Beint í efni

Dætur hafsins

Dætur hafsins
Höfundur
Súsanna Svavarsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Það er langt síðan Súsanna Svavarsdóttir hefur sent frá sér skáldverk. Fyrsta bók hennar Gúmmíendur synda ekki (1991) vakti talsverða og verðskuldaða athygli en hún fjallaði um meðvirkni. Skáldsagan Í miðjum draumi kom út 1991 og Skuggar vögguvísunnar, sem innihélt erótískar smásögur, árið 1995. Súsanna hefur einnig ritað æviminningar Kjuregej Alexöndru og Diddúar auk þess að þýða helling af bókum fyrir Ás-útgáfuna og fleiri. Hún þýddi til að mynda Dóttur himnanna eftir Amy Tan og auðvitað er hún líka kunnur bókmenntagagnrýnandi. Súsanna hefur þýtt nokkuð af bókum Nóru Roberts sem einnig skrifar glæpasögur sem gerast í framtíðinni undir nafninu J.D. Robb. Dettur manni í hug að áhrifa gæti frá þeim höfundi og kannski fleirum, allvega hvað spennuþáttinn varðar. Þarf þó ekki að vera. Frekar er það Mary Higgins Clark sem kemur í hugann við lestur Dætra hafsins. Þeir höfundar sem hér eru nefndir eru óskaplega vinsælir og ég sé enga ástæðu til annars en Dætur hafsins nái viðlíka vinsældum. Þetta er líka svona bók sem maður gleypir í sig með hraði. Spennandi og vel skrifuð. Eins og vera ber í svona sögum misfarast upplýsingar eða þær eru dregnar með erfiðismunum upp úr persónum sem koma við sögu. Þannig er hægt að draga morðgátuna á langinn. Atburðarásin tekur marga snúninga og þótt mestur hluti sögunnar gerist í Reykjavík er líka skroppið til Ítalíu, Danmerkur og aðeins út á landsbyggðina. Lokakaflinn er all ævintýralegur og gæti verið beint úr amerískri spennumynd í B-flokki. Í heild gengur sögufléttan ágætlega upp þótt morðgátan sé allt að því leyst í kyrrþey handan við meginatburðarás sögunnar.

Aðalsöguhetja bókarinnar, Ragnhildur, er ritstjóri glanstímarits. Bókin hefst á því að föðursystir hennar, Herdís, hefur verið myrt og í ljós kemur að hún hefur arfleitt Ragnhildi að dagbókum sínum. Þær segja frá ævi hennar og raunar líka kynlífsiðkan í gegnum árin. Verður Ragnhildur fremur forviða er hún kemst að því að bækurnar innihalda þessar mjög svo blautlegu lýsingar. Og þar höfum við nýja íslenska búgrein; hina erótísku glæpasögu. Kemur þarna margt úr kafinu sem Ragnhildur átti ekki von á enda hafði hún talið þessa frænku sína í meira lagi siðsama og hélt varla að hún hefði verið við karlmann kennd. Annað kemur sem sé á daginn og ekki er það allt fallegt. Má segja að áherslan á kynlíf frænkunnar taki allmikið pláss framan af bókinni, og er sumt af því skemmtilegt en annað ekki. Kemur í ljós að ofneysla á þessu sviði sem mörgum öðrum getur haft slæm áhrif á sálarlífið, bæði sálarlíf persónunnar sem á í þessu stríði og lesandans sem getur til lengdar orðið leiður á endurtekningasömum lýsingum á kynlífsathöfnum. Smátt og smátt verður Dísa frænka dálítið hvimleið persóna og lesandinn fer að verða þakklátur morðingjanum fyrir að hafa komið dömunni fyrir. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þótt vissulega gerist það í glæpasögum að samlíðan lesandans er með morðingjanum en ekki fórnarlambinu enda ekki óalgengt í glæpasögum að þessi hlutverk kunni að víxlast eitthvað sbr. Grafarþögn eftir Arnald Indriðason.

En saga Ragnhildar og hvernig hún reynir, í fyrstu óviljug, að leysa gátuna um morðið á frænkunni er áhugaverð, öll samskipti hennar við fjölskylduna líka og þessi kynlífsþroskasaga hennar. Við lestur dagbókanna leysast nefnilega ýmsar kenndir úr læðingi sem hafa bæði góð og slæm áhrif á hana, sem og lesandann. Þótt nokkuð sé um upphafningu kynlífs í bókinni þá er einnig bent á slæmar hliðar þess og þannig haldið í nauðsynlegt raunsæi. Allt það sem snertir Ragnhildi og hennar fólk er afskaplega vel af hendi leyst af hálfu höfundar.

Sumir vilja eflaust meina að hér sé um “konubók” að ræða, á svipaðan hátt og rómantískar gamanmyndir og vasaklútamyndir hafa löngum talist konumyndir. Þótt Dætur hafsins sé fyrst og fremst afþreyingarsaga og þannig kannski í sama flokki og kvikmyndir af fyrrnefndri tegund, er miklu meira spunnið í söguna en alla jafna í slíkar myndir. Karlar, aðrir en bókmenntaspekúlantar, forðast oft bækur sem hafa fengið “kvenna”stimpilinn. Sá er þetta ritar telur að þar með fari þeir mikils á mis. Það er kvartað yfir því að karlmenn eigi erfitt með að átta sig á konum. Að lesa góða skáldsögu eftir konu getur opnað fyrir skilning karlkyns lesanda á þessu furðuverki sem konan er og það hlýtur að vera báðum kynjum í hag. Það má því alveg í þessu tilfelli t.d. mæla með því að karlmenn, ekki síst miðaldra karlmenn, gefi boltanum á Sýn frí eitt kvöld, sleppi fjarstýringunni og taki sér bók Súsönnu í hönd í staðinn og kannski eitthvað fleira.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2005