Beint í efni

Brjálsemiskækir á fjöllum

Brjálsemiskækir á fjöllum
Höfundur
Po Chü-i
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Morgunn

Í klettaskálanum sit ég án þess að sitja. Enn er staupið tómt. Loginn í arninum orðinn að glæðum.

Hér hefur kuldinn skipt sér í þrennt: ísilagða tjörn, hélu á bambus og gamlan mann með snjóhvítt hár.

Samkvæmt formála þýðandans Vésteins Lúðvíkssonar var kínverska ljóðskáldið Po Chü-i ekkert sérstaklega vinsæll í sínu heimalandi og féll alfarið í skuggann af ástsælustu skáldum Kínverja, Li Bai (eða Li Po) og Du Fu (eða Tu Fu), en þeir voru uppi heilli öld á undan Po. Þó deila þeir allir sömu gullöldinni í kínverskum ljóðum, tíma Tang keisaraveldisins (618-907). Sá alþýðleiki og hið skýra tungumál og myndmál sem einkennir ljóð Po munu ekki hafa fallið í nægilega góðan jarðveg, þó fyrir vesturlandabúa sem vanir eru orðskrúði og langsóttu myndmáli ljóða sé kannski erfitt að átta sig svo mjög á muninum á ljóðum þessara skálda. En þó Kínverjar virðist ekki hafa kunnað að meta Po kunnu aðrar Asíuþjóðir það og munu ljóð hans hafa verið þýdd snemma á japönsku og kóreönsku og hafa haft mikil áhrif á skáldskap þessara landa.

Þegar skoðuð eru einföld ljóð eins og “Morgunn” er auðvelt að sjá skyldleika við mínimalisma hækunnar, en myndin af kuldanum sem birtist í þremur myndum gæti fullt eins tilheyrt hæku. Nokkur ljóð af þessu tagi er að finna í bókinni Brjálsemiskækir á fjöllum eftir Po Chü-i, en því fer þó fjarri að þau séu endilega eitthvað dæmigerðari fyrir skáldskap hans en önnur lengri og “léttklikkaðari” ljóð (eitt ljóðanna heitir “Léttklikkað ljóð handa þeim yngri”) auk pólitískra ádeilna og ákaflega skemmtilegra vangaveltna um skáld og skáldskap. Þar að auki fjalla mörg ljóðanna um víndrykkju (!) og um aldurinn og ellina á hugvekjandi og óvæntan hátt (í einu ljóðinu fjallar hann um gleymsku ellinnar: “Hér sannast enn að hugurinn læknar / sjálfan sig best með eigin fjarveru”).

Öll gefa ljóðin sérstæða sýn inn í kínverska menningu og flest gætu þau verið ort af nútímaskáldi, eða réttara sagt, ef ekki væru ártölin (810, 842 og svo framvegis), þá væri auðvelt að lesa mörg ljóðanna sem vestræn nútímaljóð - þrátt fyrir það að þau ilmi einnig af fjarlægum slóðum og tímum. Þessi skemmtilega mótsögn gerir lesturinn á ljóðum bókarinnar Brjálsemiskækir á fjöllum að einstæðri upplifun, því lesandi er hrifinn í ferðalag sem gæti vel minnt á brjálsemi á fjöllum, væntanlega þá helst að vori.

Lítum á dæmi: “Og alltíeinu þá heyrist, utanúr þessari líka / einsemdarkyrrð, gargið úr síðustu gæsinni.” Hér gæti ég vel verið stödd úti á heiði (Kárahnjúkasvæðið kemur óneitanlega uppí hugann) í fylgd með íslenskum samtímaskáldum eins og Geirlaugi Magnússyni heitnum, Gyrði Elíassyni eða Steinunni Sigurðardóttur. Sömuleiðis ljóðið “Nætursnjór”, en þar vaknar ljóðmælandi upp við að það hefur kólnað og glugginn er bjartur, það hefur greinilega snjóað og hann telur víst að snjórinn sé djúpur. Hér gæti vel verið á ferðinni vetrarmorgunn hvar sem er - nema fyrir síðustu línuna sem samstundis hrífur lesandann á framandi slóðir: “Gott að heyra kunnuglegt brak í bambus.”

Ljóðið er mikilvægur hluti af kínverskri menningarhefð, en embættismenn og aðrir af hærri stigum þurftu að geta samið ljóð og kunnað að meta þau. Mikilvægi ljóðsins er síðan hluti af áherslu Kínverja á hið ritaða mál, en þar leikur skriftin - myndletrið og skrautskriftin - einnig meginhlutverk. Svo ég haldi áfram líkingum við íslenskan skáldskap, þá mætti líkja þessu við stöðu skáldskapar fornbókmenntanna, en þar þurftu konungar að kunna að meta dýrt kveðinn skáldskap hirðskáldanna. Af þeim hugnast mér Egill Skallagrímsson best, ekki síst vísur hans og ljóð um að setja saman vísur og ljóð og ljóð um átökin við skáldskaparguðinn. Og nýji vinur minn Po Chü-i, hann skrifar einnig mikið um ljóðið sjálft og brjálsemina í því, en í ljóðunum birtist hálfkæringsleg kergja yfir stöðugri árás skáldskaparandans: “áður en ég veit af er ég með pensil og blek / sem þýðir aðeins eitt: ég klastra saman ljóði” segir í ljóðinu “Veikindi og leti”. Í “Óþörfu ljóði” er hugur skáldsins tómur eftir búddíska iðkun, “ef frá er talinn þessi þráláti kvilli: smá / gola eða tungl - og ég er farinn að yrkja!” Titilljóð bókarinnar, “Brjálsemiskækir á fjöllum” fjallar einnig um ljóðið, en þar tekst á útrásin sem felst í því að yrkja, gleðin í skáldskapnum og svo einhver feimni og hógværð. Hér blandast saman sorgin sem knýr skáldskapinn fram - “leiðir mig til fjalla” - og hugmyndin um skáldskapinn sem sjálfstætt afl - “við þennan / breyskleika stríði ég enn” - og svo einhver brjálsemi sem felst í því að hafa “lokið nýju ljóði”, en þá klöngrast skáldið upp á fjall, leggst á bakið við ystu brún og syngur ljóðið “gæfulaus trylltur sæll...”

Í öðru ljóði, “Að hætti T’ao Ch’ien”, er skáldið enn búið að semja ljóð sem það gerir ekki ráð fyrir að fái mikinn hljómgrunn, en það kemur ekki í veg fyrir að hann fái sér duglega í glas og kyrji ljóðin “grönnunum til skelfingar”, “Og // fyrst ég skemmti mér einn svona ljómandi vel, / hvernig liði mér þá núna með góðum vinum?” Það er einhver tilfinning á borð við þessa sem heltók mig við lestur ljóða Po Chü-i, fyrst þau gleðja mig svona linnulaust, hví skyldi ég ekki deila þeim með öðrum?

Brjálsemiskækir á fjöllum lætur kannski ekki mikið yfir sér en ég efast um að ég eigi eftir að lesa betri bók þetta árið.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005