Beint í efni

Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn

Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn
Höfundur
Charles Fuge
Útgefandi
Steinegg
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn
Höfundar
Susie Jenkin-Pearce,
 Tina Macnaughton
Útgefandi
Steinegg
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn
Höfundar
M Christina Butler,
 Tina Macnaughton
Útgefandi
Steinegg
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn
Höfundar
Christine Leeson,
 Jane Chapman
Útgefandi
Steinegg
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fimm fallega myndskreyttar bækur fyrir börn
Höfundur
Per Gustavsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fallega myndskreyttar bækur fyrir börn er fyrirbæri sem virðist fara í vöxt, allavega rekur mig ekkert sérstaklega minni til að slíkur fjöldi hafi verið mér aðgengilegur á sínum tíma. Þó minnist ég Barbapabba með mikilli hlýju, hef verið staðfastur aðdáandi allar götur síðan og fagna því ákaflega að nýjum kynslóðum skuli nú hafa hlotnast sú gleði að alast um með bleika Barbapabba og hans litríku fjölskyldu. Barbapabbi er líka gott dæmi um hvað svona myndabækur geta skipt miklu máli fyrir ímyndunarafl barna og upplifanir, góðar myndabækur örva og hvetja, gleðja og hryggja og bjóða uppá margradda skynjun orða og mynda. Góð myndabók er fersk í hvert sinn, nýtt smáatriði uppgötvast hér og þar, eða þá að lesandi fagnar kunnuglegum persónum og sviðsetningum.

Bókaútgáfan Steinegg sendir í ár frá sér fjórar afskaplega krúttlegar myndabækur. Þetta eru Moli og eggið (Steinegg, 2006), sem fjallar um mörgæsarunga og mörgæsaregg, Pabbi minn (Steinegg, 2006), sem er saga um stoltan bjarnarhún, Snjóengillinn (Steinegg, 2006), sem segir frá músum og gæs sem þær álíta engil, og Vetrardagur (Steinegg, 2006), sem segir frá litlum hjartagóðum broddgelti. Allar eru bækurnar vandaðar og fallegar, þó mér hafi fundist krúttheitin næstum einum of í mörgæsasögunni. Pabba-sagan minnti mig ofurlítið á sögurnar um Greppikló, en er á allan hátt mun einfaldari í sniðum. Mestu sögurnar eru í síðastnefndu bókunum, Snjóenglinum og Vetrardegi, en í þeirri fyrri er dregin upp dásamlega falleg jólamynd af lífi lítilla músa sem koma flugþreyttum snjóengli til bjargar og hljóta gæsafiður í hreiðrið sitt að launum. Vetrardagur er ekki síður falleg saga, en þar hefur vindurinn feykt búi broddgaltarins á burt svo hann heldur dúðaður í húfu, trefil og vettlinga til að leita skjóls hjá vini sínum. Á leiðinni hittir hann önnur dýr sem einnig eru köld og hrjáð af vetrarvindinum og lætur þeim búnað sinn í té. Báðar bækurnar höfða til snertiskynsins, í Snjóenglinum er hægt að strjúka glimmer og í Vetrardegi eru dúðir broddgaltarins mjúkar viðkomu.

Prinsessubók (Bjartur, 2006) Pers Gustavssons er síðan af allt öðrum toga, en þar er sagt frá áframhaldandi ævintýrum þessarar ofursvölu prinsessu sem nú á afmæli og heldur veislu. En þegar veislugestum er rænt af vondum galdrakarli sem er sár yfir að hafa ekki fengið boð í veisluna tekur prinsessan til sinna ráða. Teikningarnar eru mun kómískari og óreiðukenndari en hið fágaða yfirborð hinna fjögurra bókanna, en ættu að höfða fullt eins vel til ungra jafnt sem eldri lesenda.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006