Beint í efni

Ísprinsessan

Ísprinsessan
Höfundur
Camilla Läckberg
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nú eru liðin rúm tvö ár síðan Anna R. Ingólfsdóttir hóf að gefa út eigin þýðingar á sögum sænska spennusagnahöfundarins Lizu Marklund. Á þeim tíma hefur hún þýtt tvær skáldsögur hennar, Villibirtu og Úlfinn rauða, og tvær sögur byggðar á sönnum atburðum, Hulduslóð og Friðland. Allar hafa bækurnar verið afar vinsælar, jafnt af glæpasagnalesendum sem öðrum og því ljóst að framtak Önnu er bæði gott og þarft. Og nú tekur hún þá glæsilegu áhættu að kynna nýjan höfund fyrir lesendum sínum, Camillu Läckberg, en fyrsta glæpasaga hennar, Ísprinsessan, kom út í Svíþjóð í fyrra og hlaut góðar viðtökur - svo að nú á að fara að gera sjónvarpsþætti eftir henni. Og það er þessi fyrsta bók, Ísprinsessan, sem Anna býður lesendum sínum uppá nú á (hráslagalegum) vormánuðum ársins 2006.

Ekki er þó hægt að segja að bókin sé vorleg, því hún gerist að vetri til og hefst á því að lík finnst frosið í baðkari. Í fyrstu lítur út fyrir að um sjálfsmorð sé að ræða en auðvitað stenst það ekki (frekar en önnur sjálfsmorð í glæpasögum) og morðrannsókn hefst. Sögusviðið er lítill bær og aðalsöguhetjan er ung kona, Erica Falck, ríflega þrítugur rithöfundur sem hefur hingað til helgað sig ævisöguskrifum um skáldkonur. Þó blundar í henni draumur um að skrifa eigin skáldsögu. Og í hinni myrtu, Alexöndru Wijkner, finnur hún efnivið sem hreyfir við henni, þó ekki væri nema vegna fyrrum kynna þeirra, en þær höfðu verið nánar vinkonur í barnæsku. Inn í málið blandast svo ungur lögreglumaður, Patrik Hedström, gamall aðdáandi Ericu. Saman og sitt í hvoru lagi grafast þau fyrir um ævi hinnar látnu, hún með óljósa hugmynd að bók í huganum, hann sem lögreglumaður. Þar fyrir utan hittum við fyrir mikið af áhugaverðum persónum, en fyrir utan að sýna nokkuð snörp tök á glæpasöguforminu býr Camilla yfir þeim góða eiginleika að geta teiknað upp lifandi og vel útfærðar persónur sem leggja mikið af mörkum til að gera lesturinn bæði ánægjulegan og spennandi.

Já, það kemur fljótt í ljós að ekki er allt sem sýnist í þessu litla bæjarfélagi og að dauði Alexöndru tengist ýmsum leyndarmálum og hörmungum. Vanir glæpasagnalesendur verða væntanlega ekkert mjög lengi að átta sig á hvernig í pottinn er búið, svona allavega í aðalatriðum - en þó er alveg nóg sem kemur á óvart, enda, eins og áður sagði, sagan fimlega fléttuð.

Samanburður við Lizu Marklund er óhjákvæmilegur, en fleira er þó ólíkt en líkt. Vissulega eru sterkar og forvitnar kvenhetjur mikilvægur þáttur í bókum beggja, en Erica er öllu stabílli persóna en Annika hjá Lizu Marklund og bók Camillu að sama skapi ekki eins þrungin flóknum tilfinningum aðalpersónunnar. Það þýðir þó ekki að Ísprinsessan sé einhver kaldur fiskur, þvert á móti er sagan sjóðheit!

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2006