Beint í efni

Eragon: Öldungurinn

Eragon: Öldungurinn
Höfundur
Christopher Paolini
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er óhætt, já bara alveg gersamlega óhætt, að segja að ævintýri séu ‘inni’ um þessar mundir og er það vel. Ég hef í fyrri umsögnum mínum um ævintýrabækur fjallað um þá bylgju fantasíu-bóka fyrir ungviði á öllum aldri sem fylgt hefur í kjölfarið á vinsældum Harry Potter bókanna og ætla svosem ekki að endurtaka þær vangaveltur hér. Hinsvegar er ástæða til að minna á að fantasíur hafa náttúrulega alltaf verið til, og verið vinsælar meðal þeirra sem kunna góðar bókmenntir að meta, þó þær hafi ekki alltaf verið eins áberandi í bókmenntalandslaginu og nú.

Almennum vinsældum á borð við þær sem fantasíur njóta nú fylgja auðvitað ýmsir kvillar, svosem æsingalegar kynningar og misgóðar kvikmyndanir, og þannig er hætt við að gleðin sem fylgir vel smíðaðri fantasíu þynnist ofurlítið út. Og sú bók sem hér er til umfjöllunar er gott dæmi um það sem getur farið úrskeiðis þegar fantasíu-ofninn er ofkynntur.

Eragon eftir Christopher Paolini var auglýst með miklum látum og mikið var gert með það að höfundurinn hefði aðeins verið fimmtán ára þegar hann hóf að skrifa söguna. Vissulega er það jákvætt að ungir höfundar skrifi fyrir unga lesendur og ég var því fljót að grípa eintak af bókinni. Ekki var ég þó jafnfljót að lesa hana, einhvernveginn dróst ég illa áfram eftir fyrsta hlutann sem lýsir fundi drekaeggsins og nánum tengslum milli ungs drengs og drekans sem klekst út úr egginu. Og ég gat ekki annað en hugsað með mér að hér hefði svolítið farið eins og sagt er með höfunda meirihluta tölvuleikja, ungir menn sem hafa aldrei séð heiminn utan tölvuskjás og hafa tilhneigingu til að miða þeirri þröngu sýn inn í leiki sína.

Sagan hefur vissulega allt sem tilheyrir í fantasíum, unga (lítt gáfaða, eins og höfundur bendir sjálfur á í eftirmála) karlhetju, dreka, illmenni, álfameyjar, bardaga og galdra. Utanum um þetta er svo heill heimur, hæfilega kunnuglegur sem hin hefðbundna forneskju-fortíð og hæfilega nýstárlegur. Tolkien er nærri, eins og vera ber í þessari tegund fantasía, og ekki má heldur gleyma Star Wars, sem er orðin að grunnmýtu á borð við Tolkien í hugum yngri kynslóða (já, jafnvel þeirra sem eru ekki fæddir fyrr en eftir að fyrsta myndin var frumsýnd eins og Paolini). Eragon þekkir ekki foreldra sína og er alinn upp hjá móðurbróður sínum. Strákurinn er mikill veiðimaður og afar ævintýragjarn og í einni hættuferð finnur hann drekaegg, eggið klekst út og það myndast mikil tengsl milli drengsins og drekans, sem reynist kvenkyns. Eragon nefnir hana Safíru. Fulltrúar hins illa konungs ráðast á heimabæ Eragons og drepa frænda hans. Eragon flýr með drekann og í fylgd með honum er Brom, sagnaþulur þorpsins sem reynist búa yfir mikilli þekkingu og fortíð. Og þannig fer af stað saga um átök hins góða og illa.

Heimsmyndin er sú að áður lifðu álfar, dvergar og menn í sátt og samlyndi og svokallaðir drekariddarar, fólk sem var útvaldið sem riddarar dreka, voru gífurlega valdamiklir og réttlátir, auk þess að vera voldugir galdramenn. Samfélagið einkenndist sumsé af stöðugleika og allt var gott. Nema svo, vegna skelfilegra atburða, rís illur konungur upp, lætur drepa drekariddarana, utan þá sem sverja honum hollustueið, og allt fer á verri veg. Og það er gegn þessum konungi sem Eragon verður að berjast, því sá ásælist bæði strákinn og drekann. Fyrri sagan endar á dramatískum bardaga andspyrnuhreyfingarinnar, sem nefnist Verðirnir, og her konungsins, en það er hefð fyrir því að fantasíur endi með dramatískum bardögum (sbr. Hringadróttinssaga). Í seinni bókinni er því lýst þegar Eragon hlýtur frekari þjálfun í álfheimum og verður ástfanginn af hundrað ára álfamey sem endurgeldur ekki tilfinningar hans. Á meðan hellast frekari hörmungar yfir heimaþorp hans og frændi hans, Roran, sem er honum eins og bróðir, tekur stjórnina og berst gegn þeim illvættum sem konungurinn sendir til að afla frekari upplýsinga um Eragon og Safíru.

