Beint í efni

Býfluga

Býfluga
Höfundur
Chris Cleave
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það eru allir á einhverskonar flótta í skáldsögu Chris Cleave, Býflugu. Fyrir utan flóttakonuna sjálfa, Býflugu, sem segir hluta sögunnar, er hin sögukonan, Sara, á stöðugum flótta undan lífi sínu meðan mennirnir í lífi hennar, eiginmaðurinn Andrew og elskhuginn Lawrence eru á flótta undan ábyrgð. Táknrænasti flóttinn birtist þó í persónu sonar Söru, Charlie, sem er allan tímann í búningi leðurblökumannsins, Batman og neitar að fara úr honum. Hlutverkaleik barnsins má skoða í ljósi þeirra hlutverkaleikja sem persónur sögunnar leika, nígeríska flóttakonan að leika Englending með því að læra málið fullkomlega, og svo Englendingarnir Sara, Andrew og Lawrence að leika hinn upplýsta pólitískt rétthugsandi vesturlandabúa. Búningur stráksins gefur líka til kynna óþol gagnvart umhverfinu, þeim aðstæðum sem er þröngvað uppá fólk, en út á það gengur söguþráður bókarinnar að miklu leyti.

Sagan er sögð til skiptis af tveimur sögukonum, Býflugu og Söru. Býfluga er flóttakona frá Nígeríu, en þorp hennar var lagt í eyði þegar þar fannst olía, engin vitni máttu lifa. Býfluga ekki aðeins lifir heldur er hún vitni að skelfilegum atburðum og flýr til Bretlands í von um hæli og skjól. Þegar hún er óvart látin laus úr varðhaldi hælisleitenda hringir hún í ensk hjón sem hún hafði hitt á strönd Nígeríu, en þar hafði konan bjargað lífi hennar með því að höggva af sér fingur.

Sara er þessi kona, sem í hroka vesturlandabúa áleit það sniðuga tilbreytingu að fara í frí á Nígeríska strönd frekar en til Spánar. Hjónaband hennar er að liðast í sundur og batnar ekki þegar Andrew guggnar á fingurhöggi til að bjarga lífi tveggja nígerískra stúlkna sem eltar eru uppi af hópi villimannlegra veiðimanna. Þegar Býfluga, önnur þessara stúlkna, hringir í Andrew missir hann tökin á vaxandi þunglyndi sínu og hengir sig. Býfluga bankar uppá hjá Söru sama dag og hann er jarðaður og þá verður margfaldur vendipunktur í lífi beggja.

Býfluga er að stærstum hluta til pólitískt verk sem tekur á ákaflega umdeildum málefnum. Höfundurinn Cleave fer þó ekki þá leið að skrifa hreint áróðursrit með miklum sögulegum upplýsingum og endalausum hörmungarsögum einstaklinga (en slíka bók reynist Andrew hafa verið á leiðinni að fara að skrifa), heldur velur hann sér þá leið að skoða málið útfrá sem flestum sjónarhornum til að skapa þessum átakamálum, stöðu flóttamanna og afleiðingum heimsvaldastefnu vesturlanda, aukna breidd. Þannig stendur Býfluga augljóslega fyrir flóttamanninn, sem þarf að líða fyrir þörf vesturvelda fyrir olíu. Hún er þó ekki eingöngu sýnd sem saklaust fórnarlamb, heldur einnig ákveðin ógn, meðvituð um þá innrás sem koma hennar á heimili Söru er. Þessi ógn er auðvitað táknræn fyrir samviskubitið sem vesturlönd hafa yfir stöðu sinni og dregur Andrew að lokum til dauða. Hann er fulltrúi þeirra sem ekki geta horfst í augu við ástandið, en geta heldur ekki tekið afstöðu gegn því og þóst ekki sjá neitt, eins og Lawrence gerir, en hann vill senda Býflugu til baka strax því ensk stjórnvöld hafi skilgreint Nígeríu sem hættulaust svæði. Í honum birtist hinn hreini hroki vesturvelda, sem gefa sjálfum sér réttinn til að dæma um hvað er öruggt og hvað ekki og sjá heiminn í einföldum andstæðupörum. Sara er síðan fulltrúi hugsjónafólksins sem er bæði grunnhyggið (sumarfrí á Nígerískri strönd, í miðju olíustríði), en líka allt af vilja gert til að hjálpa. Með þessum persónum, auk fjölda aukapersóna, aðallega laganna fulltrúa, sem Býfluga hittir í varðhaldinu, teiknast upp nokkuð fjölbreytt mynd af þeim pólitísku átökum sem tengjast flóttamönnum og það er eftirtektarvert að höfundur gengur ekki alla leið í því að fordæma afstöðu eigin þjóðar - þó vissulega megi skoða þá vægu meðferð sem yfirvöld hljóta sem einhverskonar hugleysi þá er einnig hægt að sjá hana sem jafnvel enn öflugari áróður. Einmitt í því að láta fólk og atburði tala sínu máli án mikilla útlegginga felst styrkur sögunnar að mínu mati.

Býfluga er fimlega skrifað verk og þrátt fyrir að fátt komi á óvart í fléttunni þá er vel haldið utanum allt og sagan fer sjaldan yfir strikið í ofhlöðnum tilfinningalegum lýsingum, þó slíkar megi vissulega finna. Hún þjónar vel þeim tilfangi sínum að vekja lesenda til umhugsunar um mál innflytjenda og dulbúna heimsvaldastefnu; þrátt fyrir að flestir vesturlandabúar geti sem einstaklingar hafnað því alfarið að þeir styðji arðránið á íbúum þriðjaheimslanda, þá eru fæstir í þeirri stöðu að geta fríað sig þátttöku í því arðráni. Meira að segja hér á Íslandi, með alla okkar hreinu raforku, erum við háð olíu til fjölmargra hluta: ég til dæmis, sem get með stolti sagt að ég reki ekki bíl og standi þannig ekki að baki þeim ógnum sem olíuauðug lönd þurfa að búa við, get hinsvegar ekki neitað því að það er þessi olía sem flytur mig á milli landa, og vissulega, einstaka sinnum hér innanlands. Eins og Býfluga bendir á þá erum við vesturlandabúar einfaldlega orðnir svo vanir okkar lífsstíl að við hugsum ekkert útí hann, hvernig við viðhöldum honum né afleiðingar hans. Nú þegar græðgisvæðingin hefur komið okkur Íslendingum svo illa í koll er kannski ágætt að nýta tækifærið og doka við, taka sér bók í hönd og horfa á heiminn í gegnum augu Býflugu.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2009