Beint í efni

Fimm myndskreyttar barnabækur

Fimm myndskreyttar barnabækur
Höfundur
Björk Bjarkadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Fimm myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Áslaug Jónsdóttir,
 Kalle Güettler,
 Rakel Helmsdal
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Fimm myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Þórður Helgason,
 Karitas Pálsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Fimm myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Kristín R. Thorlacius,
 Erla Sigurðardóttir
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Fimm myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Margrét Þórhildur Jóelsdóttir,
 Stephen Fairbairn
Útgefandi
Skjaldborg
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það veitir ekkert af því að lesa sögur um góða vini, aðhlynningu og umhyggjusemi nú þegar skammdegið hefur sjaldan verið svartara. Á hverju ári koma jólasveinarnir í bæinn með nokkurn fjölda myndabóka fyrir börn og kennir þar ýmissa grasa. Hér verða nokkrum slíkum gerð stuttleg skil.

Björk Bjarkadóttir hefur sent frá sér nokkrar bækur um lítinn strák og ofurömmu hans, ákaflega skemmtilega frumlegar sögur með líflegum myndlýsingum höfundar. Að þessu sinni sendir hún frá sér mun hefðbundnari sögu, Elsku besti pabbi (Mál og menning, 2008), sem lýsir aðdáun lítillar stúlku á föður sínum, en hann getur allt. Það sem gerir bókina flotta eru myndirnar, en lesandi rekur sig eftir síðum sem segja frá leikjum og samskiptum feðginanna og þar bregður faðirinn sér í ýmissa kvikinda líki; hann er jólasveinn, galdramaður, api, mús og súpermann. Allt gerist þetta í hinum nú vel þekktu og líflegu myndum Bjarkar sem að vanda eru allar dálítið bjagaðar og þannig fullar af krafti.

Myndir Erlu Sigurðardóttur í Sögu um stelpu (Uppheimar, 2008) eftir Kristínu R. Thorlacius virðast í samanburðinum óþarflega hefðbundnar og bæta litlu við þessa snörpu og sterku sögu af lítilli stelpu sem óttast ógurlegan hund. Á hinn bóginn má einnig segja að þessar hugljúfu myndir búi þessari litlu sögu úr sveitinni hlýlegan og dálítið gamaldags búning sem vissulega hefur sinn sjarma. Söguhetjunni ungu finnst gaman að reka kýr, en það fer í verra þegar hún þarf að fara framhjá Bólu því þar búa „geðvondir karlar sem áttu geðvondan hund.” Sagan segir svo frá því að stelpan heyrir hundsgelt og hleypur skelkuð af stað, bara til að uppgötva í lokin að þetta var ekki geðvondi hundurinn karlanna, heldur góðvinur hennar Kátur. Hér er byggð upp heilmikil ógn sem síðan leysist farsællega, og lesandi er minntur á að þó sumir hundar geti verið varasamir þá eru aðrir góðir.

Skrímslabækur Áslaugar Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakelar Helmsdal, ganga einmitt útá að sýna framá að skrýmsli eru ekki alvond. Í fjórðu bókinni, Skrímslapest (Mál og menning, 2008), heimsækir litla skrímslið stóra skrímslið sem er lasið. Litla skrímslið hefur ofan af fyrir því með hollum mat og leikjum, en stóra skrímslið hefur allt á hornum sér - og smitar það litla. Litla skrímslið fær síðan heimsókn af stóra skrímslinu sem endurtekur aðhlynningu þess litla og er gífurlega ánægt með sjálft sig! Áslaug bregður að vanda á leik í myndmálinu, til dæmis eru bækurnar sem skrímslin lesa hvort fyrir annað fyrri skrímsabækurnar.

Í Skrímslabókunum haldast myndir og saga vel í hendur og auka áhrif hvors annars. Smárarnir (Salka, 2007) eftir Þórð Helgason er, líkt og saga Bjarkar, dæmi um sögu sem eflist mjög í myndmáli og hönnun Karítasar Pálsdóttur. Sagan segir frá Smára litla sem er þmámæltur og getur ekki sagt nafnið sitt. Þetta þykir honum miður en þegar amma hans segir honum sögu af fjögurra laufa smára sem lætur óskir rætast þá leitar hann ákaft að slíkum. En þegar hann finnst þá er hann hreint ekki sáttur, því honum er, líkt og Smára þmámælta, strítt á því að vera öðruvísi. Myndir og hönnun Karítasar eru, eins og áður segir, ómissandi fyrir þessa litlu sögu. Teikningarnar eru barnslegar, í svarthvítu með grænu ívafi og letrið bregður á leik með sögunni og þannig lifnar hún við.

Uppsetning texta er með öllu hefðbundnari blæ í sögunni af steininum í Úti í myrkrinu (Skjaldborg, 2008) eftir Margréti Þ. Jóelsdóttur og Stephen Fairbairn. Sömuleðis er samspil mynda og texta með hefðbundnu sniði, þarsem textinn er öðrumegin á opnu og myndin hinumegin. Myndirnar bæta þó heilmiklu við söguna sem segir frá Nóa sem vaknar upp eina myrka rigningarnótt við aumleg hljóð úr garðinum. Þegar hann fer að kanna málið kemur í ljós að úti í garði stendur stór steinn sem hefur verið rifinn upp með rótum úr stóru bergi og er einmana og kaldur. Svo Nói tekur til sinna ráða og hlúir að steininum.

Hér má vel merkja dulítinn boðskap um náttúruvernd og tillitssemi gagnvart umhverfi sínu, en þetta tema umhyggju liggur í gegnum allar sögurnar. Samband feðginanna í Elsku pabbi minn er traust og hlýtt, litla stúlkan í Sögu af stúlku á góðan vin í hundinum sínum og skrímslin hlú hvort að öðru í veikindum. Smári litli á sér skjól frá stríðni hjá afa og ömmu og Nói tekur kalda steininn undir sinn verndarvæng. Hvergi er þessum boðskap ofgert, heldur er hann fléttaður fimlega inní samþáttun sögu og mynda. Slíkt jafnvægi er ekki sjálfgefið, eins og bækurnar Na na na bú bú! og Lotta Skotta og frekjudósirnar eftir Elínu Elísabetu Jóhannsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur eru gott dæmi um, en þar er keyrt svo yfirum á boðskap og uppeldisgildum að þessar annars ágætlega skemmtilegu sögur, með frábærum myndlýsingum Höllu Sólveigar, missa marks. Þetta er bagalegt, því eins og hinar bækurnar fimm sýna allar er margt hægt að segja í stuttu máli, hver saga fyrir sig býr yfir margfalt fleiri blæbrigðum en hér hafa verið rædd, sem bíða þess að vera uppgötvuð í upplestrum og samverustundum.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008