Beint í efni

Bréfabók

Bréfabók
Höfundur
Míkhaíl Shíshkín
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Hermann Stefánsson

Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. Af þessum höfundum höfum við fengið talsvert í íslenskum þýðingum á undanförnum árum og áratugum (Tolstoj hreinlega nú í ár, þrjú bindi magnaðrar ævisögu). Gogol kemur einnig í hugann, og Turgenév með sinn „óþarfa mann“. En hvað gerðist svo? Á hverju lúra rússneskar bókmenntir dagsins í dag?

Og hvað ætti að gerast? Hvert er rökrétt skref í línulegri þróun?

Saga vestrænna nútímabókmennta er þessi: Módernismi gerði rómantíska kröfu um nýsköpun og frumleika, um sjálfstætt, hugsandi andóf gegn kennivaldi og fjölfaldaðri flatneskju í vélvæddum, sálarsnauðum heimi, gegn stjórnmálalegu valdi, fagurfræðilegu valdi, fyrirfram skilgreindum tilfinningum. Eftirmódernisminn vefengdi frumleikakröfu módernismans og leitaði í lágmenningu, gerði tilraunir með endurritanir, sótti í frelsi þess að segja sögur sem lúta þekktum og fyrirsjáanlegum lögmálum, nautnina við endurtekningu ævintýrisins. Eftirmódernískar bókmenntir voru vísast nær Dostojevskíj en Tolstoj. Þegar Dan Brown lagði undir sig engilsaxneskan markað með sínum marflötu bókum, unnum út frá dirfskulegum fagurfræðihugmyndum Umberto Eco, var ámælislaust að láta sér detta í hug að dvergar hefðu endanlega tekið yfir. Að allar spár um að bókmenntirnar væru að verða hreinn iðnaður hefðu ræst. Ákveðin þröngsýni breiddist hratt út meðal handritalækna sem vildu frásagnarlögmál Aristótelesar ómenguð, klippt og skorin, og með góðu dassi af ódýrum hugmyndum, klisjum, tilfinningavellu og klámi. Tilraunamennska varð óheimil, formalismi jafn mikið skammaryrði og í Sovétríkjunum. Iðnvæddustu boðskapsbókmenntir létu ekki  hvarfla að sér annað en að form og innihald væru allsendis óskyld og leggja skyldi áherslu á innihaldið, sem skuli vera skrúðlaust, bert, laust við hismi auðmeltanlegt, krókaleiðalaust, með einföldum og réttum skoðunum; með öðrum orðum: lítið.

Ætli það sé kirkjubrot að lýsa skáldskap samtímans sem dauðum iðnaði? Rithöfundarnir vensla sig ekki við neitt háfleygt, innri þörf eða hugsjón, dvergvöxnustu höfundar samtímans vilja ekki einu sinni láta kalla sig rithöfunda, þeir hrista skáldskapinn fyrirhafnarlaust fram úr erminni í hjáverkum og tala með fyrirlitningu um pússun stíls, sýsl með orð, formtilraunir. Furðu illa séð er að flækja tímahugsunina út fyrir eðlisfræði Newtons, jafnvel það eitt er glæpur gegn iðnaðinum, líkt og módernisminn hafi gufað upp sporlaust. Spænski skáldsagnahöfundurinn Javier Marías (já, ég neimdroppa bara ef mér sýnist!) segir á einum stað að fyrir höfund sem dedúar við orðin og hefur fyrir hlutunum, kvelst yfir þeirri iðju að skipta út „og“ fyrir „en“, hnika til fastmótuðum formgerðum, að fyrir þannig höfunda sé samtíminn líkt og veröld full af gangandi uppvakningum, og hann vísar í kvikmyndina Night of the Living Dead. Eina leiðin til að komast af er að þykjast vera dauður eins og hinir. Annar spænskur höfundur (reynið ekki að stoppa mig!), Javier Cercas, orðaði það sem svo að í dag þyrfti höfundur að vera galinn til að gangast við því að vera intelektúel, svo illu orði hefði tekist að koma á það hugtak. Við lifum undarlega tíma. Ég hef jafnvel heyrt því fleygt að Italo Calvino sé ekki fyndinn.

