Beint í efni

Endurskyn

Endurskyn
Höfundur
Baldur Óskarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég man ekki hvort það var fyrir tveimur eða þremur ljóðabókum sem Baldur tilkynnti að sú yrði hans síðasta. Gott ef þetta var ekki Dagheimili stjarna sem kom út árið 2002, árið sem skáldið varð sjötugt. Sem betur fer hefur Baldur ekki fylgt hótun sinni eftir, því árið 2004 sendi hann frá sér Ekki láir við stein og nú tveimur árum síðar er hann enn með ný ljóð, í Endurskyni. Ekki láir við stein var fremur hæglát bók og íhugul og stef aldurs eða öldrunar var nokkuð áberandi, skáldið röltir um borgina og situr við sjóinn og talar um sjálfan sig sem gamlan mann. Endurskynið er hinsvegar afskaplega ung bók eitthvað, hreinlega spræk og það er greinilegt að skáldið hefur uppgötvað að aldur er bara orð:

Orð mitt

Ég er gamall skeggjúði
og mér hefur förlast

verður þó sjaldan á
að taka ofan

en berið orð mín burt ...

lát ösku þess flæmast
yfir holt og hæðir
ofaní læki

Hér er skáldið vissulega enn að lýsa sér sem gömlum manni, en orð hans er þó lifandi og berst yfir holt og hæðir - og syndir í vatni. Næsta ljóð á eftir er síðan undurfallegt vatnsljóð:

Undirdjúpin

Gulir flákar og blöðkur
fiðrildum líkar
sveiflast með sviga læ
sveima til manna
óvina - elskenda
á alstirndum botni

Hér eru ljóðin að sveima um undirdjúpin, orð skáldsins - og svo gat ég ekki annað en hugsað um annað undurfallegt undirdjúpa-ljóð sem birtist í lagi Bjarkar “Oceania”. Textann gerði Sjón og myndbandi Lynn Fox við lagið mætti einmitt lýsa með ljóði Baldurs, en það er eins og ljóð í sjálfu sér í dularfullri fegurð sinni.

Þessi ungæðingsháttur birtist á ýmsan hátt í bókinni, kápumyndin er barnsteikning og svo leikur skáldið sér með stef og rím; yfirhöfuð er leikur með ljóðið áberandi einkenni á Endurskyni, nokkuð sem er svosem ekki nýtt hjá Baldri, en er meira ríkjandi en oft áður. En hér eru einnig þessi skemmtilega snúnu ljóð sem ekki láta auðveldlega að stjórn, myndauðug og gljúp, eins og ljóðið “Synir Satúrnusar”, en þar er lýst slætti “glampandi ljáir”, en hverjir eru synir Satúrnusar í þessu ljóði? Væntanlega þeir sem eru “háleggjaðir / handagreiðir // það glittir í rifin / og tennur gamlar / kjöthleifar svífa þar yfir”. Ég giska á nautgripi.

Þessi ljóð minna á margt í höfundarverki Baldurs enda er hann óhræddur við að kallast á við eigin ljóð og halda áfram að vinna með myndmál og stef, eins og í ljóðinu “Endursýn”, en þar hittum á ný við “Hylinn” úr Krossgötum (1970), með sínar svörtu kverkar og fjólubláu varir. Hér nýtur sín hin sterka og litglaða myndsýn skáldsins, en hann málar ljóð sín svo skýrum litum að þau virka oft sem myndverk. Enda fjallar hann oft og iðulega um myndlistamenn, í þessari bók er það Magritte sem er honum nærtækur, eins og í ljóðinu “Nike”, en þar kallar hann á málarann og segir: “René! / langafi minn / kastala byggði á bjargi / og svífa lætur”. Ég barasta sé Chateau des Pyrénées fyrir mér, bjargið svífandi með bjargföstum kastala og brimið fyrir neðan.

Annað er svo nýstárlegra, allavega man ég varla eftir svo pólitískum ljóðum (þó mér gæti verið farið að förlast) sem til dæmis “Drekkjum öllu”, en þar er lýst sinueldi sem étur hreiðurstæði og lirfur, en “Það grær uppúr öskunni”, allavega “það sem ekki er brunnið til rótanna”, en: “nú fer annar eldur um landið”. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hér gagnrýni á stóriðjustefnu stjórnvalda, enda komast átthagar á stjá í næsta ljóði, með Valgerði í fararbroddi.

Þrátt fyrir að Ekki láir við stein hafi að einhverju leyti verið borgarbók þá er náttúran linnulaus uppspretta myndmáls í höfundarverki Baldurs, eins og hylurinn er gott dæmi um. Í þessari bók er það hið smáa sem fangar athygli hans, nánar tiltekið skordýrin. Í ljóðinu “Sá litli” eru árstíðir markaðar með skordýrum og í “Föstudagur 30. júní” segir svo:

Ég hef enga andúð á pöddum
elskur að þeim -
né heldur
Sumar ganga á vatni:

Stjákl stjákl -
það stríkkar einsog á tímarúminu

Og það stríkkar á tímarúminu í þessari unglöðu ljóðabók skáldsins, sem er um margt unglegri og líflegri en ýmsar bækur yngri skálda, enda stjákla orð hans yfir vatnið og spegla sig í alstirndum botninum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006