Beint í efni

Eldarnir : Ástin og aðrar hamfarir

Eldarnir : Ástin og aðrar hamfarir
Höfundur
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir er þriðja skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur sem annars er þekktust fyrir að færa lesendum fréttir heim í stofu en hún hefur starfað sem fréttamaður á ríkissjónvarpinu um árabil. Fyrsta saga hennar Eyland, sem kom út árið 2016, er hamfarasaga rétt eins og Eldarnir, og fjallar um það þegar Ísland missir allt samband við umheiminn. Þá má segja að næsta saga á eftir, Hið heilaga orð, fjalli einnig um yfirvofandi hamfarir en af dálítið öðrum toga: um hugsanlegt hvarf ritmálsins á tímum snjallsíma og samskiptamiðla. Eldarnir eru að vissu leyti hefðbundnari hamfarasaga en þær tvær fyrri því hún fjallar um atburði sem gætu sannarlega átt sér stað en höfundur hefur líst því í viðtölum hvernig hún fékk nánast áfall við skrifin þegar jarðhræringar tóku að mælast á Reykjanesskaga fyrr á árinu: var hún forspá? Var skáldsagan eyðilögð? Sem betur fer leiddu hræringarnar ekki til sprengigoss eins og við lesum um í Eldunum og sögunni (og íbúum höfuðborgarsvæðisins) því borgið.

Hamfarasagan virðist lifa góðu lífi um þessar mundir. Á síðustu árum hefur sú bókmenntagrein þótt hæfa til að takast á við loftslagsbreytingar samtímans, yfirvofandi hamfara af völdum hnattrænnar hlýnunar. Þá hefur hamfaraárið 2020, árið þegar pestin náði völdum á lífi almennings með tilheyrandi fordæmalausum reglugerðum, hömlum, boðum og bönnum, og margvíslegum félagslegum afleiðingum, stutt enn frekar við að sú bókmenntagrein eigi upp á pallborðið hjá lesendum. Hvaða áhrif hefur það að lesa um hamfarir þegar maður upplifir hamfarir? Skapar það einhverskonar sefjun, hreinsun eða bara speglun? Það skal ósagt látið hvort það að lifa á hamfaratímum geri lesendur sólgna í að lesa um hamfarir. Ef til vill verða þeir móttækilegri fyrir slíkum frásögnum og tilbúnari til að samþykkja atburðarás sem fyrir ári hefði talist með öllu óhugsandi. Hinar raunverulegu hamfarir hafa opnað fyrir hólfið í huganum sem segir: jú, jú, auðvitað gæti verið nauðsynlegt að loka landinu fyrir túristum og banna ferðir til útlanda, skipa fólki að halda sig heima, loka skólum og vinnustöðum, og bera grímur á almannfæri. Og að mörgu leyti skírskota jarðhræringarnar, náttúruváin og eldgosin í Eldunum til þessa hamfaraástands tengdu covid-19: hér er mikið fjallað um almannavarnir og sýnt hvernig ólíkir hagsmunir takast á bakvið tjöldin, hvernig viðhorf stjórnmálamanna og vísindamanna geta stangast á, að ekki sé minnst á hvernig almannavarnir og ferðamannaiðnaðurinn fara oftar en ekki illa saman, og hvernig boð og bönn með almannaheill í huga geta haft ófyrirséðar félagslegar afleiðingar.

En nóg um það. Eldarnir fjalla um aðalpersónuna Önnu Arnardóttur. Hún er hámenntaður jarðfræðiprófessor sem lifir afar þægilegu lífi ásamt fjölskyldu sinni í stóru einbýlishúsi í úthverfi. Hún á góðan eiginmann, heilbrigð börn, en líf hennar umturnast þegar miklar og að því er virðist tilviljanakenndar jarðhræringar taka að mælast á Reykjanesskaga. Á sama tíma verður einnig á vegi hennar óheflaður ljósmyndari sem hún verður yfir sig ástfangin af en lýsingarnar á framhjáhaldi þeirra í kjölfarið gefa til kynna að ástin, sem líkamlegt náttúruafl, taki völdin hjá þessari annars skynsömu vísindakonu og smám saman eyðileggi líf hennar.

