Beint í efni

Hermann

Hermann
Höfundur
Lars Saabye Christensen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nú verð ég að byrja á því að játa að ég hef ekki lesið Hálfbróðurinn, hina þýddu bókina eftir Lars Saabye Christensen, þó ég hafi heyrt um hana mikið lof. Mér hefur bara alltaf fundist hún eitthvað svo ógurlega stór, svona í samanburði við sjálfa mig. En nú sé ég að mér er ekki lengur undankomu auðið, ef þessi litla saga af Hermanni og hárlosi hans er einhver mælikvarði á gæði höfundarins, þá verð ég að drösla Hálfbróðurnum uppað náttborðinu hjá mér.

Án þess að vilja á nokkurn hátt gera lítið úr stórum bókum þá verð ég (aftur) að játa að það er eitthvað sérlega heillandi við svona litlar sögur, það er einhver mikil kúnst í því að búa til sögur sem eru litlar um sig og einfaldar, en samt einhvern veginn ótrúlega umfangsmiklar. Ég gat ekki annað en hugsað til tveggja annarra slíkra, Sögunnar af Pí og Furðulegs háttalags hunds um nótt. Reyndar minnti Hermann mig heilmikið á þá síðarnefndu, sérstaklega að því leyti að ég lifði mig svo inní bókina þar sem ég sat og las hana á sushi stað við Istugötu að eftir dálítinn tíma var ég næstum farin að þreifa eftir húfunni minni.

Húfan er helsta haldreipi Hermanns þegar hann uppgötvar að hann er að missa hárið, langt um aldur fram. Hann er jú bara lítill drengur og honum er strítt alveg nóg í skólanum fyrir. Sagan gerist einhvern tíma um rúmlega miðja tuttugustu öld og er svona krúsalega gamaldags, foreldrar Hermanns eru óskup venjulegt verkafólk, faðirinn kranastjóri og móðirin afgreiðir í matvörubúð. Fyrir utan þau kynnumst við fólkinu í kring, bekkjarsystkinum Hermanns, Rúbý með rauða hárið og hrekkjalómunum þremur (af hverju eru svona hrekkjusvín alltaf í þrennum í skáldskap?), fyllibyttunni, fötluðu konunni sem Hermann er hræddur við, kennurunum og síðast en ekki síst, afanum, sem er frískur eins fiskur þó hann hafi ekki farið framúr rúminu í mörg ár. Allt þetta teiknar höfundur upp skýrum og hreinum dráttum, sjónarhornið er Hermanns, en samt dálítið meira, eða kannski er það bara Hermann sem er einhvern veginn dálítið meira. Við hittum hann fyrst fyrir þar sem hann er að skoða haustlaufin falla og borðar eitt þeirra. Honum tekst alltaf að mæta of seint í skólann, það er jú svo mikið að gera við að uppgötva heiminn og leika sérviskulega barnaleiki með blindandi skref. Honum þykir vænt um foreldra sína - þetta er ekki svona þunglamaleg bók um félagsleg vandræði fjölskyldunnar - og almennt virðist hann eiga sér hið ágætasta líf. Nema svo fer hann að missa hárið og allt fer á verri veg. Fyrst er honum strítt, en svo hættir það og í staðinn fara allir að vorkenna honum, og það finnst honum enn verra.

Það er einhver elegans við byggingu sögunnar og það hvernig brugðið er á leik með tákn og teikn. Hermann elskar það allra mest þegar mamma hans strýkur honum um hárið og togar í það, eitthvað sem síðan verður útilokað. Hann á lýsandi hnött sem skiptir hann miklu og er heillaður af skalla afa síns, auk þess sem egg af ýmsu tagi koma reglulega við sögu (einn kennarinn er kallaður eggið). Og svo eru það húfurnar, sjóhatturinn, prjónahúfan með stóra dúskinum og að lokum skautahúfan fríða. Allt er þetta jú óskup hversdagslegt, lítil saga af lítilli fjölskyldu og vandamáli sem í raun er kannski ekki stórt, þó það reynist Hermanni erfitt þann vetur sem sagan tekur til. En það er einmitt þessi hversdagsleiki sem Lars Saabye Christensen gerir á einhvernhátt magískan (ekki þó rugla saman við hið suðræna magíska raunsæi); magíkin felst í einhverjum dásamlegum húmor, sem er ekki þannig að kona taki bakföll og skelli sér á lær heldur einhvernveginn glaður og klingjandi. Því það er einhver dásamlegur hlátur í þessari sögu, eins og hlátur mömmunnar sem er lýst svo:

Og þegar mamma hans hlær, þá fara lestirnar á Vesturleiðinni út af sporinu, Nesodden-báturinn strandar og klukkan í turninum á Ráðhúsinu stoppar. (11)

Þessi klingjandi hlátur er mjög bundinn í texta og tungumál sögunnar, þarsem orðalagið skiptir miklu og þar skiptir hlutur þýðandans, Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur, sköpum. Án þess að hafa samanburð við frumtextann þá er óhætt að segja að hér hafi tekist sérlega vel til, bæði hvað varðar tungutak þess tímabils sem sagan gerist á og svo í því að kalla fram þennan kitlandi hlátur sem gegnsýrir allann textann og getur ekki annað en glatt lesandann ógurlega.

Úlfhildur Dagsdóttir, sept. 2005