Beint í efni

Blóðregn

Blóðregn
Höfundar
Embla Ýr Bárudóttir,
 Ingólfur Örn Björgvinsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fyrir rétt um hálfri öld varð fræg umræða um smekkleysi myndasagna í bandarískum rétti. Útgefanda EC myndasagna (Entertainment Comics), William Gaines, var gert að skera úr um hvort forsíða á myndasögu á vegum hans, Vault of Horror, væri smekkleg eða ekki. Síðan sýndi karlmannsbúk með exi í annarri hendi og afhoggið höfuð í hinni. Í bakgrunni mátti greina höfuðlaust lík. Hneykslaðir kviðdómarar hristu höfuðin yfir þessum ósköpum, en útgefandinn fullyrti að forsíðan væri fyllilega smekkleg: ósmekkleg væri hún hinsvegar ef höfðinu væri lyft og því hallað afturábak svo opinn strjúpinn blasti við. Röksemdir Gaines voru ekki teknar til greina og myndasögur í Bandaríkjunum (og í kjölfar þessa, Bretlandi) þurftu að sætta sig við eina hörðustu ritskoðun sem nokkurt (list)tjáningarform eða miðill hefur orðið fyrir á tuttugustu öld – í svokölluðum lýðræðisríkjum, það er. Ritskoðun þessi olli svo stöðnun í forminu, allt fór í hnút þartil öflug neðanjarðarstarfsemi fór í gang á sjöunda áratugnum, en hún hristi rækilega upp í miðlinum og skapaði að lokum vettvang fyrir fjölbreytta notkun myndasögunnar sem listforms. Í Bandaríkjunum og Bretlandi það er að segja, í myndasögulöndunum Belgíu og Frakklandi hafði myndasagan alltaf verið notuð sem miðill fyrir hvaða sögu sem var, enda eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að tjá með myndasögu.

Þessi harðsoðna saga myndasögunnar á að leggja grunninn að umfjöllun um Blóðregn, nýja myndasögu Emblu Ýrar Bárudóttur og Ingólfs Arnar Björgvinssonar. Blóðregn er byggð á Njálssögu, nánar tiltekið síðasta hluta hennar, og hefst á því að Kári sleppur úr brennunni og gengur svo út á hefndir hans, samhliða umfjöllun um tilgang hefnda í samfélagi sem þegar er orðið kúgað af eilífu blóðregni heiðursmanna miðaldasamfélagsins.

Ég verð að játa að mér hefur alltaf leiðst Njála, og þegar ég frétti að nú ætti að færa hana í myndasöguform varð ég fyrir vonbrigðum. Hinsvegar varð ég ekki fyrir vonbrigðum með Blóðregn og er ekki laust við að sagan hafi gefið mér nýjan áhuga á Njálu, allavega nýja sýn á söguna. Sagan gengur vel upp, hún er þétt og rennur vel, hæfilega blóðug (smekkleg í skilgreiningu Gaines, engir strjúpar þó nóg sé af afhoggnum höfðum), og hæfilega dramatísk. Persónusköpunin virkar sömuleiðis vel, þó erfitt sé fyrir mig að dæma um hvernig lesendur sem eru algerlega ókunnugir Njálunni upplifi söguna. En miðað við hvað ég hef reynt mikið til að gleyma henni, þá...

Íslendingasögurnar eru mjög myndrænar eins og oft hefur verið bent á, þarsem áhersla er á skorinortar lýsingar og atburðarás, en minna gert úr því að velta sér upp úr sálarlífi persóna og leikenda. Það er greinilegt að höfundar Blóðregns hafa lært mikið af fyrri tilraunum til að færa myndasögur í form, en Laxdæla Búa Kristjánssonar leið fyrir of mikinn trúnað við textann, eða réttara sagt, það var einfaldlega of mikið af texta. Í Blóðregni er áherslan á að láta myndirnar tala og jafnvægið á milli texta og mynda er mátulegt. Útlit og hönnun eru sömuleiðis mjög hófsöm, þetta er ekki saga sem sver sig í ætt við ofurlistrænar myndasögur, þarsem myndmálið er oft óaðgengilegt og krefst mikillar myndlestursþjálfunar. Þetta þýðir ekki að Blóðregn sé eitthvað einföld eða yfirborðsleg, heldur einfaldlega það að hún er aðgengileg breiðum hópi lesenda.

Útlit sögunnar, litameðferð og hönnun, sver sig frekar í ætt við evrópskar sögur en bandarískar, þó ljóst sé að áhrif bandarískra sagna séu margháttuð og margvísleg, og einskorðast ekki við ofurhetjusögur, til dæmis er vert að minna á að sagan af Prins Valiant er bandarísk. Þó þær sögur séu að ýmsu leyti sambærilegar, þá er ljóst að Blóðregn er nútímasaga, með nútímalegri frásagnaraðferð. Þetta kemur strax í ljós á fyrstu síðunni, en þar er ekki opnað á yfirlitsmynd af sögusviði, eða á aðalpersónu, heldur eru fyrstu þrír rammarnir hálffylltir af reyk. Með þessu er Njáls-brennu komið laglega inn í söguþráðinn, auk þess sem við skynjum að hér er ýmislegt á huldu. Í næstu þremur römmum sjáum við mann með sverð koma út úr reyknum, við sjáum aðeins neðri hluta líkama hans, fæturna og sverðið. Enn er maðurinn okkur hulinn, en ógnin er ljós í krampatakinu sem hann hefur á sverðinu. Í síðustu tveimur römmunum sjáum við svo sama mann á hlaupum út úr reykmekkinum, það rýkur af skykkjunni hans og í rammanum við hliðina standa tveir menn með spjót og skildi sem horfa varkárir í kringum sig, annar er með bundið fyrir augað, og sá stígur fram og að hluta inn í ramma hins flýjandi manns. Enn hefur ekkert orð verið sagt, en sögusviðið er ljóst: hér hafa dramatískir atburðir átt sér stað, einhver er á flótta, og aðrir leita hans.

Á þennan hátt er frásagnarstíllinn markvisst notaður til að segja söguna, en Ingólfur notar einnig innsetta nærmyndaramma til að skapa breidd og spennu í myndmálið, auk þess sem litbrigði, til dæmis milli inni og útisena, eru einnig notuð á áhrifaríkan hátt, sérstaklega í senunni sem gerist í Noregi þarsem Kári fer inn um þakið á skála jarlsins.

Með neðanjarðarmyndasögunum voru myndasögur hrifsaðar úr greipum barna og gerðar að lesefni fyrir alla aldurshópa. Sömu sögu er að segja af evrópskum myndasögum, en þar hefur vægi myndasagna sem ekki-endilega-barnaefnis vaxið mjög á síðustu áratugum. Þær sögur sem voru þýddar hér fyrir einum tveimur áratugum voru þó fyrst og fremst barnaefni, og því miður virðist sú hugsun ennþá ríkjandi að myndasögur séu einungis barnaefni. Það er því ánægjulegt að sjá myndasögu eins og Blóðregn sem ætti ekki síður að höfða til fullorðinna en barna – ætti einfaldlega að höfða til allra sem kunna að meta góðar sögur.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003