Beint í efni

Bróðurlegt réttlæti

Bróðurlegt réttlæti
Höfundur
Skúli Sigurðsson
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Það verður ekki annað sagt en að ferill Skúla Sigurðssonar sem glæpasöguhöfundar byrji með ofsa. Í raun byrjar hann í miðju höggi, þar sem svartklæddur og grímuklæddur maður lætur vaða með kylfu í kvið varnarlauss skokkara á fáförnum göngustíg við Rauðavatn. Höggin halda áfram að dynja á manninum þar sem hann liggur á stígnum, með ítarlegum, allt að því nautnalegum lýsingum á því hvernig bein og tennur gefa sig, þar til að sá svartklæddi gerir hlé á barsmíðunum og dregur fram heftibyssu. Senan er stutt og skörp – ekkert spik á henni. Varla er litið til veðurs né eytt tíma í draga upp veröldina eins og hún leit út áður en fyrsta höggið reið af. Árásamaður og fórnarlamb eru nafnlausar verur sem við sjáum einungis innan þess þrönga ramma sem höfundur strengir í kringum þær.

Þetta stutta atriði gefur góðan forsmekk af stíl Skúla eins og hann gerist bestur í þeim fimm hundruð blaðsíðum sem á eftir fylgja. Bókin er löng – eilítið of löng, kannski – en þrátt fyrir það er lítið um óþarfa í textanum. Persónur birtast á síðunni fullmótaðar, án allrar baksögu eða fjölskyldutengsla, og þurfa varla einu sinni á eftirnafni að halda. Á stöku stað stígur höfundaröddin kannski full harkalega inn í frásögnina til að útdeila upplýsingum til lesandans eða færa til leiktjöldin, en almennt beitir bókin lipurlega fyrir sig hinni hefðbundnu, alvitru þriðju persónu þátíð. Síbreytilegt sjónarhornið dugar til þess að draga fram veröldina eins og hún snýr við persónunum hverju sinni, og þannig kemur það lítið að sök að lesandinn veit nánast ekkert um bakgrunn þeirra eða heimilislíf.

Þessi stílbrigði falla vel að helstu lykilpersónum bókarinnar; blaðasnápum og löggum sem eiga sér lítið sem ekkert einkalíf og lifa fyrir hasarinn í vinnunni. Skúli þekkir augsýnilega starf blaðamannsins vel og nær að fanga sveiflurnar á milli ládeyðu og spennu sem starfinu fylgja. Þannig kynnumst við skötuhjúunum Emil og Magneu, sem dunda sér við að hripa niður mannlífslýsingar og smellubeitur fyrir vefmiðilinn Krónikuna á milli þess sem þau eltast við næsta skúbb. Eftir ábendingu frá Atla, innanbúðarmanni sínum hjá lögreglunni, er Emil fljótur á vettvang á Rauðavatni, en undanfarna mánuði hefur hann verið að fylgja á eftir hrinu af líkamsárásum í borginni þar sem gerandanum er lýst sem svartklæddri veru með hulið andlit. Fórnarlömbin eru allt karlmenn, og árásarmaðurinn skilur eftir torkennileg ummerki á líkömum þeirra. Með hjálp Magneu uppgötvar Emil að mennirnir sem ráðist var á eiga sér allir miður fallega sögu og hafa flestir verið ásakaðir um kynferðisbrot af einhverju tagi – einkum nauðganir eða barnaníð – án þess þó að nokkurn tímann hafi komið til kæru. Það verður því ljóst að svartklædda veran – sem blöðin taka að kalla „Stóra bróður“ – er sjálfskipaður hefndarengill sem hefur einsett sér að refsa þeim sem réttvísin nær ekki til. Árásir hans verða sífellt ofsafengnari, og rannsóknarlögreglufulltrúinn Héðinn, gamla brýnið sem leiðir rannsóknina ásamt Atla, spáir því að ekki sé langt þar til Stóri bróðir láti sér ekki nægja að ganga í skrokk á þeim sem hann hefur dæmt seka. Lesandinn fær svo einnig að fylgjast með aðförum þessa huldumanns þar sem hann undirbýr og framkvæmir árásir sínar og upplifir þannig frá fyrstu hendi brenglaða sýn Stóra bróður á samfélagið og réttarkerfið.

