Beint í efni

Einmana prímtölur

Einmana prímtölur
Höfundur
Paolo Giordano
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Einmanaleiki manneskjunnar hefur löngum þótt viðeigandi viðfangsefni skáldskapar. Þær sögur sem fjalla um félagslynt og félagslega fært fólk snúast yfirleitt um hversu einmana það sé í raun og veru, innan um fjöldann, enda hættir þeim sem hlægja hæst mest við þunglyndi. Þessi þörf fyrir að kafa ofan í einsemd manneskjunnar er í sjálfu sér forvitnileg og ef við gefum okkur að skáldskapurinn sé einskonar sneiðmynd af mannlegri tilvist þá er sú mynd sem blasir við hvorki björt né fögur.

Ítalski rithöfundurinn Paolo Giardano fjallar um einsemd í sinn fyrstu skáldsögu, sem á íslensku nefnist Einmana prímtölur. Einmanaleiki persónanna þar kemur til af atburðum úr æsku þeirra, Alice er att út í iðkun skíðaíþrótta af föður sínum, og verður fyrir slysi sem veldur varanlegri bæklun. Ástæða Mattia fyrir innhverfu er þó kannski enn sársaukafyllri. Hann er tvíburi. Systir hans er þroskaheft og hann skammast sín svo mikið fyrir hana að einu sinni skilur hann hana eftir í almenningsgarði meðan hann fer í afmæli til bekkjarbróður síns. Barnið hverfur og Mattia þarf að búa með afleiðingum sjálfhverfu sinnar alla ævi, móðir hans er taugahrúga og faðirinn reynir fullur örvæntingar að halda fjölskyldunni saman.

Það er reyndar merkilegt hvað feðurnir í sögunni spila stórt hlutverk. Mæðurnar eru ákaflega fátæklegar persónur, taugaveiklaðar og hálf-fjarverandi einhvernveginn, meðan feðurnir eru sterkir: pabbi Alice er strangur við hana en það er greinilegt að samband þeirra er samt náið og það er hann sem er ráðandi aðilinn í lífi hennar, pabbi Mattia er sá sem reynir að ná til sonar síns meðan móðirin gefst upp.

Bygging sögunnar er flott unnin, en hún er sögð í sjö hlutum sem hver og einn gerist á afmörkuðu tímabili og lýsir atvikum úr lífi aðalpersónanna. Fyrstu tveir hlutarnir lýsa þeim hörmulegu atburðum sem eiga eftir að móta þau allt lífið. Þriðji hlutinn lýsir því einelti sem Alice verður fyrir sem barn og unglingur og fyrstu kynnum hennar af Mattia. Mattia er þá þegar orðinn næstum því einhverfur og Alice komin vel áleiðis með að verða lystarstolssjúklingur.

Í fjórða hlutanum eru unglingsárin að baki, og Alice fær Mattia til að klæða sig upp sem brúðguma meðan hún fer í brúðarkjól móður sínar. Svo tekur hún mynd.

Síðustu þrír hlutarnir fjalla svo um fullorðinsárin og það er þar sem það fara að koma sprungur í söguna. Kannski svona álíka og sprungukerfi læsist um ævi sögupersónanna. Sú nánd sem milli þeirra skapast við fyrstu kynnin og á unglingsárum gliðnar, en þó virðist þau hafa alla möguleika til að ná saman aftur. En er það endilega gott fyrir þau? Hér koma inn spurningar um að vera of náinn einhverjum og einskonar gagnkvæma meðvirkni.

Ég er ekkert endilega viss um hvað gerist þarna í síðari hlutanum, það er að segja, hvað verður um söguna. Þessi saga af einmanaleika og það að tvær einmana skemmdar sálir (prímtölur) skuli ná saman, er bæði falleg og áhrifamikil, en svo er eins og allt leysist upp þegar fullorðinsárin taka við. Sem, eins og ég segi, er kannski bara eðlilegt og í takt við viðfangsefnið; það er erfitt að vera öðruvísi sem barn og unglingur en þá allavega ertu óhjákvæmilega hluti af samfélaginu (í skóla). Fullorðið fólk þarf svo að fara að taka ákvarðanir um framtíð og möguleika og þá verður allt mun erfiðara. Eða hvað? Það er eins og Giordano vildi bæði halda og sleppa að þessu leyti, annarsvegar virðist svo að þeim Alice og Mattia takist í raun ágætlega að eignast líf, og hinsvegar er ljóst að líf þeirra er langt því frá að vera fullkomið eða fullkomlega eðlilegt. En hvaða tilvera er fullkomin og fullkomlega eðlileg? Slíkt líf finnst bara í auglýsingum og einstaka sápuóperum.

Mér fannst því eins og höfundurinn missi svolítið tökin og það náist ekki að halda þeim skerandi örvæntingartóni sem einkennir fyrstu hlutana. Á hinn bóginn er þarna margt umhugsunarvert og vel gert, stærðfræðitengingin er vel unnin og skapar Mattia sannfærandi karakter og sömuleiðis er ljósmyndaáhugi Alice spennandi sjónarhorn á persónu hennar, sem vel hefði mátt gera meira úr. Myndin sem fjórði hlutinn snýst allur um verður til dæmis að litlu.

Í heildina er Einmana prímtölur ágætis dæmi um ágætisbók, hún vekur til umhugsunar og dvelur um stund með lesandanum, en nær þó aldrei að skera sig verulega úr fjölmörgum álíka sögum.

Af einhverjum ástæðum lendir þýðandinn alltaf í lokaorðunum: án þess að ég geti á nokkurn hátt tjáð mig um frummálið þá er þýðingin lipur og ljúf og fangaði vel stemningu sögunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010