Bréfabók eftir rússneska skáldsagnahöfundinn Mikhaíl Shíshkín hefst á víxlskiptum köflum með ástarbréfum elskenda. Og heldur raunar þannig áfram bókina á enda. Tónninn er Hamsunsk einlægni. Sá tónn er erfiðastur af þeim öllum, það er ekki hægt að falsa hann. Einlægnin má ekki vera mærðarleg og ekki væmin, minnsti feiltónn gerir allt falskt og flatt og ómögulegra en allt sem ómögulegt er. Bréf elskendanna fanga lesandann með þeim magnaða svartagaldri sem einlægni getur verið. Þau ræða það sem ástfangið fólk ræðir, um daginn og veginn, um það sem á dagana drífur, um eigin sögu, um lítilsverða hluti; þau skrifa af innileika og ákafa, af viðkvæmni, af tilfinninganæmi. Stundum eru þau upphafin, stundum húmorísk, stundum glögg og greinandi og fróð, alltaf áköf. Stundum með hugdettum, vísindahugmyndum, klassískri heimspeki, eða undursamlegum kenningum með óvæntum snúningum, eins og þessari hér, um kínverskt ritmál:

Það virðist sem skrifmálið hafi upphaflega verið þróað til að skrá niður réttu aðferðina við fórnir. Myndirnar sýndu sjálfa helgiathöfnina, þátttakendurna og áhöldin sem voru notuð við athöfnina. Og það er mjög skiljanlegt. Og svo gerðist hið undraverða! Sjáðu til, það var þannig að þessi leynilega athöfn varð augljós hverjum þeim sem horfði á myndina. Hundur var hundur, fiskur var fiskur, hestur var hestur og maður maður. Og þá fóru þeir að flækja skrifmálið af ásettu ráði svo að einungis innvígðir gætu skilið það. Táknin fóru að frelsast frá trjánum, sólinni, himninum og ánum. Áður höfðu táknin endurspeglað samræmi og fegurð. Í stað samræmis kom nú sjálf skriftin. Núna endurspeglaði skrifmálið ekki fegurðina heldur var sjálf fegurðin!
(bls. 118)

Bréfaskáldsagan er átjándu aldar bókmenntaform. Þessi litla kenning hér að ofan er nettur viðsnúningur á hugmyndum átjándu aldar um tákn og um náttúrulegt tungumál. Eða kannski örlítið eldri hugmyndum, frá málspekihugsuðinum John Wilkins á sautjándu öld, eða öllu yngri, frá nítjándu öld eða úr tuttugustu aldar módernisma þar sem hana má víða sjá. Bréfabók Shíshkíns minnir um margt á hina alhliða skáldsögu módernismans, verkið sem skyldi ná utan um allt og rúma allan heiminn. Og með einhverjum hætti er Bréfabók algerlega tímalaus og raunar í andstöðu við ríkjandi hugmyndir um tímann. Því elskendurnir tveir eru ekki aðeins fjarlæg hvort öðru á sviði rúmsins, þar sem höf og álfur skilja að, heldur kemur fljótlega á daginn að meðan hann, Volodenka, berst í stríði sem má ráða að sé boxarauppreisnin í Kína, situr hún, Sashenka, heima í umhverfi sem virðist miklu nútímalegra en sögusvið þess stríðs, sem átti sér stað undir lok nítjándu aldar (boxarauppreisnin snerist um afleiðingar nýlendustefnunnar, stórveldin sameinuðust þar gegn uppreisn kínverskra þjóðernissinna). Á þessum tímamismun er engin skýring gefin. Hann gengur fullkomlega upp og er eðlilegur í veröld sögunnar.

Það hefur líka verið sannað með tilraunum að það er eitthvað skrýtið að gerast í sambandi við tímann. Atburðir geta komið fyrir í hvaða röð sem er og fyrir hvern sem er. Það er hægt að sitja í eldhúsi og spila á greiðu með sígarettupappír þannig að mann klæjar í varirnar á sama tíma og maður situr í allt öðru eldhúsi og les bréf frá manneskju sem er ekki lengur til. Þú ert hjá tannlækninum, það er búið að stinga nál upp í rótina og pota í taugina, átta öldum síðar hreyfist svo kögrið á borðdúknum í vindinum. Og almennt er það þannig, eins og menn til forna höfðu þegar áttað sig á, að fortíðin fjarlægist ekki með tímanum heldur nálgast.
(Bls. 207-208)

Afsakið orðbragðið, en andskoti er þetta flott! Alveg sama hvort á það er litið frá sjónarhóli nútímavísindanna eða forneskjunnar, út frá ljóðrænu eða mystík. „Fortíðin fjarlægist ekki með tímanum heldur nálgast.“

Eftir því sem á líður verður sagan í senn frásagnarkenndari og kontemplatívari og á köflum er textinn næsta þéttofinn vefur vísana úr hugmyndasögunni. Erkielskendurnir Abelard og Heloise skjóta upp kollinum eftir miðja bók og manni dettur í hug að þar sé kominn lykill bókarinnar. En loftinu er hleypt úr þeirri hugmynd jafnskjótt:

Manstu hvað sonur Abelards og Heloise hét?

