Beint í efni

Hrollur 1-3

Hrollur 1-3
Höfundur
R. L. Stine
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Hrollur 1-3
Höfundur
R. L. Stine
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Hrollur 1-3
Höfundur
R. L. Stine
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Bókabeitan hefur komið sterk inn á undanförnum árum í að leggja sitt af mörkum til að auka fjölbreytileika í útgáfu barna- og unglingabóka á Íslandi. Nú koma út á hennar vegum þrjár þýðingar úr Hrolls bókaflokknum, eða Goosebumps á ensku, eftir hinn vinsæla og afkastamikla hrollvekjuhöfund R. L. Stine, sem hefur stundum verið kallaður Stephen King barnabókanna. Á heimasíðu Stine, www.rlstine.com, er hægt að nálgast lista yfir allar bækur höfundarins og sá listi er ansi hreint langur. Goosebumps bókaflokkarnir telja í heild eitthvað um 120 bækur. Hefnd garðdverganna og Sá hlær best sem síðast hlær eru þýðingar á bókum úr fyrsta Goosebumps bókaflokknum, en í honum eru samtals heilar 62 bækur! Kvikmyndin er alveg ný og er hér eins konar inngangur, þó að hún gerist í raun á eftir öllum hinum sögunum. Bókin er ekki eftir Stine sjálfan heldur byggir á kvikmyndahandriti myndarinnar Goosebumps sem er væntanleg í bíó eftir áramót.

Hrollur – Kvikmyndin fjallar um unglinginn Zach sem er nýfluttur frá New York borg og í smábæ úti á landi með mömmu sinni. Hann er ekki allskostar sáttur við að fara úr ys og þys stórborgarinnar í steindauðan smábæ en er þó snöggur að eignast vini bæði í skólanum og í næsta húsi. Þar býr Hanna ásamt pabba sínum sem krakkarnir kalla Hroll því hann er svo viðskotaillur og hrollvekjandi. Zach verður þess fljótt var að ekki er allt með felldu í næsta húsi, Hanna fær aldrei að fara út og Hrollur bannar honum að tala við hana. Kvöld eitt finnst Zach hann heyra hana öskra og sannfærist um að hún sé í lífshættu. Hann fær nýja vin sinn Garp með sér í lið til að bjarga henni. Það sem hann veit ekki er að Hrollur er enginn annar en rithöfundurinn R.L. Stine og hann hefur sannarlega gilda ástæðu til að loka sig af, skrímslin sem hann hefur skapað eru læst inni í tryggum geymslum heima hjá honum en bíða færis á að komast út. Í björgunaraðgerðunum tekst Zach alveg óvart að leysa skrímslin úr læðingi og hann og félagar hans verða að snúa bökum saman og koma þeim aftur í lokaðar hirslur áður en þau leggja bæinn í rúst og éta alla íbúa hans.

Hefnd garðdverganna fjallar um Jóa sem er 12 ára. Jói er ósköp venjulegur strákur sem hefur gaman að því að stríða systur sinni Mindý, fíflast með vini sínum Mosa úr næsta húsi og leika við hundinn Buster. Pabbi Jóa er mikill áhugamaður um garðyrkju og er í stöðugri samkeppni við hinn stranga og svolítið ógnvekjandi Michael sem er pabbi Mosa. Pabbi Jóa er að auki með æði fyrir garðskrauti, fjölskyldu sinni til mikillar mæðu, og festir einn daginn kaup á tveimur forláta garðdvergum sem hann stillir upp í garðinum. Jóa finnst garðdvergarnir frekar skuggalegir og þegar hundurinn Buster er ítrekað sakaður um skemmdarverk sem unnin eru á verðlaunagrænmeti Michaels fer Jóa að renna í grun að garðdvergarnir séu engir venjulegir garðdvergar. Hann ákveður að sitja um þá eina nóttina til að ganga úr skugga um það hvað er í gangi og fær Mosa með sér í lið. Nóttin reynist full af hættum og þessir tveir garðdvergar eru ekki það eina sem þeir félagarnir þurfa að hafa áhyggjur af.