Það verður að teljast óvenjulegt fyrir reyfara af þessu tagi hve náið samneyti blaðamennirnir og löggurnar eiga í bókinni. Héðinn og Atli eiga báðir í miklum samskiptum við Emil og leka óspart fréttum til hans þegar þeim þykir æðri máttarvöld innan lögreglunnar farin að skipta sér ótæpilega af og jafnvel spilla rannsókninni. Auk hasarsins er nefnilega mikið um stofnanapólitík í bókinni, bæði innan lögreglunnar og á meðal fjölmiðlafólksins, þar sem Emil og Magnea eiga í sífelldu stríði við fjárhagslegan bakhjarl Krónikunnar, sem reynir að aftra þeim frá því að skrifa illa um flokksfélaga sína hjá lögreglunni. Skúli leikur sér þar að auki að því að skapa nokkrar ólíkar fréttaveitur sem taka þátt í fjölmiðlafárinu sem umlykur Stóra bróður og má þar bera kennsl á ýmis kunnugleg málgögn ólíkra pólitískra skoðana í íslenskum fjölmiðlum. Skúli á góða spretti í þeim köflum bókarinnar sem snúa að baráttu aðalpersónanna við þessi öfl og þykir mér ekki ólíklegt að hann eigi eftir að spreyta sig við form pólitíska reyfarans í framtíðinni. Á milli kafla eru stutt innskot úr fjölmiðlum söguheimsins sem höfundur nýtir til að miðla upplýsingum til lesenda, láta tímann líða og gefa sögunni samfélagslega vídd. Auk leiðara og skoðanapistla innihalda þessi innskot einnig færslur af samfélagsmiðlum sem orka eins og einskonar grískur kór sem tekst á um herför Stóra bróður út í gegnum bókina. Samfélagsumræðan sem á sér stað þar er þó heldur rýr þar sem áhrifavaldarnir sem þar birtast eru klisjukenndar skrípamyndir með notendanöfn á borð við @mussufeministinn og @stjornulogmadur. Raunar má segja það sama um flestar aukapersónur sögunnar, en skorinort efnistök Skúla – sem ná svo glettilega vel að halda utan um aðalpersónurnar – eiga það til að breyta aukapersónum í skissur sem rumpað er af í flýti með einföldum klisjum sem einskorðast oftar en ekki við útlit (þessi er brún, þessi er feitur, þessi er lágvaxinn, o.s.frv.).

Það má segja að með þessari grímuklæddu andhetju sem herjar á misindismenn borgarinnar fari Skúli með íslensku glæpasöguna á ókannaðar slóðir; inn á yfirráðasvæði hinnar vestrænu ofurhetjusögu, sem hefur tröllriðið poppmenningu okkar undanfarna áratugi. Skúli er klókari en svo að draga þetta minni inn í bókina án þess að rýna eilítið í það, og sýnir okkur hvernig Stóri bróðir beitir fyrir sig leikrænum tilburðum sem hann hefur auðsýnilega sótt sér í ofurhetjusögur og hasarmyndir, þar sem skilin á milli þess sem er rétts og rangt eru oftar en ekki kristaltær og gefa lítið pláss fyrir grá svæði. Látbragð hans á vettvangi árásanna og eldræðan sem hann flytur á fyrsta fundi þeirra Emils gætu allt eins átt heima í myndarömmum og talblöðrum teiknimyndasagnanna sem hann les sér til afþreyingar á milli árása. Eftir því sem líður á bókina tekur þessi skuggavera að birtast okkur sem aumkunarverður en hættulegur ungur maður sem hefur staðnað í þroska eftir áföll í æsku. Það er nefnilega bara ein persóna í bókinni sem fær baksögu og fortíð: Stóri bróðir sjálfur – enda er það venjum samkvæmt að allar ofurhetjur (eða ofurandhetjur) þurfa að eiga sér upprunasögu.

