Beint í efni

Í nafni kærleikans

Í nafni kærleikans
Höfundur
James Meek
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Það er alltaf gleðilegt þegar nýr erlendur skáldskapur, sem vakið hefur athygli, er þýddur á íslensku sama ár og hann kemur út á frummálinu. Þetta er tilfellið með þriðju skáldsögu breska rithöfundarins James Meek, sem var einn af gestum Bókmenntahátíðar. Bók hans, Í nafni kærleikans, var tilnefnd til hinna virtu Bookerverðlauna fyrr á þessu ári og kom út í þýðingu Árna Óskarssonar í byrjun hausts. Það er vert að fagna svo skjótum viðbrögðum þýðenda og útgefenda, og vona að slíkt færist enn í aukana.

Meðan á Bókmenntahátíð stóð heyrði ég útvarpsviðtal við James Meek sem vakti strax áhuga minn á þessari skáldsögu. Í viðtalinu var Meek spurður út í hvernig hann nálgast söguleg viðfangsefni eins og þau sem fengist er við í skáldsögunni. Í svari hans fólst áhugaverð afstaða til fortíðarinnar en hann ræddi hve nálæg hún í raun og veru er – jafnvel fjarlæg fortíð. Meek telur að nítjánda öldin, og upphaf þeirrar tuttugustu, sé ríkari þáttur í tilveru núlifandi fólks en virðist við fyrstu sýn. Með þessu var hann ekki að vísa til klisjunnar um gott aðgengi að fróðleik á tímum internets og linnulausra sjónvarpsútsendinga. Heldur að fólk sem lifði á nítjándu öld geti verið raunverulegur hluti af tilveru okkar. Meek nefndi sjálfan sig sem dæmi, en sem barn og unglingur ólst hann upp með afa sínum og ömmu sem voru aftur alin upp af fólki fæddu snemma á nítjándu öld. Þessi fortíð var því hluti af hans tilveru á beinni og persónulegri hátt en sem kafli í mannkynssögubók.

Það er ekki tilviljun að nítjánda öldin og tengsl samtímans við hana hafi verið Meek hugleikin í viðtalinu því Í nafni kærleikans gerist einmitt á þeim tíma sem gjarnan er sagður marka endalok nítjándu aldar og upphaf þeirrar tuttugustu. Sagan gerist í Rússlandi og Síberíu á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, á tímum þegar allt er á hverfanda hveli. Í Evrópu eru landamæri og ríki þurrkuð út eða dregin upp á víxl og nýtt þjóðskipulag er að ryðja sér til rúms í Rússlandi með tilheyrandi upplausn og sundrung. Meginhluti sögunnar gerist á nokkrum dögum árið 1919 í smábænum Jazyk í Síberíu þótt hún teygi sig reyndar aftur til síðasta áratugar nítjándu aldar. Í bænum ræður ríkjum tékknesk eftirleguhersveit sem varð innlyksa eftir heimstyrjöldina fyrri. Staða hennar lýsir vel upplausnarástandinu í byrjun tuttugustu aldar. Í heimsstyrjöldinni barðist hún fyrir Austurrísk-ungverska keisaradæmið gegn rússneska keisaradæminu, var svo handsömuð af Rússum í lok styrjaldar og berst í hinu nýja stríði í Rússlandi með hvítliðum gegn rauðliðum. Hersveitin er stödd í ókunnu landi nauðug viljug og berst fyrir hönd fyrrum andstæðinga sinna. Tékkarnir hafa yfirráð yfir lestarleiðinni frá vestri til austurs og upplausnarástandið birtist e.t.v. best í því að „um skeið var ekki til önnur frjáls Tékkóslóvakía en níu þúsund kílómetra löng og tveggja metra breið spilda sem náði frá Úralfjöllum að Kyrrahafi.“ (bls. 226). Flestir hermennirnir vilja bara snúa heim en höfuðsmaðurinn og kókaínfíkillinn Matula kemur í veg fyrir það enda dreymir hann fjarstæðukennda drauma um dulmagn barrskóganna og tékkneska nýlendu í Síberíu. Fyrir í smábænum er trúarsöfnuður geldinga sem reynir að skapa paradís á jörðu með því að fórna kynfærum sínum og deila öllum veraldlegum eigum á milli sín. Einnig koma við sögu frumbyggjar Síberíu, rauðliðar og leifar gömlu valdastéttarinnar í bænum.

