Beint í efni

Fjórar þýddar glæpasögur

Fjórar þýddar glæpasögur
Höfundur
Jeff Lindsay
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar glæpasögur
Höfundur
Raymond Khoury
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar glæpasögur
Höfundur
Liza Marklund
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar glæpasögur
Höfundur
Camilla Läckberg
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þær eru harla ólíkar þessar fjórar glæpasögur sem rak á fjörur mínar þetta sumarið, en sumarið er tími glæpanna eins og flestir vita. Á sumrin er ég svo þakklát fyrir að fá bara að lesa léttmeti segir kona á bókasafninu við mig, næstum afsakandi með bunka af dægurbókmenntum af ýmsu tagi, aðallega þó krimma. Ég er henni hjartanlega sammála og vona að ég hafi náð að koma slíkum afsakandi tóni fyrir kattarnef. Annar lánþegi, karlmaður, skilur ekkert í að Lífstíð Lizu Marklund (Uppheimar, 2008) sé ekki komin í hillur bókasafnsins; hún er komin út segir hann harðákveðinn, get ég pantað?

Líklegast eru glæpasagnalesendur lífstíðarfangar líkt og þeir sem fjallað er um í Lífstíð Lizu Marklund, en hún er beint framhald af Arfi Nóbels sem kom út í íslenskri þýðingu í fyrra. Þó ekki hvað varðar glæpahliðina, heldur er það líf aðalsöguhetjunnar, Anniku Bengtzon, sem við fylgjum eftir. Arfi Nóbels lauk með því að kveikt var í húsi hennar. Við lesendur fyrri bókarinnar vitum hver þar var að verki en Annika veit það ekki, og því er bruninn einn af glæpunum sem hún þarf að fást við, meðal annars sem einn grunaðra að íkveikjunni. Bruninn er táknrænn fyrir ástand hennar sjálfrar, maðurinn hennar, Thomas, hefur farið frá henni, vinkona hennar tekur illa á móti henni og Anniku finnst líf sitt í rúst. Sömuleiðis er allt í klessu á blaðinu þarsem hún vinnur, því heimur dagblaða og fjölmiðla hefur breyst, allt gengur meira út á hraða og æsifréttir, með minni áherslu á vandaða blaðamennsku. Að vanda blandast ofurlítil pólitík í málið, á meðan Annika fjallar um - og rannsakar - morð á virtum lögregumanni sem kona hans er grunuð um er Thomas að skrifa skýrslu fyrir ráðuneytið um lífstíðarfangelsi og kostnað við fangavist. Og auðvitað reynist ýmislegt rotið í Svía-veldi, eins og vera ber þegar góðir rannsóknarblaðamenn láta til sín taka.

Stundum verð ég óttalega þreytt á því hvað hún Annika er mikil óhemja og er sífellt ýmist á barmi gráts eða að æsa sig yfir smámunum á verstu augnablikum. En eins og góð frænka mín, lestrarhestur mikill, benti mér á, þá er það einmitt þetta sem gerir það að verkum að ég bíð, rétt eins og lánþeginn, alltaf eftir nýjum bókum eftir Marklund. Því það er einmitt það hvað söguhetjan er mikill gallagripur sem gerir sögurnar um hana skemmtilegar og áhugaverðar, því lesandinn er krafinn um ansi mikla þátttöku í lífi hennar, ekki síður en starfi við glæpi og blaðamennsku.

Mikilvægi góðrar persónusköpunar verður seint vanmetin innan glæpasögunnar og Jeff Lindsay hefur sannarlega hitt á góða samsetningu í siðblinda raðmorðingjanum Dexter sem er aðalhetja Dexters dáðadrengs (JPV útgáfa, 2008). Fyrri bókin um Dexter kom út á íslensku árið 2005 og fljótlega var sýnd bandarísk sjónvarpssería byggð á þeirri bók. Því miður hugnaðist mér hún illa og var því dálítinn tíma að komast inn í nýju bókina, en áður en varði náði Dexter tökum á mér. Hér er svo komið að systir hans veit að hann er ekki eins og fólk er flest en treystir honum þó sem aldrei fyrr þegar í ljós kemur að siðblindur raðmorðingi hefur rænt alríkislögreglumanni sem hún er ástfangin af. Dexter hefur lent í rugli, því félagi hans úr lögreglunni grunar hann um græsku sem verður til þess að hann þarf að leika hið skelfilega hlutverk venjulegs karlmanns í tilhugalífi, og heimsækir reglulega fráskilda konu með tvö börn, leikur við börnin (sem eru einu mannverurnar sem hann ber tilfinningar til, honum líkar vel við börn og leggur sérstaka áherslu á að slátra barnaníðingum), drekkur bjór og horfir á sjónvarpið. En með því að hjálpa systur sinni sér hann að hann getur hjálpað sjálfum sér líka.

