Beint í efni

Bros breytir heiminum

Bros breytir heiminum
Höfundur
Ingibjörg Valsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Bros breytir heiminum
Höfundur
Eygló Jónsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Eitt af því mest töfrandi við að lesa góðan skáldskap er að geta horfið inn í ævintýralega heima sem hvergi finnast í raunveruleikanum. Í bókunum tveim sem hér verður fjallað um er að finna fjarlæg lönd þar sem ævintýralegir atburðir eiga sér stað; Að breyta heiminum eftir Ingibjörgu Valsdóttur og Sóley í Undurheimum eftir Eygló Jónsdóttur. Sögurnar fjalla báðar um börn sem birtast óvænt á ókunnugum stað og lenda í spennandi atburðarás sem þau þurfa að feta sig í gegnum til þess að komast aftur heim. 

Sóley í Undurheimum er önnur bókin um Sóleyju og hundinn Bóbó sem lentu í ævintýrum í Taskaníu í bókinni Sóley og töfrasverðið. Að þessu sinni ferðast þau fyrir mistök til Undurheima þar sem ekkert sólarljós skín. Sóley og Bóbó komast ekki heim vegna þess að töfraúrið sem flytur þau á milli heima er knúið af sólarorku. Fljótlega lenda Sóley og Bóbó í spennandi ævintýrum þar sem þau hjálpa íbúum Undurheima að bjarga börnunum þeirra úr klóm ógurlegs óvinar og finna sólarljósið á ný.

Íbúar Undurheima eru af mörgum ólíkum tegundum. Fyrst á vegi Sóleyjar og Bóbós eru mannverur sem eru minni en fólkið sem Sóley þekkir að heiman og kallar hún því litlu verurnar smáfólk. Börn smáfólksins eru týnd og þau halda að Brokkólíaparnir hafi numið þau á brott. Brokkólíaparnir eru skrítin dýr sem börnunum mínum þóttu virkilega fyndin.

Þeir hefðu enga rófu en rassinn á þeim liti út eins og brokkólí. Ef óvinir nálgast stinga þeir hausnum ofan í moldarbarð og sperra rassinn upp í loftið. Þá líta þeir út eins og grænmeti. (15)

Þegar aparnir eru komnir í þetta dulargervi sprauta þeir slími á fórnarlömb sín og festa þau þannig í stað. En þegar Sóley og samferðafólk hennar finna apana kemur í ljós að þeir tóku ekki börnin í óvinveittum tilgangi heldur til þess að fá þau til þess að hjálpa sér að fá sólarljósið aftur í líf þeirra. Börnin hafa hins vegar verið numin á brott á ný af bananamönnunum. Sóley, Bóbó, smáfólkið og brokkólíaparnir sameina krafta sína og halda lengra inn í skóginn þar sem þau finna bananamennina og komast að því að þeir vildu einnig fá börnin til að hjálpa sér við að sigra Sveppaskrímslið ógurlega í skóginum. Að endingu ná þau öll að frelsa sveppaskrímslið úr fjötrum heiftarlegs myglusveppsofnæmis og finna sólarljósið.

Myndir Hafsteins Hafsteinssonar prýða söguna og bæta skemmtrilegri vídd við frásögnina. Þær eru í teiknimyndasögustíl sem gefur Sóleyju töffaralegt yfirbragð. Hún er bæði hörkutól en líka blíð og hlý og umfram allt uppfull af gleði og brosum. Þó það hefði verið skemmtilegt að hafa myndirnar í lit virkar vel að hafa þær svarthítar vegna þess hversu dimmt sögusviðið er.

Boðskapur sögunnar er einfaldur – „eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“. Eftir að Sóley kemur til Undurheima byrjar sólin einstaka sinnum að teygja sig í gegnum skýin. Það er þegar Sóley brosir. Smáfólkið, brokkólíaparnir og bananamennirnir kunna ekki að brosa en með hjálp Sóleyjar læra þau að með bros á vör og sól í hjarta geta þau rekið myrkrið á braut. Sóley og Bóbó geta þá hlaðið úrið og komist heim.

Boðskapurinn er fallegur og hlýr en brosið leysir vandann á aðeins of auðveldan máta. Textinn er einfaldur og lítið skilið eftir til að lesa á milli línanna. Atburðarásin er hröð og einföld sem gefur ekki mikið rými fyrir spennu til að myndast sem er eini gallinn við söguna. Söguheimurinn er spennandi og nýstárlegur ólíkt því sem Eygló bauð upp á í fyrri bókinni um Sóleyju þar sem sagan og umhverfi hennar byggði á Galdrakarlinum í Oz. Persónurnar og hinar ýmsu verur sem búa í Undurheimum eru skemmtilegar, áhugaverðar og umfram allt fyndnar. Húmorinn er í fyrirrúmi í sögunni og virkar vel með þeim furðuverum sem Eygló skapar í Undurheimum.

***

Að breyta heiminum fjallar um Marko sem er staddur á skrítnum og ókunnugum stað ásamt Stellu, litlu systur sinni, en veit ekki hvernig þau lentu þar. Strax á fyrstu blaðsíðunni er augljóst að heimili systkinanna er á stríðshrjáðu svæði en Marko virðist eiga erfitt með að muna mikið eftir sínu raunverulega lífi. Hann ferðast eftir löngum gangi í gegnum hin ýmsu herbergi á staðnum sem þau dvelja og þar virðist allt vera til staðar til þess að láta dvöl þeirra systkinanna vera sem þægilegasta. Hann hittir íbúana sem allir gegna einhverju ákveðnu hlutverki og nöfn þeirra og útlit passa vel við hlutverkin. Það eru Verkill, sem smíðar herbergi fyrir systkinin, Vera í Vitstofunni þar sem allt lyktar af þekkingu og Rjómi og Kaka sem töfra fram girnilegan mat í Uppáhaldssalnum.

