Beint í efni

Hreinsun

Hreinsun
Höfundur
Sofi Oksanen
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það hefur mikið verið rætt um skapvonsku og dónaskap finnsku skáldkonunnar Sofi Oksanen, en í viðtölum hérlendis við kunnar útvarpskonur mun hún hafa verið ansi viðskotaill. Mér leið svo illa eftir að hafa lesið Hreinsun, að ég komst í bráðvont skap, og skil því vel að skáldkonan geti verið hvefsin. Það var jú hún sem skrifaði þessi óskup.

Skapvonskan kemur þó ekki til af skorti á gæðum. Sagan hefur aflað höfundi sínum mikillar frægðar og það ekki að ástæðulausu, því Hreinsun er sérlega öflugt verk, vel smíðaður gripur á alla kanta, hvort sem litið er til efnismeðferðar, byggingar eða beitingar tungumáls og notkun myndmáls, sem mitt í öllum myrkviðunum býr oft yfir lúmskum húmor. Sögusviðið er að mestu leyti lítið þorp í Eistlandi. Hér er fjallað um stríð og afleiðingar þess, um þjóð sem er innlimuð inn í aðra, kúguð og misnotuð, og svo er fjallað um afleiðingar þessa, eftir að þjóðin hefur öðlast sjálfstæði. Atburðarásin sem síðari heimsstyrjöld setti af stað er persónugerð í tveimur ólíkum kynslóðum, konu sem var ung stúlka þegar stríðið hófst og stúlku sem er enn ung þegar því ‘lýkur’, með falli Sovétríkjanna og endurreistu sjálfstæði Eistlands.

Skoðum aðeins bakgrunninn áður en lengra er haldið. Eistland er lítið land nærri Finnlandi, hinumegin við Kirjálabotninn, og saga þess tengist nokkuð sögu Norðurlandanna en Svíar ríktu þar um tíma. Í gegnum söguna hafa Eistlendingar ekki notið mikils sjálfstæðis, en allt frá þrettándu öld hafa þeir verið undir handjaðri Þjóðverja, Svía og Rússa, og það var ekki fyrr en eftir fyrstu heimsstyrjöld sem þjóðin verður sjálfstæð. Það sjálfstæði entist svo ekki lengi, en Rússar hernema landið í kjölfar innrása Hitlers og Stalíns í Pólland í september 1939. Þegar Hitler leggur til atlögu við Sovétríkin, vorið 1941, taka Þjóðverjar landið yfir. En þegar Þjóðverjar eru við það að tapa heimsstyrjöldinni og hörfa, hertaka Rússarnir Eistland enn á ný og innlima það í Sovétríkin. Skæruliðar sem nefndu sig skógarbræður börðust þó lengi vel gegn Rússum, en án mikils árangurs. Það var því ekki fyrr en með falli Sovétríkjanna sem Eistlendingar endurheimta sjálfstæði sitt, árið 1991.

Oksanen dregur upp dökka mynd af örlögum Eistlendinga á þessu tímabili, en það er ekki aðeins hernámið og innlimunin sem fer illa með þjóðina heldur skapar frelsið nýjar hættur. Og það er á þessum hættum sem bókin hefst. Öldruð kona, Aliide Truu, er vör um sig af góðri ástæðu, en auk þess sem bæjarbúar virðast leggja hana í einelti þá flakka þjófagengi um landið og stela öllu steini léttara, þar á meðal heilu skógunum, ef svo ber undir. Hún er því ákaflega tortryggin þegar hún finnur unglingsstúlkuna Zöru liggja úti í garðinum sínum, en mildast er hún sér örvæntingu hennar og illt ástand yfirleitt, og bíður henni inn og veitir skjól.

Síðan hefst saga þessara tveggja kvenna sem reynast skyldar, en amma Zöru er systir Aliide. Við ferðumst aftur til baka til tímans fyrir stríð þegar tvær ungar og fallegar systur njóta þess að sitja á kaffihúsi bæjarins og borða sætindi, pabbi þeirra er vel stæður bóndi og þorpið virðist blómlegt. En ógæfan hefst á því að þær hitta ungan mann, Hans, sem þær hrífast báðar af, en hann aðeins af þeirri eldri, Ingel. Þau giftast og eru ákaflega hamingjusöm meðan Aliide logar af afbrýðissemi. Stríðið skellur á, Rússarnir koma, þjóðernissinninn Hans fer í felur og foreldrar systranna hverfa. En svo koma Þjóðverjarnir og þá fellur allt í ljúfa löð, allavega samkvæmt Hans, sem segir að bráðlega komi allir þeir heim sem hurfu. Ekki bólar þó á því, fleiri hverfa, sumir sjálfviljugir, eins og gyðingafjölskylda sem flýr. Rússarnir snúa svo til baka og systurnar sammælast um að fela Hans enn betur, og útbúa leyniherbergi inni í bænum, þó hann segist vilja fara út í skóg og berjast. En systurnar liggja undir grun og Aliide er handtekin og ‘yfirheyrð’. Eftir það gengur hún alltaf í tvennum nærbuxum og verður ákaflega taugaveikluð. Í annað skipti eru systurnar báðar færðar til yfirheyrslu, ásamt barnungri dóttur þeirrar eldri, og nú er það dóttirin sem þarf að líða fyrir föðurinn.

