Beint í efni

Konungur norðursins

Konungur norðursins
Höfundur
Valur Gunnarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það var þónokkuð forvitnilegt að fá í hendur nýja skáldsögu nýs höfundar sem sker sig nokkuð úr því sem kalla mætti (eða alhæfa sem) íslenska skáldsagnahefð, en Konungur norðursins eftir Val Gunnarsson fjallar ekki aðeins um finnskan mann á ferð um Finnland, heldur blandar höfundur vænum skammti af norrænum og finnskum goðsagnaarfi inn í söguna, sem þarmeð öðlast heilmikið plott. Og bara fyrir það fær hann feitan plús. Þetta ánægjulega nýnæmi kemur þó ekki í veg fyrir að sagan sé nokkuð gölluð, enda um fyrstu bók höfundar að ræða og alveg óhætt að gera ráð fyrir slíku.

Sagan ber undirtitilinn Ævintýri Ilkka Hampurilainen og segir frá samnefndum manni, feitum og ófríðum finnskum skipaþvottamanni sem er ekki allskostar sáttur við einmanalega og kvenmannslausa tilveru sína. Einn daginn ákveður hann því að fela sig um borð í skipinu sem hann þrífur og ferðast yfir sundið, aðallega að því er virðist til að geta dottið hressilega í það um borð. Ekki tekst honum að ná sér í kvenmann en þarsem hann hangir ælandi yfir borðstokkinn kemur yfir hann andi Lofts nokkurs, sem fyrir fimmtánhundruð árum flækist inn í mál konunga og goða, meðal annars vegna óendurgoldinnar ástar sinnar á fagurri konu - en Loftur er líkt og Ilkka óásjálegur mjög. Inni á milli kafla sem lýsa Ilkka eru kaflar um Loft þennan, en þar er fjallað um goðsögulegan heim Norðurlanda á sjöttu öld eftir kristsburð. Ilkka snýr til baka til Finnlands en eitthvað knýr hann til að halda norður á bóginn og lendir hann þar í kostulegum ævintýrum.

Textinn fer hvað mest á flug í lýsingum á Ilkka sem í eymd sinni og ófríðleika er afar skemmtileg persóna. Einmana karl í sjálfsmyndakreppu er bæði þreytt og þjáð viðfangsefni skáldsagna en hér birtist ýkt finnsk klisjuímynd ofdrykkju og þunglyndis (sem er styrkt með vænum tilvísunum í Kaurismaki kvikmyndir) og með því kemur inn flötur sem fangar bæði parodíu og einhverskonar einlægni. Kaflarnir um Loft og goðsagnirnar eru margir hverjir vel heppnaðir líka og samspilið þarna á milli nokkuð vel útfært. Þar bregður fyrir ævintýralegum töktum, sem á stundum sverja sig í ætt við hreina fantasíu og spila skemmtilega saman við ofur-raunsæið í þætti Ilkka, en það umhverfist í hreint absúrd-leikhús á stundum. Undir lokin fer þetta þó alltsaman dálítíð úr böndunum, sérstaklega í senum þegar (fremur þreytandi) linnulaus gredda aðalsöguhetjanna fær að njóta sín.

Greddan tengist reyndar einnig öðru einkenni sögunnar sem er spurningin um líkamann - þar koma fyrir minni um hamfarir, það að fara út úr líkamanum, en Loftur reynir að ná yfirráðum yfir líkama Ilkka. Þessi umræða um anda og líkama kallast svo á við þónokkra líkamlega grótesku sem einnig einkennir söguna.

Hið líkamlega stef er nokkuð skondið á stundum en þó verður klifunin á kvenmannsleysi og greddu svolítið þreytt og hefði almennt mátt lagfæra jafnvægið milli heimanna tveggja og stytta - einhversstaðar um rúmlega miðja sögu var mér farið að leiðast nokkuð þófið, en svo kom jólaálfurinn til bjargar í einum af kostulegri köflum verksins.

Í heildina séð er bókin þó vel heppnuð atlaga að því að tefla saman hinu ofurhversdagslega í formi hins feita ófríða og óhamingjusama Finna og hinu epíska og goðsögulega. Þar skapast áhugaverð samræða knúin áfram af kómískum atburðum og uppákomum sem síðan eru iðulega með dramatískum undirtónum, þannig að úr verður nokkuð sjarmerandi grátbrosleiki.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2008