upp frá því allt annar Jói en hann var áður. Samt er ákveðin fjarlægð á þennan átakanlega atburð og ekki hægt að segja að Sindri gangi fram af tilfinningum lesenda sinna. Áfram ríkir hlutleysi í frásögninni.

Sindri hefur áður sent frá sér þrjár skáldsögur og smásagnasafn auk ljóðabóka. Andrúmsloft Blindhríðar er dálítið sérstætt; kaldranalegt og tilfinningasnautt eins og íslenskt veðurfar þótt mikið gangi á í sálarlífi aðalpersónunnar. Það er hægur svali, jafnvel rok á köflum, í þessari sögu um hið ómanneskjulega í manneskjunni. Talsvert um óvænt myndhvörf, og þótt þau lýsi vel tilfinningalegu uppnámi Stefáns, einkennast þau um leið af þessari kaldhæðni sem nóg er af í bókinni: „Reykjavík var öll hnípin og eymdarleg einsog hross sem veðrið lemur úti í haga.” „Blóðrauðir tveggja hæða strætisvagnar líða annað slagið hjá einsog kolryðguð skip  hlaðin líkum.” „…sjónvarpsbláminn lagðist eins og helgríma á andlit borgarbúa.”

Ekki getur þetta beinlínis talist glæpasaga þótt fjallað sé um glæpsamlegt athæfi og vissulega sé skyldleiki við sálfræðiþrillera. Síðustu tvær, þrjár blaðsíðurnar gera alveg út um að hægt sé að setja bókina í þann flokk. Sindri Freysson er höfundur sem kann vel sitt fag. Þetta er fjörlega skrifuð og djörf bók sem heldur athyglinni allt til enda.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2013