Jarðfræði og fróðleikur um eldfjöll skipa veigamikinn sess í sögunni og bera vott um að mikil og vönduð rannsóknarvinna búi að baki. Sú áhersla fellur örugglega vel í kramið hjá lesendum sem hafa áhuga á jarðfræði og eldfjöllum en það eru vafalaust margir. Enda óhjákvæmilegt á eldfjallaeyju norður í íshafi, með eldhjartað undir fótum okkar og þar sem óblíð náttúran er dugleg að minna á sig. Aðalpersónan dregur einmitt fram tengsl jarðhræringa og þjóðarsálar þegar hún segir: „Nærri fjórðungur þjóðarinnar fórst í kjölfar Skaftárelda. Síðan hafa átta kynslóðir okkar fæðst og dáið. Við erum afkomendur eftirlifendanna, með eldinn, öskuna og hungrið í erfðaefninu. Okkur er ekki sjálfrátt, við drögumst að eldinum eins og náttfiðrildi“ (33).

Að vissu leyti minnir sagan á sjónvarpsþátt sem endurspeglar ákveðna frásagnaraðferð frekar en að vera áfellisdómur af neikvæðum toga: nútíma sjónvarpsefni er oft hlaðið miklum gæðum. Stíllinn er afar myndrænn og auðvelt að sjá fyrir sér Önnu til dæmis í vettvangsferðum með kollegum sínum úti á Reykjanesi. Atburðarásin er spennandi og hröð, og oft er sagt frá einhverju í endurliti eða hálfgerðu „flashback“ til að tengja ólík tímabil og skapa orsakasamhengi - eitthvað sem átti sér stað í æsku aðalpersónunnar hefur áhrif á líðandi stund. Það eru helst minningar um föður Önnu sem birtast þannig en hann var sjálfur goðsögn í íslenskum jarðfræðiheimi og mikill áhrifavaldur í lífi dótturinnar.

Aðalpersónan Anna, og persónusköpun hennar, skapaði einnig hugrenningartengsl við sjónvarpsþætti því hún minnir sterklega á eftirminnilegar aðalpersónur úr nýlegum skandinavískum glæpaseríum á borð við Sögu í Brúnni og Söru í Glæpnum. Þetta eru sterkar kvenpersónur en um leið ákveðnar andhetjur því þær eru álitnar andfélagslegar þar sem þær falla ekki að stöðluðum hugmyndum um hlutverk kvenna og mæðra í nútímasamfélagi. Anna er ef til vill ekki andhetja en framhjáhald hennar sýnir hvernig hún dansar á línunni. Aftur á móti fáum við hina kvenlegu andhetju par excellence í persónu móður hennar sem er þunglyndur og keðjureykjandi bókmenntaþýðandi sem yfirgaf dótturina í æsku. Móðirin virðist hafa villst af leið og tapað sér í heimi bókmennta, eins og faðirinn orðar það á einum stað. Þá tengir melódramatískur tónn sögunnar hana enn frekar við hugmyndina um sjónvarp og sjónvarpsþætti, en hann birtist ekki síst í samskiptum kynjanna, sem ávarpa hvort annað með yfirdrifnum hætti – ástin mín, elskhugi minn – og í lýsingum á ástinni sem einhvers konar yfirnáttúrulegu eyðandi afli sem grípur fram í fyrir sjálfstæða hugsun og vilja, en á köflum þótti mér sú umræða helst til einföld og klisjukennd. Aftur á móti fannst mér þráðurinn um móðurástina öllu áhugaverðari og sterkari; þegar Anna fjallar um sambandsleysi sitt við móður sína, og þá höfnun og vöntun á móðurást sem hún upplifir í samskiptum við hana, en einnig um eigin skyldur og tengsl við átta ára gamla dóttur sína.

Frásögnin nær flugi og verður spennandi, flott og áhrifarík í hamfaraköflunum undir lokin þegar þau hverfi höfuðborgarsvæðisins, sem næst eru Reykjanesskaganum, standa í ljósum logum og hverfa í sótsvarta ösku og eldregn. Síðasti kaflinn er hádramatískur og tragískur, en lýsingarnar þar á varnarleysi móðurástarinnar hitta lesandann beint í hjartastað.
 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2020