Í nútíma sögunnar, 1992, rifjar Zara upp sína sögu, en hún elst upp í Sovétríkjunum hjá ömmu sinni og mömmu sem báðar eru frekar þöglar konur. Amman kennir henni þó nýtt tungumál, og segir henni sögur frá öðrum og eldri heimi. En það er nýji heimurinn sem kallar, landamærin hafa opnast og frelsið freistar, sérstaklega þegar það birtist í líki gamallar vinkonu sem kemur íklædd glansandi sokkum og refaskinni og lofar öllu fögru um góða vinnu í Þýskalandi. Zara slær til og örlög hennar verða þau sömu og fjölmargra kvenna frá þessum heimshluta. Hún er hneppt í kynlífsþrælkun, linnulaust misnotuð af sigurgleði vesturveldanna sem álitu austurblokkina ferskar veiðilendur markaðshyggjunnar, hvort sem veiðarnar fólust í rekstri vafasamra fyrirtækja eða raðnauðgunum.

Saga Aliide leiðir svo ýmislegt óskemmtilegt í ljós, en til að vernda sig gegn frekari nauðgunum hervaldsins giftist hún manni sem er atbendi þess, sérlegur kommúnískur erindreki. Í skjóli hans er hún frjáls undan frekari ‘yfirheyrslum’, en ekki undan fyrirlitningu þorpsbúa. En hún heldur áfram að elska Hans í laumi og lætur sig dreyma um að þau geti einhverntíma verið saman.

Hreinsun er óvenjuleg stríðssaga að því leyti að hér eru engar hetjur og heldur engin illmenni (nema kannski helst mennirnir tveir sem ‘eiga’ Zöru). Það er enginn sérstakur fulltrúi kúgunar herveldisins sem verður íkon illskunnar, né er lesanda boðið uppá sterka hetju. Að þessu leyti minnir sagan mig nokkuð á stríðssögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Yfir Ebrofljótið (2001), en þar er fjallað um spænsku borgarastyrjöldina á sama kaldranalega háttinn: stríð sem gengur út á kulda og tilgangsleysi, frekar en hetjudáðir og hugsjónir.

Andspyrnumaðurinn Hans lætur konurnar þjást fyrir sig og virðist sætta sig ótrúlega vel við innilokunina, allavega miðað við hvað hann gefur sig út fyrir að þrá að berjast með skógarbræðrunum. Ákvarðanir Aliide eru settar bæði í persónulegt samhengi (nauðgunin og ástin á Hans) og samfélagslegt, en saga hennar dregur sérlega vel fram hversu takmarkaða valkosti fólk hafði undir þessum kringumstæðum. Það sama á við um Zöru sem elst upp á tímum upplausnar án vonar um betra líf og grípur því fyrstu falsvonina fegins hendi: hvorug þessa kvenna á raunverulega um eitthvað að velja, allir valkostir eru slæmir, í mesta lagi mishörmulegir.

Þannig er teiknuð upp ákaflega klaustrófóbísk mynd af óþolandi ástandi, sem bæði er uppspretta valdníðslu og misnotkunar og viðheldur slíku. Það eru aðstæðurnar sem skapa fólki mannskemmandi umhverfi. Vissulega eru þessar aðstæður tilkomnar af tilteknum ástæðum, nánar tiltekið stríðsbrölti heimskra og gráðugra karla, en Oksanen bendir einnig á ábyrgð vesturveldanna í því hvernig fór fyrir Eistlendingum, því í bréfum og dagbókarbrotum sem Hans skrifar kemur fram að hann bíður stöðugt eftir Englendingum. Á sama hátt er meðferðin á Zöru fyrst og fremst á ábyrgð vestrænna ríkja, það er þangað sem hún er tæld og þar sem hún er keypt, þó sölumennirnir séu Rússar.

Og það er kannski þetta sem gerir bók Oksanen svo áhrifaríka, þessi tilfinning innilokunar og fullkomins úrræðaleysis sem hún skapar, meðal annars með því að bjóða lesanda ekki uppá neinar einfaldar lausnir eða útrásir í formi illmenna og hetja. Vissulega eiga þær báðar, Aliide og Zara, sín hetjulegu augnablik, en hvort það verður þeim til góðs er alls óvíst.

úlfhildur dagsdóttir, 2010