Beint í efni

Bókasafn ömmu Huldar

Bókasafn ömmu Huldar
Höfundur
Þórarinn Leifsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það verður að segjast eins og er að bók Þórarins Leifssonar, Bókasafn ömmu Huldar, er ógeðslega skemmtileg. Textinn er fullur af krafti sem birtist í ýkjustílnum sem einkennir söguna, en bókin er í stuttu máli áróðursbók fyrir bóklestri og gegn peningagræðgi þeirri sem keyrt hefur þjóðina í kaf. Og þarna liggur vandinn: þrátt fyrir að ég hafi skemmt mér gasalega vel við lesturinn þá gat ég ekki annað en orðið svolítið hugsandi yfir þessum yfirkeyrða áróðri sem hættir til að verða þreytandi. Á hinn bóginn má líka benda á að áróðurinn er á engan hátt falinn og það er á vissan hátt dáldið gaman að velta sér uppúr honum...

Bókasafn ömmu Huldar er framtíðarsaga og segir frá tíma þegar allar bækur eru horfnar og í stað þeirra eru kominn kapítalismi. Internetið er líka horfið en tölvur eru enn til. Þær ráða sér þó aðallega sjálfar, eða réttara sagt, þeim er stýrt af peningavaldinu sem notar þær eingöngu í auglýsingaskyni og til að mata nemendur í gegnum kennsluvélar á linnulausri stærðfræði og gera þau þannig fær um að reikna út vexti og aðrar hundakúnstir hagfræða. Öll önnur þekking er bönnuð og miðstýringin alger. Sagan er því ekki aðeins áróðursrit heldur fjallar hún líka um áróður, á ákaflega neikvæðan hátt.

Aðalsöguhetjan er Albertína sem flytur í nýtt hverfi vegna þess að skuldir foreldranna eru orðnar óyfirstíganlegar: til að greiða uppí þær þarf stúlkan að leika hið fullkomna barn úti í glugga á íbúðinni sinni á hverjum degi. Þannig smellpassa fréttir dagsins við söguefnið, meira að segja börnin eru skuldsett í græðgisvæðingunni. Og það er fleira sem vísar til nýliðanna atburða, því Þórarinn er naskur á að draga saman ýmsar af ýktustu sögunum úr góðærinu - eini vandinn er að þær voru ávallt þegar svo fáránlegar að þær virka næstum hversdagslegar innanum allar framtíðarfurðurnar.

Einn daginn þegar Albertína kemur heim úr skólanum er þar kominn köttur í ból bjarna, eldgömul kona sem segist vera langalangamma hennar og heitir Huld. Í kjölfar Huldar kemur svo bókasafnið sem á svipstundu fyllir alla íbúðina. Þegar skólafélagar Albertínu komast að þessu heimta þau að fylgja henni heim; þarsem bækur og bóklestur er bannvara hafa börnin augljóslega mikinn áhuga á hvoru tvegga og byrja strax að háma í sig bækurnar - þau yngstu bókstaflega borða nokkrar síður.

En foreldrar Albertínu eru horfnir, eins og foreldrar svo margra annarra barna, því þegar skuldirnar verða of miklar er fullorðið fólk einfaldlega tekið traustataki og látið starfa fyrir Gullbankann, valdamesta bankan á jörðinni, sem staðsettur er á gerfitungli búnu til úr rusli. Þar er fólk látið vinna linnulaust að útreikningum vaxta og lána, svo það tapar sjálfu sér fullkomlega í mjaltarvél kapítalismans.

Eins og í fyrri barnabók sinni, Leyndarmálið hans pabba, er gróteskan allsráðandi í ýktum lýsingum á persónum og umhverfi. Þetta birtist glæsislega í frábærum myndum höfundar, sem hefðu að ósekju mátt vera fleiri (segir gráðugi bókmenntafræðingurinn). Einna flottasta útgáfan af þessu er auðvitað sjálf amma Huld sem reynist vera Grýla sjálf. Sú lýsing ein og sér er lestursins virði, en hún er bara ein af mörgum frábærum senum í þessari bók sem fjallar um hættuna sem felst í bóklestri.

Vísindaskáldsagan á sér heillanga hefð sem verkfæri pólitískrar ádeilu og eru sögur H.G. Wells oft teknar sem dæmi um beitingu formsins. Margar af þessum pólitísku ádeilum hafa náð að hefja sig upp yfir þau ósýnilegu mörk sem greina vissar tegundir bókmennta frá þeim sem nefndar eru ‘fagurbókmenntir’, eins og skáldsaga Georges Orwell, 1984, er líklega þekktasta dæmið um. Vissulega er þessi hlið vísindaskáldskapar mismikið nýtt af ólíkum höfundum á ólíkum tímum, en þó býður megnið af þessum bókmenntum uppá einskonar spegil eða möguleika á sjálfsrýni. Á Íslandi á vísindaskáldskapur sér hinsvegar litla sem enga hefð yfirleitt, þó nýlegar vísinda-legar skáldsögur eins og Mannveiðihandbók Ísaks Harðarsonar, LoveStar Andra Snæs Magnasonar, Herra Alheimur Hallgríms Helgasonar, Svavar Pétur og tuttugasta öldin eftir Hauk Má Helgason og nú síðast Sautjándinn eftir Lóu Pind Aldísardóttur bjóði allar uppá einhverskonar áróður. Það má finna óm af fyrstnefndu sögunum tveimur í bók Þórarins, annarsvegar í hugmyndinni um þá næstum yfirnáttúrulegu heillun sem fólk upplifir við störf sín á Gullbankaplánetunni, en slík heillun er einmitt til umræðu í bók Ísaks, og hinsvegar í ágangi auglýsinga sem Andri Snær fjallar um í sinni sögu. Þó það sé vissulega fagnaðarefni að fleiri höfundar leiti út fyrir raunsæið (þó það sé oft og tíðum næsta ljóðrænt raunsæi) í verkum sínum, þá finnst mér farið að gæta nokkurrar þreytu í þeirri tilhneygingu að nota vísindaskáldsöguna sem svo gagnsætt áróðurstæki, í henni búa einfaldlega miklu fjölbreyttari möguleikar en þeir sem íslenskir höfundar virðast tilbúinir til að takast á við.

En þetta breytir ekki því að það var ákaflega gaman að lesa um bókasafn ömmu Huldar, ekki síst gladdi lokakaflinn lítið hjarta bókaverjunnar sem vinnur á bókasafninu við höfnina.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009