Beint í efni

Konungur þjófanna / Stravaganza – grímuborgin

Konungur þjófanna / Stravaganza – grímuborgin
Höfundur
Cornelia Funke
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Konungur þjófanna / Stravaganza – grímuborgin
Höfundur
Mary Hoffmann
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Feneyjar hafa löngum verið vettvangur ævintýralegra atburða, enda hvílir dulúð yfir þessari sökkvanda síkjaborg, með öllum sínum glæsileika og grotnun, þröngu götum og gondólum, og svo ansi magnaðri sögu. Dauði Thomasar Mann í Feneyjum er ein af mínum eftirminnilegustu bókmenntaupplifunum, sömuleiðis kvikmynd Nicholas Roeg, Don't Look Now, en bæði verkin fjalla um dauða og söknuð. Glæpasögur Donnu Leon sem ég legst reglulega í, gerast líka í Feneyjum, og hafa sett mig svo kyrfilega inn í feneyskt samfélag að mér finnst ég stundum hafa búið þar. Baksvið bóka þeirra Corneliu Funke og Mary Hoffmann, Konungur þjófanna (Bjartur, 2004) og Grímuborgin (Mál og menning, 2004), var því óneitanlega dálítið kunnuglegt, en þær gerast báðar í Feneyjum og báðar nýta sér til ítrasta hið ævintýralega yfirbragð dúlúðar og ógnar sem í borginni býr. Og það er best að taka það strax fram að báðar eru bækurnar ágætlega þýddar hjá þeim Hafliða Arngrímssyni og Höllu Sverrisdóttur.

Konungur þjófanna segir frá munaðarlausum bræðrum sem eru á flótta undan frænku sinni, en hún vill ættleiða þann yngri en senda hinn á munaðarleysingaheimili. Þeir flýja til Feneyja, en þeim hafði móðir þeirra lýst sem mikilli ævintýraborg. Í Feneyjum slást þeir í hóp með hópi þjófa á barnsaldri og hafast við í yfirgefnu kvikmyndahúsi. Inn í þetta blandast svo einkaspæjari sem frænkan hefur ráðið til að finna strákana, og svo auðvitað sjálfur konungur þjófanna, leiðtogi barnanna, en hann er ekki allur þarsem hann er séður. Hann fær það verkefni að stela undarlegum muni fyrir ókunnan greifa, en í ljós kemur að sá gripur er heldur ekki alveg sem sýnist.

Funke fer þá leið að halda fantasíunni í hófi, hún kemur í raun ekki í ljós fyrr en í lok sögunnar og tengist gripnum góða. Þess í stað er ævintýralegt andrúmsloft skapað með hjálp Feneyjanna sjálfra, kvikmyndahússins yfirgefna og svo auðvitað uppátækjum krakkanna. Þetta tekst ágætlega, hér er búinn til ævintýraheimur frjálsra barna sem lifa lífi sínu óháð fullorðnum og er þetta andrúmsloft svona dálítið í anda Péturs Pan, enda er vísað til þeirrar sögu á einum stað. Þó fannst mér vanta dálítinn kraft í söguna, svona í heildina. Átökin við frænkuna og spæjarann eru hálfmáttlítil, og hinir svikulu meira aumkunnarverðir og óþolandi en verulega ógnandi. Þetta gerir það að verkum að sagan rennur fremur átakalítið áfram og verður á stundum næstum of ljúfleg. Þó er margt þarna vel gert, krakkarnir eru skemmtilega skrifaðir og það er mikið af fyndnum og krúsulegum smáatriðum, eins og til dæmis hliðarsagan með skjaldbökum einkaspæjarans. Sömuleiðis er borgin dregin skýrum dráttum og fantasíuhlutinn hlýtur að heilla bæði unga og eldri og vekja upp miklar vangaveltur.

Fantasían er hinsvegar allsráðandi í sögu Hoffman, Grímuborginni, þó vissulega sé líka fjallað um dramatískan veruleika, en aðalsöguhetjan, Lucien, er krabbameinssjúkur dauðvona drengur sem ferðast um í tíma og rúmi með hjálp minnisbókar. Eina nóttina þegar hann sofnar með minnisbókina í höndunum vaknar hann upp í öðrum tíma og á öðrum stað, Feneyjum sextándu aldar. Þetta eru þó ekki þær Feneyjar sem við þekkjum í dag, því hér er ýmislegt annarlegt, t.d. heitir Rómaveldi Remanía eftir Remusi sem drap bróður sinn Rómúlus. Í þessum heimi ríkir Hertogaynja yfir borgríkinu, sem er sjálfstæð eining, en Remaníumenn sækja fast að innlima það í veldi sitt. Og inn í þessa valdabaráttu flækist Lucien, milli þess sem hann heyr sína eigin baráttu við krabbameinið, heima í London.

Grímuborgin er spennandi saga, sem heillaði mig um leið. Samspil heimanna tveggja er afarvel unnið, nýjabrumið hæfilega mikið og útúrsnúningarnir milli hinna ''raunverulegu'' Feneyja og Talíu sniðugir og áhugavekjandi. Hoffman nýtir sér fantasíuna til að deila á hefðbundin kynhlutverk, en gerir það á fimlegan hátt, án þess að predika eða vera með áróður. Þetta kemur helst fram í muninum á milli Feneyja og Talíu, en einnig í persónum Hertogaynjunnar og svo auðvitað Ariönnu, stúlkunni sem Lucien kynnist í sinni fyrstu ferð og á eftir að leika veigamikið hlutverk í atburðarásinni. Veikindi Lucien gefa sögunni óneitanlega aukinn slagkraft og auka á dramað, en ýmis atriði, svosem grímuhefðin og sagan bak við hana, tungumál knipplinganna og ''vísindi'' galdrameistara Lucein, eru líka áhrifamikil og skapa bæði stemningu og dulúð, og ógn. Því það er heilmikil ógn í Grímuborginni, eins og vera ber í sögu af valdabaráttu og göldrum – eða vísindum, eins og þeir heita þarnamegin, og lesandi á auðvelt með sogast inn í þennan heim. Allavega bíð ég spennt eftir næstu!

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004