Beint í efni

Heim til míns hjarta: Ilmskýrsla um árstíð á hæli

Heim til míns hjarta: Ilmskýrsla um árstíð á hæli
Höfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Heim til míns hjarta eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur er fallegur gripur. Frágangur er allur til prýði, letrið er smekklegt, pappírinn sömuleiðis og kápa Ragnars Helga Ólafssonar er snjall uppásnúningur á hefð, auk þess að hæfa ritinu vel. Það skyldi ekki vanmetið mikilvægi útlits og gerðar bóka. Lesandinn brosir, honum hlýnar um hjartarætur við að halda á gripnum og er því verkinu velviljaður frá fyrstu sýn. Það er svo auðvitað undir innihaldinu komið hvort velvildin haldist.

Verkið segir frá konu sem fer á heilsuhæli með einhvers konar hjartasár og leggur í mikla (að mestu innri) ferð sem liggur heim til hennar hjarta. Í viðtali í Víðsjá á dögunum sagðist höfundur vera undir miklum áhrifum frá Þórbergi Þórðarsyni og sjálfsævisögulegar vísanir má finna víða, rétt eins og í fyrra verki Oddnýjar, Opnun kryppunnar frá 2004. Annað mottóa bókarinnar er líka þessi tilvitnun í Theresu frá Avila: „Ég segi ekki frá neinu nema ég hafi áreiðanlega reynslu af því sjálf“. Þórbergur, eins og kunnugt er, skrifaði gjarnan sögur um sjálfan sig, svo úr því varð skáldskapur, en þrátt fyrir yfirlýstan áhuga á spíritisma, hélt hann sig yfirleitt við jarðneskan veruleika. Í verkum Oddnýjar er þó mun meira samspil ýmissa heima; einhvers konar veruleika, drauma, fortíðar, vísana í bókmenntir og heimspeki og fleira og fleira.

Í þessu verki er leiðarhnoðan lykt, ilmur og angan af öllum sortum. Eins og vel er þekkt er fátt sem vekur minni okkar jafn rækilega og lykt, nema ef vera skyldi bragð (sbr. magðalenuna hans Prousts). Lykt vekur ósjálfráða minnið, við hreyfumst til í stað og stund og bjástrum svo við að rifja upp hvert þessi lykt hefur nákvæmlega sent okkur. Ilmur hefur líka fjölmargar aðrar víddir, sögulegar, kynferðislegar, líkamlegar og fleiri og fleiri sem fjölmargar eru kannaðar hér. Lykt er sérlega frumstætt fyrirbæri; líkamlegt og gróft, en einnig sérlega háþróað fyribæri; siðmenntað og upphafið. Í einni af metsölubókum níunda áratugarins, Ilminum eftir Patrik Süskind, er einmitt unnið með þessar frumstæðu víddir í lyktarlausri aðalpersónunni með ofurnæmt lyktarskyn.

Á heilsuhælinu laðast konan að ilmlækningum og með lykt eltir hún uppi fortíð sína, hjartasár, fyrri reynslu af ýmsum toga, nákomna, menntun, skrif og margt fleira. Hún fer því í sína innri ferð með lyktina að leiðarljósi – er send á suðrænar slóðir til frekari meðferða og er svo í lokin eimuð. Heilsuhælið er fyrirtaks bókmenntatæki. Fyrir utan að bera með sér keim eldri bóka, svo maður sér fyrir sér miðevrópskt  slot á fyrri hluta aldar, fullt af viðkvæmum taugasjúklingum og hóstandi berklasjúklingum, er það upplagt til könnunar á innra lífi og hér er þetta tvennt ágætlega spunnið saman. Það er sterk meðvitund fyrir hefðinni í þessum skrifum, en alls engin tilraun til að elta þá hefð heldur einmitt að búa til nýja – að skapa nýja heima innan í og samanvið vísanir og endurlit.

Eins og fyrr segir er aðalpersónan og sögumaður okkar að reyna að græða óljós hjartamein. Til þess dregur hún lesandann með sér í ferð um eigin fortíð, æsku og ungdóm, ýmist í skýrum beinum frásögnum af liðnum atburðum, eða í öllu draumkenndari senum. Hún leiðir lesandann grunlausan á milli heima, þess jarðbundna og konkret, eða draumkennda og bókmenntalega, eins og þegar særður hermaður mætir á heilsuhælið og opnar þar sýn inn í skylda bókmenntahefð.

Opnun kryppunnar beindist einkum og sérílagi að átökum við fræðin og akademíu, sem hér fær einnig sinn skerf, en þær víddir eru opnaðar upp á gátt ef svo má segja. Það hefur augljóslega átt sér stað þróun í höfundarverkinu sem beinist innávið að hjartanu og sálinni, en ekki síður útávið í leikglaðri skoðun á bókmennta- og heimspekilegum víddum hjartans. Svo er spurning hvort hefðu mátt fylgja ilmprufur með, þótt lyktin af nýrri bók nægi svo sem alveg til að hleypa ímyndunaraflinu af stað...

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2009.