Beint í efni

Hálfbróðirinn

Hálfbróðirinn
Höfundur
Lars Saabye Christensen
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Það er einkennilegt ástand í norrænum bókmenntum þessi árin. Á meðan Danir eiga í stöðugum hjaðningavígum um hvort sé dauðara, mínímalískur naflaskoðunarskáldskapur þar sem skáldsögurnar fara allt niður í 48 síður eða hinar stóru frásagnir raunsæisins, streyma stórar epískar skáldsögur frá Noregi eins og ekkert hafi í skorist norrænum lesendum til ómældrar ánægju. Afleiðingin er svo sú að lestur á fagurbókmenntum er í frjálsu falli í Danmörku og þeir sem á annað borð lesa kasta sér yfir Norðmennina. Þetta endurspeglast í Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs; fyrir þremur árum fékk Jan Kjærstad verðlaunin fyrir skáldsögu sína Erobreren sem var þriðja bindi í miklum sagnabálki, ári seinna var svo komið að Lars Saabye Christensen sem fékk verðlaunin fyrir Hálfbróðurinn. Kjærstad er því miður ekki enn kominn út á íslensku, en nú er komin út íslensk þýðing Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur á Hálfbróðurnum.

Hálfbróðirinn er stór og mikil fjölskyldusaga um vægast sagt óvenjulega fjölskyldu. Í fjölbýlishúsi í Osló býr hin unga Vera í upphafi sögunnar ásamt móður sinni og ömmu. Amman eignaðist móðurina með unnusta sínum, ungum dönskum sjómanni sem fórst í heimskautaleiðangri áður en barnið fæddist, enginn veit hver faðir Veru er nema móðir hennar. Þegar Veru er nauðgað þann 8. maí 1945, daginn sem Norðmenn losna undan hernámi Þjóðverja, verður til þriðja kynslóð föðurlausra barna í fjölskyldunni - níu mánuðum síðar fæðist Fred. Nokkrum, árum seinna kynnist Vera ævintýramanninum smávaxna Arnold Nielsen og eftir að þau giftast og eignast soninn Barnum er þessi einkennilega fjölskylda fullsköpuð. Barnum er sögumaður Hálfbróðurins. Ásamt fjölskyldunni eru aðalpersónur sögunnar vinir hans frá æsku, Peder og Vivian sem verður seinna eiginkona hans.

Einn þráður sögunnar rekur æsku og uppvöxt Arnolds Nielsens, föður Barnums. Barn að aldri strýkur hann að heiman og slæst í för með sirkus þar sem meðal sýningaratriða er Íslendingurinn Jóhann Pétursson, stærsti maður í heimi og önnur mennsk furðuverk. Persónugallerí Hálfbróðurins er svo eins og endurspeglun þess hóps af furðufólki sem tilheyrir sirkusnum. Barnum sjálfur nálgast að vera dvergur, Peder vinur hans er á hinn bóginn akfeitur og móðir Vivian er afmynduð eftir slys sem fór saman við fæðingu dótturinnar. Hún minnir sterklega á ljótustu konu í heimi sem var meðal sýningaratriða sirkusins. Allar persónur sögunnar eru á einhvern hátt skertar eða hálfar, engin þeirra fellur að normum hins venjulega. Mitt í þessum fjölskyldusirkus stendur svo Barnum sjálfur. Hann er hálfbróðirinn, lítill og óframfærinn og stendur ávallt í skugga eldri bróður síns, hins óútreiknanlega Freds - saman eru þeir einn og hálfur eins og segir í sögunni. Barnum vex aldrei upp úr hlutverki litla bróður og með ævintýramennsku í föðurarf og alkóhólisma sem hann þiggur beint frá ömmu sinni verður ævi hans samfelld þrautaganga.

Sameiginlegt Barnum og öllum öðrum persónum bókarinnar er leitin að því sem gæti gert þær heilar á einhvern hátt, bætt upp vankanta þeirra og opnað þeim leið út úr þeirri blindgötu sem líf þeirra hefur ratað í. Svaranna er leitað í fortíðinni, í leyndarmálum og eyðum sem leynast í sögu fjölskyldunnar. Við kynnumst þessari sögu í frásögn Barnums, en frásagnirnar skapa fleiri eyður en þær fylla upp í og það er tvísýnt hvort Barnum verður nokkurn tíma meira en hálfur maður. Það er engin leið að rekja frekar atburði þessarar miklu sögu, þeir spanna allt frá hinu hryllilega til hins væmna, allt frá fíngerðum og ljóðrænum bernskuminningum til melódramatískra tilþrifa. Hálfbróðirinn er breið og epísk saga og opin í alla enda. Þetta er skáldsaga sem er auðvelt að týna sér gersamlega í og að loknum lestri eru ótal spurningar sem sitja eftir um örlög fólksins sem lifnar á síðum hennar. Það er engin hætta á öðru en að það fylgi manni lengi eftir lesturinn.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003