Beint í efni

Karlsvagninn

Karlsvagninn
Höfundur
Kristín Marja Baldursdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Gunnur er geðlæknir, vel stæð kona á miðjum aldri. Rétt eftir að brotist hefur verið inn hjá henni og einhverju stolið af því sem venjan er að innbrotsþjófum lítist vel á í ránsferðum, kemur til hennar kona sem hún þekkir lítillega og biður hana um að gæta dóttur sinnar yfir helgina. Gunnur færist undan en er eiginlega neydd til að taka við þessari fjórtán ára stúlku. Hún hefur ákveðið að fara í sumarbústað, sem hún kallar að vísu vetrarhús því að sagan gerist að vetri til. Stúlkan verður því að koma með í sveitina, austur fyrir fjall.

Skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur, Karlsvagninn, fjallar um samskipti þeirra tveggja kvenna í um það bil þrjá daga. Gunni finnst ýmislegt vanta upp á þroska unglingsins og ábyrgðartilfinningu. Þegar hún fer að segja henni frá æsku sinni kemur í ljós að stúlkan hefur áhuga á frásögn hennar þótt hún virðist lítt áhugasöm um flest, til dæmis það sem er að sjá í umhverfi þeirra. Fyrst og fremst er það Gunnur sem hefur orðið og tekur stúlkuna með sér í heimsókn, eins og það er orðað, á æskuheimilið og segir síðan frá lífi sínu nokkurn veginn fram á þennan dag. Að vísu segir hún stúlkunni ekki frá öllu, því sumt fáum við lesendur bara að vita en ekki hún. Með því að segja stúlkunni sögu sína má segja að Gunnur sé að skoða sjálfa sig um leið og hún reynir á einhvern hátt að ala stúlkuna upp og undrist sumt í fasi hennar og framferði. Hún speglar sig að nokkru leyti í þessari yngri kynsystur sinni, en lífsviðhorf þeirra eru á margan hátt ólík.

Konurnar í sögunni er býsna lifandi persónur en karlmennirnir meira í bakgrunni. Fyrri eiginmaður Gunnar er eins og þokuslæðingur og reyndar sá núverandi líka. Gunnur sjálf er hin týpíska íslenska ofurkona eins og sumir kalla það. Kannski voru þær búnar til, þessar ofurkonur sem nú eru á miðjum aldri. Þeim var falin ábyrgð frá unga aldri á heimilinu og einnig var algengt í þá daga að börn væru send í sveit þar sem þau kynntust sveitastörfum. Eflaust mismikið hvað á þau var lagt í dreifbýlinu en duglegt barn eins og Gunnur hamaðist þar allan daginn. Hins vegar þykir henni þetta býsna óréttlátt, þótt eflaust hafi það hert hana og gert hana færari á ýmsan hátt í lífsins ólgusjó. Það mætti jafnvel halda, ef litið er til þessarar frásagnar, að fólki á þessum tíma hafi fundist ungum börnum hollt að missa foreldra sína, í það minnsta um stundarsakir. Það er frekar sýnd harka en ástúð. „Hún [móðir Gunnar] gaf góðar gjafir en gaf aldrei af sér. Skyldan og afkoman voru fyrir öllu.”

Það kemur sterkt fram í sögu Gunnar hve vel kynslóðin sem nú er að slefa yfir fimmtugt og þeir sem eldri eru þekkja þá hræðslu kynslóðar foreldra sinna að börnin ættu á hættu „að ofmetnast af hrósi. Hrós gæti stigið þeim til höfuðs.” Þótt börnin stæðu sig vel í leik og starfi þótti alveg óþarfi að vera að ýta undir eitthvað mont í þeim. Annað en nú á dögum. „Nú má enginn ropa án þess að verða verðlaunaður fyrir.“ Umfjöllunarefni bókarinnar er ekki síst slíkt „uppgjör” við uppeldishætti eldri tíma, sem Kristín Marja miðlar í gegnum samskipti ólíkra kynslóða. 

Við vitum eða þykjumst að minnsta kosti vita hvernig lystisemdir börn og ungt fólk á okkar tímum hefur alist upp við miðað við það sem afa- og ömmukynslóð dagsins í dag fékk að kynnast. Þrátt fyrir að Gunnur komi frá heimili þar sem ekkert skorti voru verkefni ungrar stúlku mörg og aðhalds gætt á öllum sviðum. Í bókinni fáum við margs konar samanburð á lífi ungs fólks þá og nú, þótt fyrst og fremst sé verið að fjalla um hvernig líf okkar sem eldri erum var um og eftir miðja síðustu öld.

Kristín Marja skrifar góðan texta og lýsingar á umhverfinu sem þær stöllur dvelja í eru lifandi og áhugaverðar. Sagan, landið og náttúran spila stórt hlutverk, enda er Gunnur að reyna gera þessari oft óþolandi ungu stúlku grein fyrir því hvaða þættir séu nauðsynlegir til að skapa heilsteypta manneskju. Fleira þarf til en farsíma og tölvu. Það er sem sagt fullt af uppeldishugmyndum hérna þótt textinn sé alls ekki predikunarkenndur. Okkur grunar að geðlækninum takist kannski á þessum örfáu dögum að mjaka skjólstæðingi sínum aðeins í átt til aukins þroska. Við fáum svo sem ekkert áþreifanlegt um það, en í lok sögu má gera því skóna að stúlkan, Hugrún Lind eða Hindin, standi frammi fyrir áskorun eða viðfangsefni sem gæti lagt línur fyrir framtíð hennar.

Miðað við stórvirkið um Karítas í tveimur þykkum bindum kann sumum að þykja þessi í þynnra lagi. Hún er að miklu leyti hugleiðingar, hugleiðingar um fólk, sálarlíf, uppeldi, kynslóðir, ástina, kynjamun eða kannski fyrst og fremst hvernig lífi ungra kvenna er háttað. Við höfum öll gott af að lesa Karlsvagninn, karlar ekki síður en konur.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009