Beint í efni

Borg í þoku

Borg í þoku
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Hávallaútgáfan
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Borg í þoku er fyrsta ljóðabók Hermanns Stefánssonar sem í fyrra sendi frá sér hina eftirtektarverðu skáldsögu Stefnuljós. Í Borg í þoku er brugðið upp svipmyndum af borginni Santiago de Compostela í Galisíu bæði með ljóðum og ljósmyndum. Það er mikill raki í þessari ljóðabók, úði, rigning og bleyta enda fullyrðir ljóðmælandi strax í upphafi að helstu rímorð tungunnar séu regn og einsemd og bætir svo við áskorun: „skáld beitið þeim, nú er lag“ (bls. 9). Auk bleytunnar og regnsins er þónokkur einsemd í þessari bók en samt ekkert harmakvein. Kannski má segja að orðin tvö, regn og einsemd rími líka vel saman. Í öllu falli á rigningin það til að vera einmanaleg og einsemdin getur verið vot, að minnsta kosti tárvot.

Stærsti kostur þessara bókar er skemmtilegt samspil ljósmynda og texta. Ljóðin fjalla samt ekki beinlínis um myndirnar en þegar mynd og texti liggja saman freistast maður til að lesa einhverja merkingu úr samspili þeirra. Myndirnar og textarnir „passa“ misjafnlega vel saman, eða réttara sagt tengist efni ljóðanna og efni myndanna misjafnlega augljósum böndum. Í sumum tilfellum les maður ljóð og finnst eins og það vísi til einhvers sem maður hefur áður rekist á. Ljóðið „Ruela de entrerúas“ lýsir t.d. samnefndu stræti sem ofurþröngum stíg sem liggur á milli tveggja aðalstræta „og blómstrar eins og rós í miðjunni“ (bls. 39). Manni finnst endilega eins og maður hafi rekist á þennan stíg fyrr í bókinni og þegar blaðað er afturábak rekst maður á ljósmynd (bls. 31) af örmjórri götu sem lýsing ljóðsins á mjög vel við. Ljóðin og myndirnar eru sett upp á mjög haganlegan og laglegan hátt. Í mörgum tilfellum liggja ljóðin beinlínis ofan á myndunum án þess að trufla myndefnið því texti ljóðanna fær pláss á auðum flötum myndanna, t.d. á himninum. Sum ljóðanna standa samt ein á hvítum síðum og enn önnur eru á síðum sem eru að mestu auðar fyrir utan að mynd á gagnstæðri síðu teygir sig inn á síðu ljóðsins. Það er reyndar vert að eyða örfáum orðum í myndirnar sjálfar því þær eru afskaplega áhugaverðar. Þetta eru ekki „póstkortamyndir“ úr borginni Santiago de Copostela en ná trúlega betur en slíkar myndir að fanga einhversskonar andblæ sem ég hygg að hægt sé að upplifa í þessari borg. Þær birta brotakennda sýn á þessa borg, og kannski allar borgir, líkt og ljóðin gera reyndar líka.

Í sumum ljóðum bókarinnar má finna einhverskonar söguleg vídd, þar sem atvik úr fortíðinni renna saman við samtímann, t.d. má nefna ljóðið „Svipmynd frá aftöku“ (bls.34) og „Quintana“ (bls. 32). Oft tekst líka vel að tefla saman tveim ólíkum sviðum, glæsilegasta dæmið um það er ljóðið „Líkt og þegar móðir huggar barn“:

Líkt og þegar móðir huggar barn teygir jörðin arma sína til himinsins tárin hrynja látlaust af hvörmum hans hann virðist óhuggandi

ég stend í horninu milli svaladyranna og skrifborðsins líkast til hef ég skrifað mig þangað tæpast staddur þar í raun og veru (bls. 10)

Ljóðið hefst á stórri, mér liggur við að segja stórkostlegri, myndhverfingu um regnið en í stað þess að haldið sé áfram með myndhverfinguna og lagt út af henni á einhvern hátt er lesandanum kippt inn í heim skrifanna sjálfra. Sjálfsmeðvitaður ljóðmælandinn, sem hefur líkast til skrifað sig í hornið á milli svaladyranna og skrifborðsins, gæti verið áhorfandi að regninu en um leið er hann í textanum einhver annar en hann er í skrifunum. Raunar kallast þessi orð í síðara erindi ljóðsins á við stutt inngangsorð á saurblaði en þar segir höfundur: „Þessi bók er skrifuð – af einhverjum sem er ekki ég – á gönguferðum um borgina Santiago de Compostela“.

Það verður þó að segjast að Borg í þoku er nokkuð köflótt en bestu ljóðin eru sérdeilis góð, t.d. ljóðið hér að ofan „Líkt og þegar móðir huggar barn.“ Einnig er vert að minnast á ljóðið „Ölvaða borg“ sem er allt í senn dapurlegt, glettið, taktfast og dálítið rómantískt auk þess sem myndin sem því fylgir er sérlega viðeigandi. Einnig mætti nefna síðasta ljóð bókarinnar „Borgarvillur“ sem er nokkurskonar punktur yfir i-ið enda fjallar það beinlínis um manninn í borginni og þá fjölbreyttu upplifun sem borgir bjóða manni upp á:

Enginn finnur sjálfan sig í borg eins og þessari hér er villugjarnt og annar tími ríkir þröng strætin síbreytileg og ný alltaf eins en alltaf ný

[...]

þetta er borg til að týna sér í ekki finna sig (bls. 62)

Kannski má líka líta á ljóðið sem nokkurskonar lýsingu á bókinni sjálfri því bókin er í vissum skilningi einhversskonar borg. Þessvegna má segja að hún spegli sumpart höfuðkost bókarinnar sem er sterkur heildarsvipur hennar. Þessi heildarsvipur er auðvitað einkum tilkominn vegna þess að skapaður er ákveðinni heimur sem sprettur af borginni Santiago de Compostela. Endurtekin yrkisefni eiga líka sinn þátt í að skapa þennan heildarsvip, þ.e. bleytan, rigningin, þokan, blaut stræti, sjóvæta, sjóræningjar og skip sem sigla um göturnar svo fátt eitt sé nefnt. Þetta tal um sjóbleytu, skip og sjóræningja er reyndar merkilegt og dálítið á skjön þar sem Santiago de Compostela liggur inni í landi. Engu að síður spretta skemmtileg hughrif af myndmálinu. Ljósmyndirnar eiga einnig sinn þátt í þessum heildar áhrifum bókarinnar. Heildarsvipurinn gerir það líka að verkum að veikari ljóð bókarinnar virka í því samhengi sem þau eru, sem hluti af borginni.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2006