Beint í efni

Hlustað

Hlustað
Höfundur
Jón Óttar Ólafsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Nýr höfundur hefur stigið fram í sviðsljósið með sérlega raunsæja og kraftmikla glæpasögu. Því ber að fagna. Jón Óttar Ólafsson er doktor í afbrotafræðum og hefur starfað innan lögreglunnar líkt og söguhetja þessarar fyrstu bókar hans, Hlustað. Báðir hafa einnig starfað í fjárfestingabanka og Jón Óttar hefur starfað hjá Sérstökum saksóknara, en þar hefur söguhetjan, Davíð, hins vegar ekki starfað. Sérstakur og starfsmenn hans koma þó dálítið við sögu í bókinni, en aðallega er greint frá störfum lögreglumanna sem rannsaka morðmál.

Ung kona, Sóley að nafni, finnst látin í grásleppuskúr við Ægisíðu. Hugsanlega getur lát hennar stafað af of stórum skammti af amfetamíni en Davíð grunar sterklega að um morð geti verið að ræða. Rannsóknin á láti Sóleyjar er viðfangsefni bókarinnar og koma margir við sögu, bæði löggur og glæpónar. Sumar löggurnar vinna við rannsókn dauðsfallsins, aðrir við fíkniefnamál sem tengist persónum sem liggja undir grun í morðmálinu. Að auki er Sérstakur líka með rannsókn í gangi og tvo kvenkyns spæjara frá Bretlandi að láni til að fylgja mönnum eftir, eða skyggja þá eins og það kallast hér, og er það vel til fundið orð. Það er sem sagt mikið gert af því að skyggja menn og hlusta eða hlera. Í ljós kemur að hlerunum hafi verið markvisst beitt áratugum saman og er til sögunnar nefndur Sigurjón, fyrrverandi lögreglustjóri sem ætlað er að hafi á sinni tíð hlustað við mann og annan á ógrynni símtala og hafi því verið fram haldið allt til þessa dags. Eitthvað slíkt var nú í fréttum ekki alls fyrir löngu og er leitt að því líkum að þar sé ekki um skáldskap að ræða. Þessar gömlu hleranir tengjast nýjum hlerunum sem Fíknó stundar og ganga menn þar á bæ ansi langt í því að koma í veg fyrir að upp komist, og að þeir fái enn að hlusta óáreittir að mestu. Reyna þeir því að spilla rannsókn Davíðs sem í restina er orðinn nokkuð einangraður í því verkefni að ljúka morðmálinu.

Lýsingin á Davíð er nokkuð góð og hversu upptekinn hann verður af rannsókn málsins þannig að einkalífið situr á hakanum og óleyst mál heima fyrir spilla sambandi hans við konu sína. Það er víða komið við í sögunni en fyrst og fremst er hún sannferðug lýsing á vinnubrögðum innan lögreglunnar, eða svo skyldi maður ætla. Við skulum þó vona að ekki þrífist þar innan veggja sú spilling sem fram kemur í sögunni.

Þetta er þokkalega vel skrifuð bók, en ekki með miklum tilþrifum í stíl sem er eilítið stirðbusalegur á stundum. Fléttan gengur þó alveg upp með ýmsum snúningum og kapphlaupi við tímann. Þessi lesandi hnaut reyndar um það að móðir Sóleyjar, sem heitir Drífa, er á tveimur stöðum nefnd Anna sem kann að vera eldra nafn á konunni en gleymst hefur að breyta í yfirlestri.

Að lesa um hleranir og skyggingar og endalaust hangs og vesen sýnir vissulega fram á að líf lögreglumanna er ekki alltaf skemmtilegt. Verst ef lesendur finna of mikið fyrir leiðindunum og vonbrigðunum sem þessu öllu fylgir. Er þá raunsæið kannski orðið heldur mikið? Það örlaði fyrir því í fyrri helmingi bókarinnar og varla að maður færi að tengja verulega við söguþráðinn fyrr en eftir blaðsíðu 200, en þá hrekkur sagan almennilega í gang og grípur athyglina. Mátti ekki seinna vera.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2013