Það er fátt frumlegt við þennan söguþráð enda er það ekki endilega málið, aðalatriðið er hvernig unnið er úr þeim (formúlu)spilum sem höfundur hefur á hendi. Og þar byrja vandræðin. Vissulega er mikið af fínum hlutum, samskipti Eragons og Safíru og yfirhöfuð allt það sem kemur að drekunum er lifandi og skemmtilegt og greinilegt að þar skín í gegn einlæg ævintýraþrá og draumar sem á stundum ná glæsilegu flugi. Sömuleiðis er margt í lýsingum á heimi og samfélagi dverganna vel gert og ýmislegt varðandi hinar og aðrar minni persónur, svosem töfrakonuna Angelu og varkött hennar, er líka forvitnilegt. Saga Rorans er á hinn bóginn frekar þreytandi og ofhlaðin klisjum og það tekst ekki nægilega að láta ævintýrið meðal álfanna og töfra þeirra og raunsæislegar hremmingar almúgans spila saman. Ennfremur líða báðar bækurnar fyrir ákveðið lífleysi í heildina, boginn er spenntur um of (mér fannst það óþarflega táknrænt þegar Eragon spennir eitt sinn boga sinn svo mikið að hann brotnar) og þá á tilgerðin greiða leið inn, en hún er hættulegust illvætta fantasíunnar. Þannig náði ég bara ekki að lifa mig nægilega mikið inní heim Paolinis, heldur truflaðist sífellt af ofur-hefðbundinni úrvinnslu fantasíunnar, sem birtist til dæmis í kynhlutverkum, svo ekki sé talað um ástir og leyndardóminn um faðernið. Þannig skildi ég við fyrri bókina algerlega laus við forvitni um örlög þessa fólks og því miður á það sama við hér, Eragon: Öldungurinn vekur ekki hjá mér neinn áhuga á því að lesa þriðju söguna.

Nú mætti sjálfsagt afgreiða þessa afgreiðslu mína á Eragon sem fordóma lífleiðs lesanda sem er einfaldlega orðinn of gamall fyrir verkið og það má vel vera. Sannarlega hefur bókin vakið mikla lukku meðal þeirra yngri lesenda sem ég hef heyrt ofaní, en aðrir á mínu reki eru lítt upprifnir. Þó get ég ekki annað en borið slíkar vangaveltur saman við greiningu Dagnýar Kristjánsdóttur á Latabæ (sem notið hefur geysilegra vinsælda), en þar bendir hún á að þó vissulega megi taka undir að boðskapurinn um hollustu sé jákvæður þá sé fátt í framsetningunni sem gefi tilefni til að gleðjast, en þar ráði stereotýpur og útþynntur söguþráður ríkjum. Og Dagný spyr hvort ekki megi óska börnum staðbetra menningarefnis, rétt eins og staðgóðrar næringar. Á sama hátt verð ég að spyrja mig hvort verk eins og Eragon, þrátt fyrir sína kosti, sé ekki dæmi um að fantasíuæðið sé farið að endurframleiða sjálft sig á gagnrýnislausan hátt, og ef svo er þá er það ekki gott, því þá hefur óvinurinn sigrað.

Að lokum get ég ekki annað en hnýtt aðeins í frágang bókarinnar og þýðingu. Almennt séð er þýðing Guðna Kolbeinssonar alveg ágæt, rennur vel og lausnir hans á þýðingum á ýmsum ævintýraorðum - sérstaklega þegar kemur að þeim nöfnum sem hinir ólíku þjóðflokkar nefna drekana - eru sérlega góðar. Þó ber á stundum á nokkuð klaufalegum setningum, en slíkt má reynar fullt eins skrifast á reikning yfirlesturs, því góð yfirlega hefði átt að hreinsa slíkt út. Sömuleiðis er frágangur fremur slappur, hér og þar dúkka gæsalappir upp án þess að lokast, eða lokast án þess að hafa verið opnaðar (og eins og allir vita eru gæsalappir vandmeðfarið fyrirbæri), auk þess sem setningar renna iðulega saman því það vantar bil á eftir punktum, orðaskipting er stöku sinnum undarleg og á einum stað er setningu skipt upp í miðju án sýnilegrar ástæðu. Allt er þetta spurning um yfirlestur og vissulega er bókin þykk og verkið því óárennilegt, en það er synd að slík vinnubrögð sjáist í bók sem ætluð er ungum lesendum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006