Astralobe.

Og hvað varð um þennan Astralobe? Líklega er saga hans ekki ómerkilegri en saga Hamlets. En enginn mun skrifa hana. Hann er óþarfur maður. Hver man eftir honum?

En, sem sagt, ég mundi eftir honum og vorkenndi honum. Kannski dó hann án þess að þurfa að þjást.
(Bls. 217)

Það eru fleiri eru í spilinu en hinir ástföngnu og einnig eru þriðju hjól undir vagni hjá aukapersónum, án þess að ég ljóstri meiru upp. Enda skiptir það engu máli. Raunar er ekki að sjá að dauðinn skipti öllu til eða frá: Án fyrirhafnar, án tilgerðar, án þess að það kalli á sérstakt melódrama eða einu sinni eftirtekt sigrar ástin dauðann, sem þó verður fyrirferðarmeiri eftir því sem líður á söguna. Stríðslýsingar verða harla óhugnanlegar. Fjölskyldumál verða plássfrekari, ást, skilnaður, sjúkdómar, elli, dauði, dauði. Og alltaf þessar litlu furðulega hugljómandi athuganir:

Myndin var tekin um svipað leyti og getnaður minn átti sér stað. Mamma brosir en augun eru samt alvarleg. Pabbi skellihlær – vissi ekkert enn um sjálfan sig, eða mömmu eða mig. Á gömlum ljósmyndum veit almennt enginn nokkurn tíma neitt um sjálfan sig.
(Bls. 253)

Eða kannski er þetta ekki vel valin tilvitnun. Nær væri að benda á næmar sálrænar athuganir á fólki og umhverfi. Höfundur hefur gott auga fyrir slíkum lýsingum, lag á að útmála það sem er kunnuglegt úr lífinu án þess að auðvelt sé að færa það í orð. Honum er vel gefið að draga upp sterkar senur, ölóður faðir í lest á leið að dánarbeði móður meðan dóttirin situr rétt hjá og læst ekki kannast við hann. Tvær konur sem mætast á götu. Erótískar senur. Hversdagssenur.

Endirinn er með sínu móti óvæntur. Ég, hér í þessu plássi, stefni að jákvæðri niðurstöðu. Rétt er að geta þess að umbrotið á bókinni er ekkert sérstakt, það eru of mörg orð á síðunum, þau eru of neðarlega og innarlega, eins og alltof oft vill brenna við. Kápan er fín. Þýðingin er firnagóð, enda eftir þaulvanan þýðanda úr rússnesku. Það er þrautin þyngri að ferja svona texta á milli mála. Afraksturinn er áreynslulaus texti sem ekki gefur afslátt.

Þetta er ástarsaga. Maður tvístígur við að fella Bréfabók beinlínis í einhverja þrönga eða auðveldlega orðaða kategoríu þar sem ást er sannleikur eða sannleiksleit ellegar kastljós sem beinist að samfélagi og sögu og tæpast verður hún heldur flokkuð sem nein ofurvenjuleg ástarsaga. Þetta er stórfurðuleg bók. Svo innilega laus við útskýringar og einfaldanir, svo gersneydd tilhneigingu til að mata lesanda sinn með teskeið á auðveldum lausnum. Svo laus undan aristótelískum kreddum iðnvæddra bókmennta. En þó er hún svo tær. Og í raun sjálfsögð og einföld.  Við lifum undarlega tíma. Meðalmennska er í hávegum höfð. Ég veit ekki að hve miklu leyti það stafar af sérstakri bókmenntahefð Rússa en einhverra hluta vegna er þessi bók ein þeirra sem mynda sannfærandi svar við undarlegum tímum, halda uppi merkjum klassískra bókmennta og búa um leið til eitthvað raunverulega nýtt. Bókin er áskorun og það er gaman að takast á við hana. Þessi magnaða saga um ást og krókaleiðir setur sig saman um leið og lesið er og ekki síður eftir á. Ég á eftir að melta hana lengi.

Hermann Stefánsson, desember 2014