Vegna þeirra fáránlegu aðstæðna sem hernaðarsástand skapar tvinnast líf fólks af þessum ólíku sauðahúsum saman. Fólks sem annars hefði aldrei átt neitt saman að sælda. Aðalpersónur sögunnar eru fjórar og mynda þær einhverskonar afkáralegan ástarferhyrning. Ekkjan Anna Petrova kemur á mismunandi hátt við líf þriggja karlmanna. Samband hennar við geldinginn Balashov á sér langa sögu þar sem heimstyrjöldin og byltingin skipta miklu. Tékkneski lautinantinn Josef Mutz er þjakaður af hörmungum stríðsins og reynir hvað hann getur til að koma hersveitinni heim. Mutz á í ástarsambandi við Önnu Petrovu og vill helst fá hana og son hennar með sér til Tékklands. Anna sveiflast á milli tryggðar sinnar við Balashov, hugsanlegs öryggis sem Mutz getur veitt og þriðja mannsins, strokufangans Samaríns sem kemur óvænt inn í líf þeirra allra.

Ein áhugaverðasta persóna bókarinnar er strokufanginn Samarín. Hann á sér furðulegan bakgrunn og virðist geta villt á sér heimildir eftir því hvernig vindar blása. Þegar lesendur kynnast Samarín í upphafi er hann ósköp venjulegur stúdent sem er laus við allar öfgakenndar skoðanir. En hann verður ástfanginn af stúlku sem reynist hryðjuverkamaður og fórnar sér fyrir hana. Þegar á söguna líður kemur í ljós að Samarín er sjálfur orðinn hryðjuverkamaður. Lesandinn fær engan botn í hvernig á þessum umskiptum stendur en þau minna um margt á áleitna samtímaspurningu: Hvernig ungir, vel menntaðir, skynsamir menn breytast, að því er virðist, á stuttum tíma úr fyrirmyndar borgurum í hryðjuverkamenn. Eru það hugsjónir sem drífa menn áfram eða eitthvað annað, jafnvel persónuleg áföll? Svörin sem skáldsagan gefur, a.m.k. hvað Samarín varðar, eru ekki einhlít, í aðra röndina trúir maður því að Samarín sé hugsjónamaður sem lætur ekkert stöðva sig, lítur á sig sem ofurmenni – jafnvel náttúruafl. Í hina röndina virðist hann drifinn áfram af allt öðrum hvötum, sem jafnvel má kenna við kærleika og vísa þannig til titils bókarinnar.

Það er margt vel gert í þessari skáldsögu, myndin sem lesandinn fær af stríðsástandi er ógnvænleg og sterk. Stríðið sjálft er að mestu í bakgrunni og daglegt líf og afleiðingar þess í forgrunni. Við lesturinn varð mér oft hugsað til bókar Stefan Zweig, Veröld sem var. Ekki síst þegar Balashov lýsir fyrstu dögum sínum á víglínunni, hvernig barnalegur ævintýraljóminn víkur fyrir bláköldum raunveruleika vígvallarins, öskrandi stíðsvélum, dauða og tortímingu. En tengsl sögunnar við nítjándu öld snúa að fleiru en söguefninu sjálfu. Meek notast að nokkru við stíl nítjándu aldar raunsæissagna. Nákvæmar lýsingar bæði á ytri aðstæðum og tilfinningalífi persónanna verða á köflum full plássmiklar. Þetta er í sjálfu sér ekki alslæmt því með nákvæmum sviðsetningum fær lesandinn góða tilfinningu fyrir aðstæðum persónanna. Verra er að sögumaður lýsir tilfinningalífi persónanna út í ystu æsar og lesandanum er ekki gefið mikið rúm til að draga ályktanir sjálfur. Þegar verst lætur eru stórkostlegar líkingar notaðar til að lýsa tilfinningum persónanna: „Mutz gekk af stað aftur til Jazyk, furðu lostinn yfir þeirri margvíslegu ógnun og heimsku sem hann hafði mætt frá því daginn áður. Í einu kyrrlátu skoti hugans var maður að reyna að hugsa meðan allt í kring voru nágrannararnir að stökkva út um glugga, kveikja í sér og kyrkja hver annan.“ (218)

Þrátt fyrir þessar ýtarlegu lýsingar sögumanns á aðstæðum og tilfinningum er Í nafni kærleikans mjög spennandi bók, einkum vegna þess hve vel uppbyggð hún er. Persónur eru smátt og smátt kynntar til sögunnar og lesandinn áttar sig ekki stax á því hvernig þær tengjast, en svo fer líf þeirra að fléttast saman. Um miðbik sögunnar dregur svo verulega til tíðinda. Nokkrir þræðir spinnast saman jöfnum höndum og lesandinn er skilinn eftir í óvissu undir lok hvers kafla og fær ekki svör fyrr en undir lok þess þarnæsta. Þannig drífur bygging sögunnar lesturinn áfram og gerir hann spennandi. Að lokum er vert að geta þess að þýðingin virðist vel heppnuð. Stíll sögunnar er sjálfsagt ekki auðþýðanlegur því hann einkennist af mjög löngum málsgreinum sem komast í flestum tilfellum til skila á þjálan og auðskiljanlegan hátt.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005.