Tvíburasysturnar Krista og Linda eru í aðalhlutverki í Sá hlær best sem síðast hlær. Systurnar eru ósammála um flest í lífinu og í stöðugu stríði hvor við aðra. Þegar Linda finnur búktalarabrúðu í ruslagámi skammt frá heimili nær samkeppnin milli þeirra nýjum hæðum. Linda brillerar sem búktalari og svo fer að pabbi stelpnanna kaupir líka brúðu fyrir Kristu svo hún geti líka orðið búktalari. Stelpurnar keppast við að æfa sig til að geta komið fram á ýmsum uppákomum en þegar Krista ætlar að sýna atriðið sitt er eins og hún ráði hvorki við sig né brúðuna. Alls konar undarlegir hlutir fara að gerast í kringum Kristu og hún er sannfærð um að þetta sé ekki bara systir hennar að stríða henni. Brúðan hennar er eitthvað undarleg og systurnar þurfa að leggja fjandskapinn sín á milli til hliðar til að allt fari ekki úr böndunum.

Hefnd garðdverganna og Sá hlær best sem síðast hlær komu fyrst út í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar en ekki er að merkja að þær séu orðnar rúmlega tvítugar. Stíll Stine er hraður og skemmtilegur og fullur af húmor. Llítið er um slangur eða vísanir í samtímamenningu sem gerir að verkum að sögurnar eru nokkuð tímalausar. Þær gerast báðar á mjög afmörkuðu svæði, lítið er farið út fyrir garðinn og heimili Jóa í Hefnd garðdverganna og það sama á við um Sá hlær best, ekki er verið að eyða púðri í að lýsa einhverju sem skiptir ekki máli fyrir framvinduna. Þegar bækurnar þrjár eru lesnar í einum rykk fer ekkert á milli mála að Stine er ekki höfundur Kvikmyndarinnar, þó að hann skrifi reyndar formálann, enda kannski ekki gerð nein sérstök tilraun til að líkja eftir stíl hans. Sagan ber þess ákveðin merki að vera byggð á kvikmyndahandriti; hún er mjög myndræn og meira lagt upp úr sviðsetningu en í bókum Stine auk þess sem hasarinn og spennan eru mikil. Stine sjálfur er áberandi persóna í sögunni en ekki er um að ræða neina upphafningu á höfundinum. Hann er bara sæmilega venjulegur maður með mjög virkt ímyndunarafl sem hefur óvart getið af sér skrímsli sem geta stokkið út úr bókum. Stine fer huldu höfði í upphafi sögunnar og er nokkuð hrollvekjandi sjálfur á meðan honum tekst að halda krökkunum í fjarlægð, en eftir að upp kemst um hann er hann stundum settur fram í spaugilegu ljósi, og mætti þar nefna andúð hans á samlíkingunni milli sín og Stephen King sem er gert óspart grín að.

Í þessum tveimur sögum Stine eru skrímslin dauðir hlutir sem eru í raun sprelllifandi á sinn óhugnanlega hátt. Skellur, sem er búktalarabrúða í Sá hlær best, er í Kvikmyndinni sagður óhugnanlegasta og hræðilegasta skrímsli sem Stine hefur skapað og það er ekki að undra. Sá hlær best er hálfgerður sálfræðitryllir þar sem Krista veit aldrei hvort hún er að ímynda sér hlutina eða ekki og enginn trúir henni þegar hún leitar sér hjálpar. Í Kvikmyndin eru skrímslin alls konar: geimverur, risapöddur, vampírur, varúlfar og draugar svo fátt eitt sé nefnt. Lesendur geta væntanlega búist við að fá að kynnast þeim betur á næstunni þegar fleiri bækur í bókaflokknum koma út. Skellur er vissulega frekar óhugnanlegt illmenni, garðdvergarnir svolítið ógnvekjandi og hasarinn í Kvikmyndin nær vel að halda manni við lesturinn en sögurnar eru samt kannski ekkert voðalega ógnvekjandi. Þær eru fyrst og fremst góð skemmtun og henta eflaust mjög vel fyrir unga lesendur frá þriðja eða fjórða bekk og upp úr. Þær eru læsilegar og á lipru máli, hæfilega stuttar og með passlegu letri til að þjálfa unga lesendur í lestri. Miðað við fréttir af lestri barna er gott að eru til bækur sem er skemmtilegt að lesa og Stine fellur sannarlega í þann flokk.

María Bjarkadóttir, nóvember 2015