Beint í efni

Hæðir Machu Picchu

Hæðir Machu Picchu
Höfundur
Pablo Neruda
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðabálkur Pablo Neruda, Hæðir Machu Picchu, birtist fyrst árið 1950 og er löngu orðinn klassískur. Ljóðin hafa verið útgefin á ýmsum málum í fallegum myndskreyttum útgáfum og varla er sú vefsíða um Inka-borgina Machu Picchu sem ekki státar af ljóðlínum Neruda.

Ljóðið er talið með helstu meistaraverkum höfundarins og markar tímabil í lífi hans þarsem hann sneri sér í auknum mæli að eigin álfu og hóf að kanna menningu hennar. Þetta hafði pólitíska merkingu að auki, en Neruda var virkur í þjóðfélagsumræðu og gagnrýni.

Sjálft myndar ljóðið einskonar sögu, í fyrstu köflunum er skáldið í leit, að lífi eða sál, mögulega einskonar merkingu:

og þegar maðurinn smátt og smátt afneitaði mér
og lokaði leiðum mínum og dyrum til þess að
árflaumur handa minna snerti ekki særða ótilveru hans, 
fór ég götu eftir götu og fljót eftir fljót,
í borg eftir borg og í rekkju eftir rekkju,
og saltlegin gríma mín gekk yfir eyðisanda,
og í síðustu niðurníddu húsunum, án ljóss, án elds,
án brauðs, án steins, án þagnar, aleinn
barðist ég um, deyjandi eigin dauða.

Líkt og í frægu ljóði T.S. Eliot er það í nútíma-borgarmenningu sem sálin er glötuð, en ljóði Neruda hefur verið líkt við „Eyðiland“ Eliots. En svo finnur ljóðmælandi Inkaborgina frægu og dularfullu:

Og gekk ég þá upp tröppur jarðar
í gegnum grimman flóka skóganna týndu
til þín, Machu Picchu.

Í hinni yfirgefnu borg finnur hann merkingu á ný:

Í þér, eins og tvær samsíða línur,
bærðust í þyrnivindi,
vagga eldingarinnar og mannsins.

Síðan fylgja lýsingar á borginni með vangaveltum um fortíð og menningu álfunnar, fortíð sem þó er blóði lituð því Neruda skirrist ekki við að gagnrýna ofríki Inka-konunganna og ávarpar þræla þá sem létu líf sitt fyrir borgina. Í kyrrari köflum inni á milli þylur skáldið upp þær myndir sem koma í huga hans á göngu á borginni og að mínu mati nær ljóðið þar hæstu hæðum í þéttri hrynjandi einskonar þulu:

Fangaður stormur utan seilingar.
Loppur púmatígurs, blóðidrifinn steinn.
Myrkur turn, fannkaldar deilur.
Nótt lyft af fingrum og rótum.
Gluggi í þoku, stirnuð dúfa.
Næturjurt, stytta úr þrumum.
Ómissandi fjallgarður, þak sjávar.
Byggingarlist horfinna arna.
...
Kóngulóartungl, ógnandi steinn.
Hár kuldans, hreyfingar loftsins.
Eldfjall handa, myrkt vatnsfall.
Silfurbylgja, straumur tímans.

Hér fær lesandi þá tilfinningu að ljóðmælandi standi í auðri borginni og láti augu og huga reika um hana og umhverfi hennar, og allsstaðar verður eitthvað fyrir, eitthvað að sjá, eitthvað sem tekur á sig form, hugsun eða hverfist í mynd.

Hin yfirgefna borg Inkanna, Machu Picchu, hefur löngum verið uppspretta mikilla vangaveltna og goðsagna. Yfir sögu borgarinnar hvílir dulúð, þó menningarsamfélög mið- og suður-ameríku séu í auknum mæli að ljúkast upp. Neruda reynir að fanga þessa dulúð í ljóðabálki sínum en á köflum finnst mér hann tapa sér um of í torræðri þoku heimspekilegra vangaveltna. Tærustu hlutar ljóðsins eru þeir sem lýsa sjálfri borginni, og þá sérstaklega í fyrrnefndum þulu-köflum, þar náði ljóðið að hreyfa við mér og gefa mér einhverja innsýn í þann hrifheim sem skáldið reynir að skapa. Þar sem ég er ekki læs á spænsku get ég ekki sagt til um hvort þetta sé spurning um ljóðmál Nerudas eða þýðingu Guðrúnar Tulinius, sem virðist áferðarfalleg, en kannsk dálítið dauf.

Bókinni fylgir mynddiskur sem sýnir stutta heimildamynd um ferð þýðandans til Machu Picchu og skapar sterka tilfinningu fyrir þessum goðsagnakennda stað. Í heildina er því hér á ferðinni vönduð og sérlega falleg útgáfa, tvítyngd (og það var gaman að gramsa í spænskunni), uppsetning og hönnun er fínleg og falleg og teikningarnar eiga vel við, sérstaklega var ég þó hrifin af stemningunni í myndum Antonio Hervás Amezcua.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2006