Beint í efni

Í þokunni

Í þokunni
Höfundur
Philippe Claudel
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það kemur ekki á óvart að saga Philippe Claudel, Í þokunni, hafi verið kvikmynduð, því bókin er sérlega myndræn og knöpp. Claudel teiknar upp lítið þorp við víglínuna í fyrri heimsstyrjöld, umhverfi þess og íbúa og leggur áherslu á stéttaskiptingu, en mörkin milli stéttanna endurspeglast að einhverju leyti í þeim mörkum lífs og dauða sem eru við víglínuna. Flestir karlmenn þorpsins eru horfnir í stríð og konurnar verða að bjarga sér eftir mætti, meðal annars með því að selja líkama sinn þeim fjölda hermanna sem ferðast gegnum þorpið í átt til víglínunnar, á leið í stríðið, og þeim sem koma til baka, mis-illa laskaðir. Víglínan spilar líka veigamikið hlutverk fyrir ungu kennslukonuna sem kemur til bæjarins eftir að fyrri kennari tapaði geðheilsunni og ungi lögreglumaðurinn, sögumaður Í þokunni, hrífst af.

Claudel kenndi bókmenntir áður en ferill hans sem rithöfundur og handritshöfundur hófst og á nokkuð sérstaka kennslureynslu að baki, en auk þess að starfa með fötluðum börnum var hann fyrirlesari í fangelsi. Í þokunni hefur hlotið fjölda viðurkenninga og var, eins og áður sagði, kvikmynduð árið 2005.

Sagan flakkar fram og til baka í tíma, en aðallega gengur söguþráðurinn útá morð á lítilli stúlku í smábæ í Frakklandi. Sögusviðið er, sem fyrr segir, tími fyrri heimsstyrjaldar, nánar tiltekið árið 1917, en tími frásagnarinnar er tuttugu árum síðar, þegar lögreglumaðurinn sem rannsakaði morðið rifjar upp atburðarásina. Í upprifjun hans komumst við meðal annars að því að rannsóknin á morðinu leiddi til annars harmleiks, persónulegs harmleiks í lífi hans, því meðan hann er í næsta bæ að sinna morðmálinu tekur kona hans léttasótt og deyr af völdum blæðinga, ein heima og hjálparvana. Ungi maðurinn er gersamlega frávita af sorg og sú sorg gegnsýrir alla söguna, í bland við sorg föður litlu myrtu stúlkunnar og sorg ríka mannsins í sögunni, kastalaeigandans, en hann hefur einnig misst unga eiginkonu og aldrei jafnað sig eftir það. Um tíma vingast hann þó við ungu kennslukonuna, en hún býr líka yfir sinni eigin sorg.

Stríðinu sjálfu er svo lýst sem ömurlegu, en menjarnar um það eru greinilegar í þeim limlestu hermönnum sem fara um bæinn og þannig er enn ítrekaður sá andi grárra sorgmæddra sálna sem sveima í þessari minningaþoku.

Það er áhugavert að skoða umfjöllun um morðmál í miðju stríði, þarsem dauðinn er alltumvefjandi og allsstaðar. Ætla mætti að eitt dauðsfallið enn skipti litlu, en svo er einmitt ekki, þessi dauði litlu lífsglöðu stúlkunnar, augasteins föður síns, verður á einhvern hátt enn skelfilegri innanum allar hörmungar mannfallsins. Henni er líst eins og einskonar lífsblómi, ljósi í annars myrkum heimi. Því er allt kapp lagt á að finna hinn seka, tveir liðhlaupar eru teknir til fanga og glæpurinn eignaður þeim. Ástæðan fyrir upprifjun lögreglumannsins er hinsvegar sú að hann var ekki sáttur við niðurstöðuna, en grunur hann beinist mjög að yfirstéttarmanninum því barnið fannst nálægt hliði að landareign hans.

Í þokunni er að hluta til söguleg skáldsaga að því leyti að höfundur teiknar upp sögulega atburði og gefur innsýn í horfinn heim og að hluta til er hún glæpasaga, því hún fjallar um glæp og morðrannsókn. Þó er ljóst að Claudel fetar ekki hefðbundnar leiðir innan þessara forma, sögulegi hlutinn er ekki belgvíður af upplýsingum og sviðsetningum, sem gerir söguna enn áhrifameiri því lesandi getur ekki annað en lokast inni í þessum litla skika heimsstyrjaldarinnar og stóra myndin fer að skipta minna máli. Á sama hátt er teygt nokkuð á glæpasögunni, því sekt og sakleysi eru ekki afgerandi. Þannig færist víglína minninganna stöðugt til og þrátt fyrir að myndin sé skýr reynist fátt sem sýnist.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2008