Beint í efni

Ekki láir við stein

Ekki láir við stein
Höfundur
Baldur Óskarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Með þessum orðum tekur ljóðabók Baldurs Óskarssonar á móti lesanda: "Við fyrstu kynni er ljóðabókin borg / séð frá hafi / Þú siglir meðfram ströndinni / götur opnast og sund / og líklega tími til kominn / að leita hafnar". Og að lokum: "Líklega tekur borgin þér opnum örmum".

Ég man varla eftir skemmtilegra og sterkara upphafsljóði á ljóðabók, mér fannst eins og mér væri tekið opnum örmum og fann strax hvernig bókin fangaði mig – eftir svona upphaf er ekki annað hægt en að lesa sig áfram og sjá hvað gerist, hvort ekki opnist götur og sund. Og sem fyrr olli Baldur mér ekki vonbrigðum, það líf og sá leikur sem heillaði mig þegar ég fyrst las ljóð hans er hér enn til staðar, auk þess sem litagleðin er ríkjandi sem fyrr.

Baldur gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1966, en ég verð að játa að það var ekki fyrr en árið 1998 sem ég kynntist honum fyrst sem ljóðskáldi, en þá var mér fengið það hlutverk að fjalla um bók hans Eyja í ljósvakanum. Ári síðar fjallaði ég svo um ljóðasafn hans. Í stuttu máli sagt urðu þetta góð kynni og dæmi um það hvað gagnrýnandastarfið getur gefið af sér, þarna kynntist ég höfundi sem ég hefði að öllum líkindum ekkert endilega farið að lesa að ráði, hef almennt meira lagt mig eftir því að fylgjast með yngri höfundum. Og það skemmtilega er að ljóð Baldurs eru oft á tíðum líkari því að vera eftir yngri höfunda en mörg ljóð þeirra – þó vissulega muni alltaf því að hér er til staðar ákveðið öryggi reynslunnar. Kannski er það þetta sem grípur mig, þetta sambland öryggis og leiks?

En hvað um það. Sem fyrr þurfa ljóðabækur Baldurs allavega tvo yfirlestra, í þriðju umferð fer þetta allt að raðast upp, sambandi er komið á og þú finnur að hér er komið ljóð sem fer vel í hendi eins og segir í ljóðinu "Því fimmta": "Ljóð til að snerta – ávalt", "Ljóð sem er hlutur - / hlutur sem er ljóð".

Í fyrsta hluta bókarinnarinnar erum við stödd með skáldinu einhversstaðar við hafið, nánar tiltekið úti á Granda, en þaðan horfir það til ýmissa átta og skoðar liti og fugla, skip og fjöll. Við uppgötvum hversvegna Esjan er svona í laginu í "Grandinn og miður júní", því "kjölurinn ristir himindjúpið". Og einnig sjáum við móta fyrir skáldinu, þarna á bekknum sínum "Á sumri komanda". Síðan förum við meira á flakk, við setjumst við Tjörnina í ljóðinu "Á góu", en sem fyrr er hún uppspretta skáldskapar og við skoðum fugla og árstíðir, svanirnir virðast boða vor: "En ég er ekkert að grufla / nema hvort vor sé í nánd / og nemi kærleikans innri bauga nú þegar", en skyndilega rifjast það upp að "Í suðaustanátt er jafnan þónokkur súgur / hér niðri við Tjörnina. Slær fyrir í / garðinum. Máfsungarnir búa yfir illu. / Þá er haust." Ljóðið ferðast sjálf frá ljóði yfir í prósa og þannig eru árstíðaskiptin undirstrikuð, auk þess sem tónninn gerbreytist. Í "Á Austurvelli" hittum við fyrir styttur bæjarins sem, líkt og Tjörnin, eru skáldinu vinsælt yrkisefni. Hér tengjast þær tímanum, öðru kunnuglegu þema úr ljóðum Baldurs, ljóðmælanda dreymir "að standmyndir allar í Reykjavík hefðu sagt stöðum sínum lausum" og svo flöktir auga ljóðmælanda yfir sviðið, nema "trén sem skyggja á Hótel Borg" og staðnæmast á dómkirkjuklukkunni sem vantar "sjö mínútur í tólf eins og stofuklukkuna gömlu, heima." Þessi tvö ljóð eru dæmi um það mikla umfang sem falist getur í ljóðinu, þegar það fer svo vel í hendi. Lesandi ferðast í tíma og rúmi, honum er sveiflað milli þess hversdagslega og hins íhugula, en samt er hann alltaf staddur á sama stað og horfir bara í kringum sig, á borgina sína – sem er ljóðabók, og hefur opnað fyrir honum bæði götur og sund.

Hér eru ótalin hin kómískari ljóð, eins og ljóðið um hana Fjörku sem skortir blöðru á þjóðhátíðardaginn og grípur til þess ráðs að blása Hallgrímskirkju upp "og festi í hana spotta". Vangaveltur um liti og tónlist, alheiminn, dauðann og um ljóðið sjálft, önnur skáld og jafnvel bókstafi – en bókstafnum g er helgað heilt ljóð – eru sem fyrr til staðar, en í nýjum myndum. Því það var kannski þetta sem gladdi mig einna mest við þessa bók Baldurs, að sjá hvernig skáldið heldur áfram að þreyfa sig áfram yfir ljóðahraunið og finna í því ný litbrigði, eða eins og segir í ljóðinu "Dagar": "ég smíða og smíða / á aflinum sverð mitt frá degi til dags / vind saman marga þætti/hamra og herði í sniglavatni/brýni á hverfisteini".

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004