Beint í efni

Flekklaus

Flekklaus
Höfundur
Sólveig Pálsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt einkenni glæpasagna (og reyndar á þetta við um stóran hluta bókmennta yfirleitt) er að þar er einhver sem segir ekki satt. Eða segir ekki allt, sem heitir hvít lygi, eða hliðrar sannleikanum og færir í stílinn, eða jafnvel bara þegir. Iðulega eru fyrir þessu góðar ástæður, glæpamenn eru til dæmis eðlilega tregir til að játa brot sín og gera allskonar til að koma í veg fyrir að upp um þau komist, og flestir eiga sér einhver leyndarmál sem þeir vilja bara fá að eiga í friði. Aðrir eru svo tregir til að vita allan sannleikann og forðast að spyrja spurninga eða hlusta, þegar til á að taka. Í það heila er auðvelt að líta svo á að glæpasagan flytji þann boðskap að þó sannleikanum verði hver sárreiðastur, þá megi satt ekki kjurt liggja, sannleikurinn sé sagna bestur.

Í skáldsögu Sólveigar Pálsdóttur, Flekklaus, er leyndarmál fortíðar lykillinn að fléttunni, en þar er fjallað um óleyst mál frá níunda áratugnum sem rannsóknarlögreglumaðurinn Guðgeir Fransson flækist í. Kona finnst látin í brunninni vörugeymslu, en málið er hálfpartinn þaggað niður og hálfpartinn klúðrað með því að vettvangi er spillt. Tveir táningar vita að þarna var ekki allt með felldu en þau þegja bæði yfir vitneskju sinni, enda óttast þau bæði að vera gerð sek um brunann. Þrjátíu árum síðar er Guðgeir að jafna sig eftir krabbameinsmeðferð á litlu gistiheimili í Svíþjóð og kemst að því að hin indæla kona, Kirsten, sem leigir honum er ekki sú sem hún sýnist. Eftir að hann hefur átt með henni dálítinn ástarleik notar hún myndefni til að kúga hann til að eyða gögnum um þetta mál. Guðgeir er giftur og getur ekki hugsað sér að segja konu sinni frá framhjáhaldinu og þar með er allt komið í fisk.

Þegar heim er komið blandar Guðgeir sér í gerð sjónvarpsþáttar um óleyst mál, en þar er bruninn í skemmunni efst á dagskrá. Og svo hefst flókin flétta undanskota, leyndarmála, óvæntra heimsókna, uppljóstrana og lyga, að ekki sé talað um ofbeldi og morð.

Eins og títt er með glæpasögur er best að segja sem minnst, en Sólveigu tekst vel upp í því að byggja upp þéttan vef lyga, sorgar og myrkraverka og í bókinni er hvergi dauðan punkt að finna. Sænska blómakjólakonan og náttúrubarnið og heyrnarlausi bróðir hennar virðast eins saklaus og hægt er að hugsa sér og sömuleiðis er erfitt að trúa einhverju vafasömu upp á hinn fullkomna Guðgeir. Undirfólk hans, hin hárnákvæma Særós og Andrés trúfasti gera hvað þau gera í þessum flóknu aðstæðum en þung undiralda gefur til kynna að farsæl lausn muni reynast flókin.

Eitt einkenni norrænu glæpasögunnar er að þar fær líf lögreglufólksins mikið rými, auk umræða um starfið og starfsaðstæður. Þetta hefur það í för með sér að oft er freistandi að flækja fulltrúa lögreglunnar einnig í málin, þeir lenda í ýmsum hremmingum eða tengjast málum á einhvern hátt. Þetta hefur þau áhrif að tengja lesandann enn frekar við rannsóknaraðilann og gefa honum innsýn í ástæðurnar fyrir starfsvalinu og færninni. Þetta gefur sögunum oft meiri slagkraft, en getur líka orðið íþyngjandi og ég var ekki alveg viss um hversu vel mér líkaði hlutverk Guðgeirs í málinu. Staða hans var að mörgu leyti of fyrirsjáanleg og jafnframt skerti það trúverðugleikann að hann skyldi svo fullkomlega sniðganga þá lausn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Á hinn bóginn er sagan, sem áður segir, snörp og vel skrifuð og Sólveig á sérstakt hól skilið fyrir að halda bókum sínum stuttum. Þetta gerir þær öflugari, en óhófleg lengd norrænna glæpasagna dregur á stundum úr gildi þeirra og þó nákvæmar lýsingar á aðstæðum, hughrifum og persónum þjóni vissulega sínum tilgangi, þá er jafnvægið oft viðkvæmt.

Sólveig heldur öllum þráðum verksins vel til haga á þessum rúmlega 200 síðum, og skapar eins og áður segir eftirminnilegt andrúmsloft. Ekki síst eru það kvenpersónurnar sem eru vel gerðar, Særós er sem fyrr uppáhaldspersónan mín og hin undirförla Kirsten er sömuleiðis afar áhugaverð og vel smíðuð, ekki síst þar sem Sólveig forðast of miklar skýringar og lætur persónuleika hennar birtast smátt og smátt.

Flekklaus er þriðja glæpasaga Sólveigar, en sú fyrsta, Leikarinn, kom út árið 2012. Í fyrra sendi hún frá sér Hina réttlátu, allar með sama lögregluteyminu. Það er ljóst að einhverjar breytingar verða í næstu sögu, kannski fær Særós meira pláss?

úlfhildur dagsdóttir, júlí 2015