Eins og fyrri bókin er hér mikið um grafískan hrylling, ýktar lýsingar á morðum og misþyrmingum sem hljóta að gleðja alla (siðblinda?) glæpasagnaunnendur. Lindsay tekst vel að þróa karakter sinn áfram, fylla meira upp í bakgrunn hans og skapa honum sannfærandi tilveru og húmorinn er aldrei fjarri, því það hefur Dexter lært, að halda uppi dæmigerðu yfirborðs-spjalli sem er ævinlega á kómískum nótum, í því liggur auðveld leið til að halda fjarlægð og fela blóðþorstann. Stíllinn er flúraður og fullur af orðaleikjum sem Ísak Harðarson kemur ágætlega til skila, þó þýðingin hefði að ósekju þolað eina umferð af fægilegi.

Þýðingin á Griðastað Raymond Khourys (JPV útgáfa, 2008) hefði að ósekju þolað nokkrar umferðir í gegnum bílaþvottastöð, en mögulega liggur gallinn í vondum frumtexta - sem ég hef ekki kannað. Ég var ekki hrifin af fyrri metsölubók Khourys og fannst þessi ekki mikið skárri, en þó aðeins. Griðastaður er dæmigerð ‘da vinci’ eftirlíking, hér er fjallað um leyndardóma fortíðar, leynilegt bræðralag sem hefur lifað af aldirnar og geymt dramatísk leyndarmál sem finna má á bók nokkurri, en í hana vantar síðustu síðurnar og því er bræðralagið í stöðugri leit. Inn í þessa leit flækist svo fornleifafræðingurinn Evelyn Bishop og dóttir hennar Mia, auk sérsveitarmannsins Corben, en öll eru þau búsett í Beirút. Og svo má ekki gleyma illmenninu, lækninum sem einnig er að leita að leyndardómnum og gerir skelfilegar tilraunir í skjóli einræðisherra, eins og til dæmis hans Saddans, en bókin er að hluta til hástemmd réttlæting á innrásinni í Írak.

Fyrir utan það hvað leyndardómurinn er fyrirsjáanlegur vantaði mikið uppá að mér gæti verið annað en sama um persónurnar, það eina sem ég hafði áhyggjur af var meðferðin á fornminjum, sem blandast inní plottið og má Khoury eiga það að hann gagnrýnir hversu illa Bandaríkjamenn stóðu sig í því dæmi öllu. En til að gæta alls réttlætis þá spurði ég lánþegann sem ekki gat fengið Lífstíð, en fékk Griðastað í staðinn, hvernig honum hefði líkað bókin og hann var vel sáttur.

Ég var líka meira en sátt við Steinsmiðinn (Uppheimar, 2008), nýjustu bók Camillu Läckberg, sem líkt og Liza er sænsk. Hún leitar einnig til fortíðar í sögum sínum, en bara til nærtækrar fortíðar, glæpir þeir sem hún lýsir eiga rætur sínar að rekja til atburða í fortíð glæpamannanna og stundum líka fórnarlambanna. Þetta virkar vel því þar blandast inn tilfinning fyrir lokuðu þorpssamfélagi og leyndardómunum sem það geymir, en allt vinnur þetta saman að því að skapa vel heppnaða tilfinningu innilokunar og nálægðar. Unga parið Erica og Patrik, sem við kynntumst fyrst í Ísprinsessunni árið 2006, er hér enn á ferð, nú er Erica búin að eignast barn en þjáist af fæðingarþunglyndi. Enda fjallar glæpamálið um börn og foreldra svo allt er þetta fimlega fléttað hjá Camillu, sem heldur sig við einföld en sláandi plott og blandar með hæfilega miklu af persónulegum átakamálum. Lítil stúlka finnst drukknuð í sjónum, í fyrstu er dauðinn álitinn slys þar til í ljós kemur að í lungum barnsins er baðvatn. Nágrannaerjur koma við sögu, en nágrannarnir eiga fatlaðan son sem liggur undir grun, sérstaklega frá einum lögreglumannanna, gömlum hundi sem líkar illa hversu Patrik hefur gengið vel að ná starfsframa.

Eins og í Griðastað er sagan stungin köflum sem lýsa atburðum fortíðar og þetta flakk í tíma er áhrifaríkt og sérlega vel heppnað að því leyti að það tók mig mjög langan tíma að fatta hverjum forsagan tilheyrði og klokka þannig morðingjann. Þýðingar Önnu R. Ingólfsdóttur halda áfram að slípast, vissulega eru þó enn nokkrir hnökrar og enn hefði alveg mátt splæsa í enn einn yfirlestur.

Fyrir glæpafíkil er þó fengurinn góður og greinilegt að það ríkir engin kreppa í krimmum.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2008