Ingibjörg leikur sér listilega með tungumálið í sögunni en á staðnum sem systkinin eru stödd tjá íbúarnir sig á hátt sem Marko er ekki vanur. Textinn er uppfullur af fjölbreyttum orðaforða, bæði mikið af nýyrðum eða orðum sem fá nýja merkingu í umhverfi sögunnar en einnig er hlutunum lýst með fleiri en einu samheiti sem eykur orðaforða lesendanna á skemmtilegan og frjóan hátt.

„Ég sting bókinni í skjóðuna. Nei, ég set hana í sekkinn. Og þó, kannski er best að hún fari í belginn. Eða tuðruna. Budduna. Punginn. Körfuna.“ (72)

Þó að Marko skilji ekki allt sem fólkið í kringum hann segir er það ekkert að mata ofan í hann meiningu orða sinna og þannig verða lesendur líka að átta sig á atburðarásinni á sama tíma og Marko.

Fljótlega kemur í ljós að Marko þarf að finna tilganginn sinn á meðan hann dvelur á dularfulla staðnum. Í fyrstu skilur hann ekki hvað það þýðir en svo finnur hann tóma bók í herberginu sínu og fer að skrifa.

Orðin fóru aftur að streyma um höfuðuð. Þetta var svo undarlegt, eins og inni í höfðinu á honum væri foss sem hann gæti skrúfað frá þegar hann vildi. Orðafoss. Hann fann hvernig orðin úr fossinum tengdust saman og urðu að setningum sem innihéldu hugsanir. Hugsanirnar urðu að hugmyndum um hvernig allt gæti verið betra. Öruggara. Svo runnu hugmyndirnar saman og urðu að eins konar brúm.  (69)

Texti Ingibjargar flæðir í gegnum söguna, oft á mjög ljóðrænan hátt, rétt eins og sjá má í lýsingunni hér að ofan. Það mætti halda að slíkt stílbragð gæti átt erfitt með að ná til lesenda á barnsaldri en sú var ekki raunin með 5 ára son minn. Að breyta heiminum sló í gegn og hann telur hana nú með sínum uppáhalds bókum.

Marko kemst að því að öll börnin sem dveljast á ganginum eru stödd þar vegna þess að einhver ógn steðjar að þeim heima fyrir. Á ganginum fá þau griðastað og gleyma áhyggjum sínum. Luna vinkona Markos fer með hann að sjá tímatogvélina sem gerir það að verkum að það sem börnunum finnst vera einn dagur gæti verið mun lengri tími í raun. Þetta gerir það að verkum að börnin sakna þess ekki um of sem þau skildu eftir heima.

Myndir Lilju Cardew sem skreyta söguna passa fullkomlega við ljóðrænan blæ textans. Línurnar og litirnir eru mjúkir og þægilegir sem gerir það að verkum að hlýlegt og áhyggjulaust andrúmsloft umhverfisins skín í gegn.

En þrátt fyrir að Marko líði vel á ganginum og orðaflaumurinn gefi honum tilgang saknar hann samt fjölskyldu sinnar og heimilis.

Hann fann hvernig tárin þrýstu á augun og leituðu að útgönguleið, svo trítluðu þau sína leið niður úr augunum og sukku í koddann. Sama hversu vel honum leið þarna og hvort undarlega orðaflóðið hafði einhvern tilgang, hann langaði samt heim. (75)

Að lokum kemur að því að Marko og Stella fá að snúa aftur til foreldra sinna. Þá kemur í ljós að þau hafa verið í burtu í tvö ár. Á meðan hafa foreldrar þeirra flúið stríðshrjáð heimaland þeirra og búið þeim nýtt heimili í nýju landi. Þessi hugmynd um stað þar sem börn geta beðið örugg á meðan óréttlát stríð geisar í heimalandi þeirra er á sama tíma fallegt og sorgleg. Þetta er ekki raunveruleiki sem börn á stríðshrjáðum svæðum búa við. En tilgangurinn sem Marko fann og skrifaði í bókina er skýr; Að breyta heiminum. Komandi kynslóðir geta reynt að breyta til hins betra og bara þó að hlutirnir hafi alltaf verið á einn hátt þýðir ekki að það geti ekki breyst.

***

Sögurnar sem hér hefur verið fjallað um fjalla báðar um börn sem ferðast á nýjar og ókunnar slóðir þar sem óvenjuleg viðhorf þeirra og gjörðir verða til þess að hlutirnir geta breyst til hins betra. Sóley með gleði sinni og brosi bjargar Undurheimum úr eilífu myrkri og Marko finnur tilganginn sinn í orðum og snýr aftur til foreldra sinna með vitneskjuna um hvernig á að breyta heiminum. Þó tónninn í sögunum sé ólíkur er eitt sem má lesa úr þeim báðum; ef við veljum að hafa áhrif á umhverfi okkar getum við breytt til hins betra.
 

Kristín Lilja, desember 2023