Beint í efni

Konan við 1000°

Konan við 1000°
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Áttræð kona liggur árið 2009 nánast í kör í bílskúr við Grensás og fer yfir ævi sína. Margt hefur drifið á daga hennar, heima og erlendis. Rúmliggjandi og afskipt af fjölskyldu sinni, sonum og tengdadætrum, er tölvan henni helst til afþreyingar, blessað netið, Fésbókin og tölvupósturinn. Undir nafninu Linda P. heldur hún vitgrönnum mönnum í ýmsum heimshornum á tánum og fyllir þá með rugli. Einhverja skemmtun verður gamalmennið að hafa. Þetta er það sem fram fer í nútímanum meðan rifjuð er upp skrautleg ævi í Breiðafjarðareyjum, Danmörku, Þýskalandi, Fríslandi, Argentínu og síðast en ekki síst á Bessastöðum enda konan, Herbjörg María, sonardóttir Sveins Björnssonar fyrsta forseta lýðveldisins Íslands. Um leið er farið yfir atburði í sögu Íslands og Evrópu.

Þar sem þetta er skáldsaga miklu fremur en skálduð ævisaga er langt því frá að allt sé þetta satt og rétt sem á síðunum birtist. Skáldaleyfið er því væntanlega ótæpilegt en þar sem um fyrstu persónu frásögn er að ræða er lesandinn í raun staddur í hugskoti þessarar konu sem vill ekki minna 1000 gráður þegar að því kemur að líkaminn örvasa verði eldi að bráð.

Eftir nokkuð rysjótta byrjun, þar sem dálítið er vaðið úr einu í annað og fram og aftur í tíma, tekur frásögnin að streyma fram eins og stórfljót og hrífur lesandann með sér.

Nöfn á aukapersónum bókarinnar eru sumpart þau sömu og þau báru í lifanda lífi. Að því leyti er býsna stutt milli skáldskapar og raunveruleika. Eða er þetta kannski „launveruleiki“? Hallgrímur breytir þó nafninu á foreldrum aðalpersónunnar og henni sjálfri. Var það kannski það sem þurfti til að fjarlægja sig þeirri konu sem átti sín ellefu líf og greint er frá í ævisögu ritaðri af Steingrími Sigurðssyni? Atburðir sem rétt er tæpt á í ævisögunni eru ílengdir og útfærðir í skáldsögunni með þessu víðfræga skáldaleyfi.

Það þjónar engum tilgangi að bera saman ævisögu Brynhildar Björnsson, Ellefu líf, og skáldsöguna Konan við 1000° svo ólíkar sem þær eru. Rétt skal þó minnst á að umrædd ævisaga kom út 1983 og ekki er hún löng, rétt rúmar hundrað síður. (Skáldsagan er tæpar fimm hundruð síður.)

Fyrst á annað borð var farið út í það að gera skil sögu þessarar konu í skáldskap er vart hægt að hugsa sér skemmtilegri höfund. Einhver annar kynni að hafa verið kurteisari en það er ekki stíll Hallgríms. Kurteisin getur verið ávísun á leiðindi. Það er samt ekki að sjá annað en höfundur beri fulla virðingu fyrir viðfangsefninu. Hefur greinilega hrifist mjög af sögu þessarar einstöku konu.

Það má líka velta fyrir sér hvort yfirleitt hafi verið nauðsynlegt að tengja skáldsöguna nokkuð við raunverulegt fólk og atburði eins og höfundur gerir. Hún hefði hugsanlega getað virkað alveg prýðilega án þess. Eftir sem áður hefðu þeir sem það vilja getað spáð í spilin; hvað er hvurs og hvurs er hvað.

Árið 1942 höfðu foreldrar Herbjargar ætlað að hittast á aðaljárnbrautarstöðinni í Hamborg og átti þá stúlkan að fara með móður sinni. Faðir hennar verður frá að hverfa til starfa með þýska hernum og skilur litlu dömuna eftir með handsprengju sér til varnar, sprengjuna sem er hún enn með árið 2009 í bílskúrnum sínum. Móðir hennar kemur aldrei eða kemst aldrei til að sækja hana og lendir hún því á vergangi og flækist víða. Þarna er eins og vanti aðeins í söguna til að útskýra hvernig hún endar í pólskri sveit tveimur árum síðar.

Texti Hallgríms er, eins og svo oft áður, býsna skrautlegur en líka fallegur. Lýsingar hans á flækingi Herbjargar um Pólland sumarið 1944 ná miklu skáldlegu flugi sem og tengingin við Ísland þar sem á sama tíma er verið að setja á fót lýðveldi og afi Sveinn valinn forseti, lítt viljugur. Enn fremur má nefna hinar myndrænu og oft ógeðfelldu lýsingar á ferðum föður og dóttur undir lok stríðsins. Alvara frásagnarinnar er fólgin í ógnum styrjaldarinnar, barnsmissi og þeirri staðreynd að þrátt fyrir glensið og skensið (svona verður maður fyrir áhrifum) er Herbjörg María, sem stundum kölluð Herra, jafnvel Herra Ísland eða Hr. María, líklega háfgerð óheillakráka. „Þú ert dæmd til að arka krákustíga. Það er ævintýri, en erfitt, muy difícil“, er sagt við hana í Góðviðru eða Ferskuloftum (Buenos Aires). Hún veltir líka fyrir sér hversu margir sem henni tengjast virðast týna lífi. – Elskhugar hennar og eiginmenn eru svo af fjölbreytilegasta tagi. Fyrsta ástin sem kannski var stærsta ástin varði aðeins í tvo daga.

Og sagan berst frá Breiðarfjarðareyjum til Danmerkur, Þýskalands, Bessastaða og Argentínu til Vestfjarða og Reykjavíkur. Fram og aftur í tíma en þannig þó að lesandinn veit alltaf vel hvar hann staddur hverju sinni enda fylgja ártöl hverjum kafla.

Orðgnóttin er gífurleg og reynt á þanþol málsins. Tungumálið í stöðugri endurnýjun eins og Hallgríms er vandi. Það eru stuðlar, höfuðstafir, innrím og útrím og ótæpilegur fjöldi nýyrða. Á blaðsíðu 138, sem skoðuð er af handahófi, má finna eftirfarandi orð: hundshiminn, háskælubækur, prentskælingar, hryllubeinshró, skammtímablíða, jökulermi, slorveður og gorveður, sleggjubeinsskörð, fí og frunti, regnþreyttur, vikulengd, þjóköstur, útkvalinn, einangrunaríbúðir, kalbjáni, sængurdæmdur, gegnumglær, launveruleiki, yndislaus.

Á öðrum stað má í málsgrein upp á þrjár og hálfa línu má finna sex lýsingarorð og sum ekki af venjulegu tagi:

Bæjarljósin birtust í gegnum skuggastráin; kvöldgular týrur í gluggum og daghvítar perur á skökkum og beinum staurum. Á milli tréstauranna lágu gúmþykkar línur sem líkt og báru ljósið á milli þeirra í möttum glampa.

Það fer vart milli mála að myndlistarmaður heldur hér á penna… eða pikkar á tölvu, réttara sagt.

Þetta er líklega besta bók Hallgríms til þessa, full af fjöri og andagift. Jafnvel betri en Rokland og þá er mikið sagt. Það skiptast á skin og skúrir, gaman og alvara. Sumum kann að finnast bókin í lengra lagi. Það er auðvitað alveg voðalegt ef leiðinleg bók er of löng. En svona skemmtileg bók má vel vera löng. Því lengri, því betra.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2011