Beint í efni

Dauðinn og mörgæsin

Dauðinn og mörgæsin
Höfundur
Andrej Kúrkov
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Upptrekkta mörgæsin mín vekur alltaf jafnmikla lukku meðal barna. Frekar smá og líklega keypt í ritfangaverslun í London, mig minnir að ég hafi ætlað hana sem gjöf en einhvernveginn endaði hún á skrifborðinu hjá mér, við hliðina á mörgæsayddaranum og múmínálfunum (líka mætti nefna Gromit blýant, hákarlastrokleður og drekapenna). Og þaðan taka krakkar hana, trekkja harkalega upp og láta hana svo bægslast endalaust um, með göngulagi sem minnir ókennilega mikið á raunverulegt klaufalegt þramm mörgæsa: hún vaggar til beggja hliða með daufu klakki, það eina sem stingur í stúf er of stór appelsínugulur goggur sem minnir meira á önd. Líklega afgangar af andarungagoggum sem hafa verið nýttir í þetta hlutverk.

Ósjálfrátt varð mér hugsað til Búlgakofs þegar ég las lýsinguna á nýjustu Neon-bók Bjarts, Dauðanum og mörgæsinni, en hún segir frá Viktor sem býr með mörgæs í blokkaríbúð í Kíev í Úkraínu og skrifar minningagreinar um lifandi fólk. Og þegar ég las bókina hugsaði ég aftur til Búlgakofs. (Þetta gæti bara stafað af því að ég hugsa almennt mikið um Búlgakof.) Viktor er einmana og það er mörgæsin Mísha líka, en hana tók hann í fóstur þegar dýragarðurinn hafði ekki lengur efni á að halda öllu gangandi. Hún lifir á frosnum sjófiski - hefur engan áhuga á lifandi vatnakörfum - og fær annaðslagið að busla í köldu baði. Viktor hinsvegar, sem langar að verða rithöfundur en veit að hann hefur takmarkaða hæfileika í það, fær það áhugaverða starf að skrifa minningagreinar, “grafskriftir”, fyrir dagblað nokkurt. Í upphafi er það skýrt út þannig að blaðið vilji eiga lager, ef ske kynni að mikilmenni skyldi óvænt andlátast (sá sem sér honum fyrir efni heitir Fjodor... (kannski les ég of mikið í þetta)), en fljótlega kemur í ljós að það er óþarflega mikil samhæfing milli minningargreinaskrifanna og dauða þeirra sem þær fjalla um. Og þarmeð erum við komin á kaf inní heim fyrrum Sovétríkjanna, sem nú eru loksins laus við ógn rauðu hættunnar, kommúnismans, og búa í staðinn að hinni kapítalísku alsælu, já fyrirgefið mér að ég skuli dirfast að koma með svona pólitísk komment, en ég bara stenst ekki mátið.

Glæpagengi og spilling eru hinn daglegi veruleiki og án þess að vita af því, eða kannski án þess að vilja vita af því, er Viktor - ásamt mörgæsinni - orðinn rammflæktur í valdabaráttu. Hverjir standa í þessari valdabáráttu er þó aldrei ljóst, enda kemur það varla málinu við, málið er að það eru einhverjir sem berjast um völdin og ráða jafnframt lífi og limum almennings, eins og til dæmis hans Viktors, sem vegna afburðagóðra “grafskrifta” sinna nýtur sérstakrar verndar. Við sögu koma einnig lögreglumaðurinn Sergej (sem hefur tekið upp gyðinganafn til að vita hvernig þeir lifa), frænka hans Nína og barnið Sonja, sem lendir óvænt í fóstri hjá Viktor í kjölfar átaka - valdabaráttu.

Það er eiginlega ekki meira um þetta að segja, annað en allt - en það yrði, held ég, of mikið. Bókin er óborganlega fyndin - mörgæsin sjáið til, og samskipti þeirra Viktors - en vekur jafnframt til alvarlegrar umhugsunar, um einmanaleika, ábyrgð, og það að reyna að búa sér til tilveru í ómögulegum heimi. Stalín, hann er greinilega ekki lengur hér, en sem betur fer hefur Búlgakof ekki yfirgefið bygginguna.

Að lokum langar mig rétt að benda á að það er áhugavert að bera Kúrkov saman við bækur Boris Akúnín, glæpasögurnar sem einkennast svo mjög af nostalgíu, án þess þó að það dragi á nokkurn hátt úr gæðum þeirra sem gáfulegra glæpasagna. En óneitanlega gefa þær nokkuð víða mynd af bókmennta-aktíviteti þessa fyrrum stórveldis.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2005