Beint í efni

Góði elskhuginn

Góði elskhuginn
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Fáir hafa skrifað jafn vel um ástir og Steinunn Sigurðardóttir. Í bókum sínum hefur hún fjallað af sérstakri kostgæfni um hamingju, ástarsorg, missi og leit í margvíslegum ástarsamböndum – eins og í Tímaþjófnum og Ástin fiskanna – og oftar en ekki tengt elsku eða tómlæti í fjölskyldusamböndum, sem stundum hafa verið í forgrunni eins og í Sólskinshesti og Hjartastað. Þótt ástarsambönd af ýmsum toga séu að sjálfsögðu algeng í skáldsögum, stundum sem drifkraftur atburðarásar eða niðurstaða, stundum í aukahlutverki, þá er það sjaldgæfara en maður kynni að halda að þau séu aðalatriðið, þungamiðjan sem allt snýst um. En þannig er það nefnilega í mörgum verkum Steinunnar og hér bætist ein í hópinn sem lætur sig málið varða, Góði elskhuginn.

Góði elskhuginn segir í raun af nokkrum ástarsögum, en ein er í forgrunni, einhvers konar erkiástarsaga, sem hinar snúast um. Karl og Una voru par í æsku í nokkra mánuði, en hann getur ekki gleymt henni og reynir 17 árum síðar að ná í hana aftur. Hér er fengist við mjög svo rómantískar hugmyndir um ástina sem aldrei gleymist, um ástina sem öll önnur sambönd miðast við. Og þá mætti búast við að umfjöllunarefnið yrði árekstur draums og veruleika, ídealsins og hins jarðbundna hversdags, en þótt sá árekstur verði við og við er hann ekki meginefnið.

Hins vegar er eitt af viðfangsefnunum ást og tími – hvernig ástin breytir því hvernig við hugsum um tímann, um framtíð, um fortíð. Hvernig hún teygir hann og sveigir í hugum okkar, svo úr verður tímaskyn sem hefur lítið með klukkuna að gera. Það má segja að Karl sé einmitt á höttunum eftir framtíð, því líf sitt hefur hann miðað við fortíðina í 17 ár. Hann hefur lifað þessi ár af með því að setja sér reglur sem allar eru miðaðar við fortíðina, við ástarsorgina miklu, en nú vill hann horfa fram á veginn með ástina sína einu sér við hlið.  En það sem hér verður ljóst er að ástin er margbrotin og hamingjan verður að einhverju leyti til í skugga sorgar annarra. Því þótt að þetta sé að einhverju leyti hamingjubók er einnig nóg um sorgir og skugga.

Það ríkir draumkennt ástand í verkinu – dularfullar persónur birtast eins og huldufólk í þokunni og aðstoða okkar mann. Oftar en ekki er hann í einhvers konar leiðslu – heltekinn af ást, eða nostalgíu eða löngun í annan veruleika? Þá fara nöfn persónanna á svig við raunsæið og gætu komið úr dæmisögum eða þjóðsögum. Karl er hálf umkomulaus án kvenna, þær eru ýmist upphaf hans (móðirin Ásta, sem hann kennir sig við), eða takmark (Una) og svo eru hjálparhellurnar (t.d. Doreen, en nafnið getur merkt guðsgjöf), sem verða eins konar örlaganornir – og allar virðast þær elska hann. En konurnar skilgreina hann líka, hafa vit fyrir honum, greina. Og hann fær að reyna að verða annarra viðfang þegar skrifuð er um hann bók.

Hér er sem sagt beitt ýmsum brellum skáldskaparins og lesandinn oft í vafa um veruleika orðanna. En þessum tækjum er beitt af svomikilli smekkvísi og kunnáttu að sjálfsvísanirnar og bókmenntalegu brögðin smeygja sér inn í vitund lesandans og hafa áhrif á alla merkingarsköpun í textanum á laun.

Það er makalaust að geta skrifað um ástir án þess að klisjurnar hrannist upp eða tilfinningarnar sem lýst er verði fjarlægar og upphafnar. En í Góða elskhuganum er sýnin alltaf fersk á þetta aldagamla viðfangsefni, og það er ekki síst að þakka sérstakri blöndu höfundarins af hlýju og húmor. Því þótt nóg sé af íróníu verður bókin aldrei kaldhæðin, hlutskipti ástarinnar hvorki léttvægt né væmið, heldur vermir sál á köldum degi.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2009