Beint í efni

Kalt er annars blóð

Kalt er annars blóð
Höfundur
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Því er oft haldið fram að Gísla saga Súrssonar sé fyrsta glæpasagan. Allavega er nóg um glæpsamlegt athæfi þar, líkt og víða í hinum drápglöðu Íslendingasögum, sem margar hverjar minna ekki lítið á sverða- og særinga fantasíur nútímans. Miðaldaheimurinn hefur löngum verið auðug uppspretta ýmiskonar skrifa, síðustu árin hefur Njála birst okkur í myndasöguformi, en fyrir nokkrum árum voru það konurnar sem urðu hetjur nokkurra íslenskra og erlendra reyfarakenndra sagna sem staðsettu sig á miðaldatímum. Glæpasagan á sinn fulltrúa í bróður Cadfael og svo má lengi telja. Þau eru þó færri verkin sem fella saman fortíð og nútíð, með því að færa kunnuga sagnaheima til nútímans. Það er helst að verk Shakespeare hafi verið færð til nútímans á sviði og í kvikmyndum. Vissulega hafa bæði Viktor Arnar Ingólfsson og Þráinn Bertelsson nýtt sér tilvísanir til Íslendingasagna með góðum árangri í Flateyjargátu og Dauðans óvissa tíma, en þær vísanir voru fremur almennar og tóku ekki neina sérstaka sögu til meðferðar.

Í nýrri skáldsögu sinni, Kalt er annars blóð, tekur Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir sig hinsvegar til og heimfærir Brennu-Njálssögu uppá nútímann, og tekst barasta helvíti vel upp. Það er varla að ég tími að týna til samsvaranirnar (það er svo gaman að átta sig á þeim), en þarna er allt aðalgengið, Halla og Gunnar, Bergljót og Níels, og svo ástarþríeykið fræga, Hrútur, Unnur og Gunnhildur. Þar fyrir utan er uppsetning efnisyfirlitsins skemmtilegt stef við Íslendingasöguþemað.

Þórunn Valdimarsdóttir er þekkt fyrir ritstörf sín á sviði sagnfræði og skáldskapar. Verk hennar einkennast meðal annars af því hvað hún er ófeimin við að kanna ný form og nýjar leiðir í skrifum sínum og í þessari nýjustu bók sinni, skáldsögunni Kalt er annars blóð, tekst hún semsagt á við glæpasöguna í bland við uppfærslu á því sem margir álíta eitt merkasta verk íslenskra miðaldabókmennta, Njálu. Það er því ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, en eins og áður segir, þá tekst höfundi sérlega vel upp í þessari yfirfærslu í tíma, blandaða glæpaplotti sem sömuleiðis er fimlega unnið. Það hefði kannski mátt hemja aðeins stílinn sem á köflum verður of upphafinn og flúraður, en heildarmyndin virkar það vel að þessir ágallar gleymast fljótt í gleðinni yfir því að fá í hendur ferska og frumlega glæpasögu.

Halla hin fagra á góðan vin, Ödda, sem hefur þann óþægilega vana að valda sambýlismönnum hennar skaða þegar hún kemst upp á kant við þá. Lögreglan rannsakar þau mál, en þó fer fyrst að færast fjör í leikinn þegar sundurhoggið höfuðlaust lík finnst á malarhaugi við Akureyri. Og svo fer dauðsföllum að fjölga, nýjasti kærasti Höllu, sellóleikarinn Gunnar, finnst dauður, af honum hafa verið hoggnir fingur. Við kynnumst lögreglumanninum Leó og vinkonu hans rithöfundinum Ásu, en það er hún sem rambar framá líkið á haugnum þegar hún dvelst á Akureyri við skriftir. Þar á hún í stuttu ástarsambandi við Hrút, föðurbróður Höllu, en hann er í sárum eftir erfiðan skilnað við Unni, en samband þeirra súrnaði eftir frægðarför hans til Gotlands, þarsem lögfræðivalkyrjan Gunnhildur aðstoðaði hann við að vinna erfitt erfðamál. Hrútur hefur byggt sér glæsivillu fyrir norðan fyrir peningana sem hann fékk, en kvennamálin ganga eitthvað erfiðlega, enda treystir Hrútur um of á hörund sitt í slíkum samskiptum, en reynist svo hörundssár þegar það bregst.

Hrútur er dæmi um sérlega vel heppnaða og skemmtilega nastí karllýsingu sem finna má í bókinni, og það sama má segja um aðrar persónur, utan að persóna Ásu var framanaf helst til klisjuð. Persónusköpun er auðvitað eitt af því sem gerir Íslendingasögurnar svo markverðar að margra mati og er greinilegt að höfundur hefur sinnt þeim hluta af alúð. Pesónusköpun er sömuleiðis einn af mikilvægustu þáttunum í því sem gerir góða glæpasögu, svo ekki verður betur séð en að hér sé komið brúðkaup aldarinnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007