Samhliða frásögninni í nútímanum, þar sem Stóri bróðir lumbrar á ódæðismönnum, er að finna í bókinni hliðarsögu þar sem er vikið aftur til ársins 1993 og fylgst með tveimur ungum bræðrum sem eru í vægast sagt hræðilegri vist á upptökuheimili í Mjóafirði á Austfjörðum. Kaflarnir sem snúa að bræðrunum eru erfiðir yfirlestrar, en þar er að finna hryllilegar og ítarlegar lýsingar á nauðgunum og níðingsverkum sem tíðkast á upptökuheimilinu – bæði af hendi eldri drengjanna og starfsfólksins. Fer svo að manni verður nóg um og er hálfpartinn farinn að kvíða þessum köflum, en þeir skila þó sínu og veita okkur innsýn inn í hvað það var sem skóp unga manninn sem felur sig á bak við grímu Stóra bróður.

Þessar ægilegu lýsingar á nauðgunum orka sem ákveðið mótvægi eða réttlæting á því ofbeldi sem Stóri bróðir beitir í meginfrásögninni. Ætlunin er auðsýnilega að hrífa lesendur með í hefndarför Stóra bróður og jafnvel snúa þeim á sveif með honum á meðan hann útdeilir vafsömu réttlæti sínu. Ofbeldið stigmagnast eftir því sem líður á lesturinn og lýsingarnar á barsmíðum hans verða sífellt gróteskari. Þannig verður ljóst í seinni hluta bókarinnar, þegar Stóri bróðir hefur verið afhjúpaður og engar aðrar ráðgátur standa í vegi fyrir lesandanum, að auk þess að nýta sér ofurhetjuminnið á sagan einnig margt skylt við form hinnar umdeildu nauðgunarhefndarsögu (e. rape and revenge narrative) sem átti blómaskeið sitt á áttunda áratug síðustu aldar í formi ódýrra og ofbeldisfullra kvikmynda á borð við The Last House on the Left, I Spit on Your Grave og Deathwish-báknsins, þar sem Charles Bronson slátraði götugengjum New York-borgar til að hefna konu sinnar og dóttur. Formið hefur ekki verið eins áberandi undanfarin ár en á þó ætíð sína fulltrúa, til að mynda í nýlegum kvikmyndum á borð við A Promising Young Woman og Elle, en einnig mætti telja til skáldsöguna Kötu (2014) eftir Steinar Braga og hina nýútkomnu Blindu (2022) eftir Ragnheiði Gestsdóttur.

Þessar fjórar síðastnefndu sögur eiga það sameiginlegt að snúast um kvenpersónur sem leita hefnda fyrir kynferðisofbeldi sem þær sjálfar eða önnur kona þeim nákomin hefur orðið fyrir. Ekki verður þó annað sagt en að Stóri bróðir sé einstaklega karllæg túlkun á þessu kunnuglega sagnaformi, eins og má efalaust sjá í því að nafnbótin sem blöðin gefa þessum hefndarengli er bein vísun í femíníska aðgerðahópinn Stóru systur, sem hefur látið að sér kveða í íslensku samfélagi í baráttunni gegn vændi og nauðgunarmenningu. Lausnin sem Stóri bróðir setur fram á þessum samfélagsplágum er einföld; hart skal mæta hörðu og misþyrma skal misindismönnum. Í eldræðum sínum slær hann um sig með tali um feðraveldi og nauðgunarmenningu án þess þó að lesandi finni fyrir því að hann beri sérstakt skynbragð á það hvað felst í þessum hugtökum. Hann gefur þolendum ofbeldisins sem hann er að hefna fyrir lítinn gaum á sama tíma og hann nýtur þess að útdeila réttmætu, ofsafengnu ofbeldi í nafni þeirra.

Þessi efnistök bjóða upp á æði forvitnilegar túlkanir á því hvað bókin hafi að segja um nauðgunarmenningu og kynbundið ofbeldi í samfélagi okkar, en oftar en ekki virðist þó heldur að bókin – líkt og Stóri bróðir sjálfur – skreyti sig með þessum femínísku hugtökum sökum vægi þeirra og áhrifa, frekar en til að rýna í hvað býr að baki þeirra. Þannig ristir samfélagsskoðunin sem bókin daðrar við á köflum ekki sérstaklega djúpt, en hvort að það sé eitthvað sem ætti að telja gegn öflugum reyfara sem vissulega skilar sínu hvað varðar hasar og háska verða lesendur að eiga við sjálfa sig.


Björn Halldórsson, desember 2022