Beint í efni

Jójó

Jójó
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Tvífaraminnið var ákaflega vinsælt í bókmenntum á 19. öld víða um lönd, það má sjá merki þess í þýsku rómantíkinni og ekki síður í ensku gotnesku hefðinni. Að hitta fyrir sjálfan sig boðaði sjaldan lukku í þessum bókum, heldur ýmist sturlun eða tortímingu. Í nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Jójó, eru tvífarar á hverju strái. Aðalsöguhetjan , krabbameinslæknirinn þýski, Martin Montag (sem minnti þennan lesanda nokkuð á barnateiknimyndahetjuna Matta morgun sem tekur á sig nýja mynd á hverjum morgni þegar hann vaknar), á sér spegilmynd í franska útigangsmanninum Martin Martinetti, sjúklingi sem hann dregst að og vingast við. Petra kærasta aðalsöguhetjunnar er önnur Petran í lífi hans og sjálfur hefur hann áður tekið á sig mynd látins æskuvinar, Mikka, fyrir hina Petruna, og svona mætti lengi telja. Úr öllum þessum samböndum verður til mikill og allt að því gotneskur speglasalur.

Martin Montag fær einn daginn til sín sjúkling sem kallar fram þaggaða (en þó ekki gleymda) fortíð. Kunnuglegt göngulag sjúklingsins framkallar minningar, fortíðin bankar uppá í nútímanum í vel þekktu frásagnarmynstri og setur tilfinningalíf Martins úr skorðum. Skorðum sem hann hefur haft nokkuð fyrir að koma sér upp og eru viðkvæmar fyrir ytra áreiti eins og tilfinningaríkt samband hans við suma sjúklinga sína sannar. Fortíð hans geymir skelfilega trámatíska reynslu sem hann hefur þagað yfir lengi og ekki treyst þeim sem nú standa honum næstir fyrir. En þessi fortíð virðist þó stöðugt reyna að riðjast uppá yfirborðið því eins og tráma- og minniskenningar segja fyrir um er þetta reynsla sem hann hefur ekki losnað undan, atvikið sem er í raun ekki orðin að fortíð og minningu, en heldur endalaust áfram í núinu, sem honum hefur ekki tekist að ráða fram úr, að ‚klára‘. Þessi tilfinning er raungerð í textanum þegar hann endurtekur hvað eftir annað upphaf atviksins: „Ég er alltaf að koma úr skólanum.“

Það eru ekki bara tvífararnir sem hér minna á gotnesku hefðina, það á ekki síður við um örlítið melódramatískar plottlausnir, sem byggjast á tilviljunum, sálrænni spennu og nærveru dauðans sem liggur eins og mara yfir fortíð, nútíð og framtíð Martins. Þá eru kennsl mjög mikilvæg í sögunni; að bera kennsl á fortíðina, á sjálfan sig, á aðra og þessi kennsl verða eiga sér stað á réttu augnabliki til hafa tilætluð áhrif.

Steinunn Sigurðardóttir hefur skrifað manna best um sambönd af öllu tagi: ástar-, fjölskyldu- og vinasambönd og í þessu verki eru allar þessar tegundir tengsla undir og mikilvægi þeirra fyrir sálarheill manneskjunnar undirstrikað á margvíslegan hátt. Hér snýr hún svo uppá hefðir tvífaraminnisins á óvenjulegan máta, svo hæfir formið efninu sérlega fallega.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2011.