Beint í efni

Eitt vor enn

Eitt vor enn
Höfundur
Gylfi Gröndal
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Einn sönglagatexti tónlistarmannsins Nick Cave fjallar um eftirmæli; hann ímyndar sér að hann sé dáinn og að eftirmælin verði heldur rýr, verk hans munu verða séð í nýju ljósi, gleymdar ástkonur verða dregnar fram í dagsljósið og lögreglan andar léttara, hann var svoddan vandræðagemsi. Kennarinn lýsir honum sem vesalingi, en líkfylgdin mun verða löng og heimurinn mun sameinast í söng (Lay Me Low á Let Love In). Það er öllu minni buslugangur í ljóði Gylfa Gröndal um sín eftirmæli, en þar lýsir hann dæmigerðri íslenskri minningargrein: “eflaust mun einhver skrifa”: “Hann glímdi / við illvígan sjúkdóm / en kvartaði ekki / og var æðrulaus / til síðasta dags”, en bætir svo við: “Þeir ættu að vita / hve hræddur ég er // bið bænir í hljóði / hverja einustu stund”. Munurinn hér er ekki einungis sá að varla má hugsa sér ólíkari listamenn en Cave og Gylfa heldur liggur hann fyrst og fremst í því að meðan Cave skrifar sinn texta á miklum uppgangstíma á hans ferli, í blóma lífsins, ef svo má segja, skrifar Gylfi sitt ljóð í skugga banvæns sjúkdóms. Ljóðið er eitt af 33 ljóðum bókarinnar Eitt vor enn, en þar er sögð saga veikindanna og fjallað um baráttuna við hinn vomandi dauða. Dauðinn er hið klassíska þema ljóðsins og Gylfi bendir einmitt á það í einu ljóðanna:

Hve auðvelt var ekki
með orðgnótt
og skáldlegu hugarflugi
að yrkja um dauðann
á meðan hann var órafjarri

Þannig skapar Gylfi þessum ljóðum mjög ákveðið samhengi og ber þau saman við sín fyrri ljóð um dauðann, og vísar í leiðinni (óljóst) til álíka skrifa annarra. Í báðum þessum ljóðum birtast einnig einkenni ljóða Gylfa (sjá grein um Gylfa hér á bokmenntir.is), en þar er annarsvegar fjallað um skrif, ljóðið sjálft, og hinsvegar forðast skáldið að dramatísera - þó mörgum þætti kannski ástæða til undir þessum kringumstæðum.

Bókin segir, eins og áður er sagt, sögu sjúkdóms og spítalavistar, átaka, örvæntingar og vonar. Eins og kannski eðlilegt er fer sagan ofurlítið höktandi af stað, fyrstu ljóðin lýsa smæð og skelfingu, meininu sjálfu - ókindinni (sem minnir dálítið á geimveruna í Alien myndunum), ofskynjunum og veikburða sjúklingi. Þessi ljóð eru bæði sár og dálítið völt á fótum “eins og folald / sem nýlega hefur verið kastað” eins og segir í einu ljóðanna um fyrstu skref sjúklingsins. En síðan styrkist tónninn og skáldið tekur yfir. Í fimmta ljóðinu birtist mögnuð mynd af vetrarmorgni út um spítalastofugluggann. Fyrst sést dagsbrúnin sem “örmjó gul ljósrönd” síðan tekur hríðin við og í gegnum hana sjáum við “rafmagnslínur: krossar / svo langt sem augað eygir”. Og ljóðið endar á þessum orðum: “Úr hugarmyrkri að morgni / rís stysti dagur ársins / í stofu 13B // með flóðljósum”. Hér eru máttúra og mannanna verk felld saman í áhrifamikla mynd um átök milli vonar og ótta, ljóss og myrkurs. Með þessu er bókin virkilega komin af stað og ljóðin standa fastar á eigin fótum.

Myndmál náttúrunnar er áberandi í ljóðunum og Gylfi skapar áhugaverðar myndlíkingar milli náttúru og vaxtar meinsins, hann fjallar um önnur skáld sem skrifuðu sín ljóð frammi fyrir dauðanum, lýsir draumum sínum og óráði sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur lyfja, og ímyndar sér átökin sem eiga sér stað í líkamanum. Með þessu byggir hann upp áhrifamikla innsýn í þennan undarlega veruleika á mörkum lífs og dauða, hann leiðir lesandann í gegnum ferlið, sýnir honum sjúkrastofuna, spítalann, en opnar einnig líkamann og gefur aðgang að eigin hugarheimum, draumum, ótta og von.

Eitt vor enn hlýtur að teljast all sérstæð bók , þó vissulega sé þetta ekki fyrsta verkið sem skrifað er undir slíkum kringumstæðum. Sem ljóðabók, án allra skuldbindinga, ef svo má segja, er hún bæði falleg og forvitnileg, en sem listaverk sem tekur á þessu skuggalandi sjúkdómsins gæti hún vel átt sér hlutverk. Ég þreytist aldrei á því að benda á að bókmenntir búa ekki aðeins yfir afþreyingu, skemmtun eða hugarleikfimi, bókmenntir búa yfir þekkingu og þær hafa hlutverk. Og hlutverk þessarar bókar gæti vel verið það að gefa þeim sem berjast við, eða hafa barist við, álíka vágest (á einn eða annan hátt) einskonar huggun, allavega einhverja innsýn eða skilning, jafnvel sátt.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2005