Beint í efni

Höfðaborg

Höfðaborg
Höfundur
Garðar Baldvinsson
Útgefandi
GB útgáfa
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í júnímánuði kom út á ensku ljóðasafnritið The Other Side of Landscape: An Anthology of Contemporary Nordic Poetry, en þar er að finna ljóð eftir norræn samtímaljóðskáld, fædd eftir 1960. Fulltrúar Íslands í bókinni eru þær Didda og Sigurbjörg Þrastardóttir. Í grein sem Þröstur Helgason skrifar í Lesbók Morgunblaðsins 1. júlí veltir hann vöngum yfir valinu og segir að þær geti ekki talist “þverskurðurinn af íslenskri ljóðlist um þessar mundir.” Þessi orð vöktu mig til umhugsunar um íslenskar ljóð-línur og hvað gæti eiginlega talist þverskurður af íslenskri ljóðlist um þessar mundir? Þrátt fyrir linnulaust tal um veika stöðu ljóðsins, lélega sölu á ljóðabókum og allt það, þá er alltaf heilmikill kraftur í íslenskri ljóðagerð. Bæði eigum við flokk skálda af eldri kynslóð sem starfa af krafti, eins og til dæmis Baldur Óskarsson, fyndna kynslóðin er sömuleiðis enn að, en nú síðast sendi Steinunn Sigurðardóttir frá sér þjóðhátíðarljóð, unga fólkið er í uppsveiflu, en þar hefur Nýhil hópurinn verið hvað fyrirferðamestur. Augljóslega eru áherslurnar ólíkar hjá ólíkum kynslóðum, en málið einfaldast ekkert þó miðað sé við 1960. Í þann hóp falla t.d. ólík skáld eins og Sjón, Kristín Ómarsdóttir, Bragi Ólafsson og Gyrðir Elíasson, auk allra Nýhilanna, sem þrátt fyrir að teljast hópur eru langt því frá að vera samtaka í sínum skrifum. Vissulega er alltaf hægt að finna einhverjar línur og hitt og annað sem minnir á hitt og þetta, en það sem blasir við í íslensku ljóðalandslagi í dag þó mun frekar fjölbreytnin og skortur á einhverjum þverskurðarlínum. Þetta er náttúrulega afar óþægilegt fyrir okkur bókmenntafræðinga, sem finnst miklu auðveldara að geta búið til skáldskaparkort með leiðarvísi: þú ert hér.

Dæmi um ljóðabók sem ekki er þverskurður er Höfðaborg Garðars Baldvinssonar. Vissulega má sjá í ljóðmáli Garðars tungutak sem minnir á verk Sigfúsar Bjartmarssonar, Geirlaugs Magnússonar og jafnvel Baldurs Óskarssonar, en þó væri ekki endilega hægt að staðsetja hann þar á skáldskaparkortinu - enda þá þrjá ekki að finna á sama rauða punktinum þar. Það er tvennt í ljóðum Garðars sem minnir mig á þessi ágætu skáld, annarsvegar er það tungutakið sem einkennist af orðgnótt og mjög hlöðnum myndum, og hinsvegar er það karlmennskustefið sem er sterkur þráður í bókinni. Helsta vandamálið er hinsvegar þetta sama tungutak, en það hverfist of oft yfir í hreina skrúðmælgi og kaffærir textana. Á stundum fannst mér eins og falin inni í bók Garðars væri önnur, mun einfaldari og tálgaðri ljóðabók, sem berðist við að komast út.

Höfðaborg skiptist í sex kafla, og er sjötti kaflinn þýðing Garðars á ljóði bandaríska skáldsins Luis Alberto Urrea. Eins og algengt er í ljóðabókum sem innihalda þýðingar er auðvelt að sjá sitthvað líkt með þýðanda og höfundi og alltaf áhugavert að sjá hvaðan skáld sækja sinn innblástur. Stór hluti ljóðanna eru prósaljóð og eru þau í heildina sterkari en hin ljóðin, en ljóðmál höfundar nýtur sín best í prósanum. Dæmi um þetta eru ljóðin í öðrum kafla, “skáldsögusvanur sem faðirinn sigldi á”, en þar birtast minningarljóð um föður og afa. Afinn kemur fyrir í ljóðinu “lýsiglóð”:

með hattinn barðastóra og næstum fornaldarlegt slifsið
svarta horfir afi á mig úr ramma á vegg eins og úr fjarska
verkamannaskýlis og ég man í höfðaborginni þar sem
sparisjóðurinn er nú hvernig hann stóð í dyrunum er
dró að lokum studdist við staf í ljósum dyrum sem
draumveran drap á síðar svo ömmu krossbrá og hann
sveiflar hinni með kveðju til bróður míns og líður inn í
rúm í hvítum spítalajakka að kenna mér bænir með
malt og sögur á vörum um ömmu kjarnakonu

Hér er dæmi um það besta í bók Garðars, áhrifamikil og sterk lýsing sem ferðast með lesandann frá ljósmynd yfir í minningar og endar í sögum. Á sama hátt er ljóðið um föðurinn sérlega fallegt, en það heitir “að horfa á pabba”. Hér birtist sjómennskustefið sem víða bregður fyrir og Garðar gæðir fersku lífi:

á myndinni hvorki teboð né fjall kannske í höfninni í
hirtshals. vitund þakin tugum ára. grómtekin ævimynd
hér á bryggju. ég líka lítill strákur að horfa á pabba gera
að fiski fyrir löngu. fannst ég fullorðinn þá í
skilningsvana augsýn á þessa vinnuvél sem handlék
hvern fisk líkast listviðburði. án slow-motion sem var
óþekkt nema draumfar og hugar er beiskar myndir liðu
fyrir hæggeng jarðop langa daga og dimmar nætur
í einsemd hlýrra nálægða. sem löngu síðar afhjúpuðu
svefnleysi. ótal sljó andartök svo hæg einsog fest á
tjaldið einsog fjöllin helgan uppstigningardaginn er ég
sýni börnunum þessa einu mynd af afa.

Aftur eru minningar og myndir felldar saman í lýsandi heild sem kallar fram ótal hugrenningatengsl og jafnvel líkamlega nánd, eins og í línunni “einsemd hlýrra nálægða.” Sjómannastefið á sér líka afar skemmtilega birtingarmynd í “gráfúnum smellum” í þriðja hluta bókarinnar, en þar er aftur lýst öruggum tökum á fiski: “hrynjandi í höndum rennir sjö kutum blítt um háls og ákveðið niður kviðinn svo hann opnast í miðju og rosinn blasir við í sindurhvítu sólarkverinu.” Kannski þverskurðurinn sé fundinn? Hér birtist líka ofgnóttin, en lína eins og “sindurhvítu sólarkverinu” dregur úr áhrifamætti myndarinnar, lesandi staldrar við og hálfpartinn drukknar í of miklu myndmáli. Næstu tveir hlutar, “kófsandajass” og “góðvild annarra” halda áfram með þessi stef sjómennsku og karlmennsku, en karlmennskustefið er sterkast í “góðvild annarra”, löngu prósaljóði um vináttu karla. Bæði þessi ljóð búa yfir fallegum og eftirminnilegum myndum, en bæði líða fyrir áðurnefnda skrúðmælgi sem hvað eftir annað slítur sambandið. Vissulega má segja að þetta drungalega og þykka myndmál hæfi nokkuð vel þeim harðneskjulegu karlmennskumyndum sem Garðar fjallar um í ljóðum sínum, og á köflum smellur þetta saman svo úr verða ljóð sem bæði lyfta andanum og gleðja.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2006