Beint í efni

Krítarmaðurinn og Náttbirta

Krítarmaðurinn og Náttbirta
Höfundur
C.J. Tudor
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Krítarmaðurinn og Náttbirta
Höfundur
Ann Cleeves
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt af því sem þykir eftirsóknarvert við norrænar glæpasögur er að þar er oft fjallað um lítil samfélög, sem gefa sérstæða tilfinningu fyrir einangrun og einkalífi. Þetta er auðvitað ekki neitt nýtt í sögu glæpasögunnar en stór hluti sagna Agöthu Christie byggir einmitt á mannþekkingu ungfrú Marple sem býr í smáþorpi.

C.J. Tudor fetar að nokkru leyti í spor Christie, þó hún sé líka um margt ólík. Krítarmaðurinn gerist í litlum bæ á Englandi. Bærinn er þekktur fyrir óhugnanlegt morð sem kennt var við krítarmann, því það voru krítaðar leiðbeiningar sem vísuðu veginn að sundurlimuðu líki ungrar konu – það er að segja búknum, því höfuðið fannst aldrei. Sögumaðurinn Eddie er einn þeirra sem fann líkið og hann rifjar málið upp þegar hann fær senda teikningu af krítarmanni. Í kjölfarið kemur gamall vinur hans, Mickey, í heimsókn og vill skrifa bók og græða peninga, og segist að auki vita hver drap stúlkuna. Mickey finnst svo drukknaður, í sömu á og eldri bróðir hans hafði drukknað áratugum fyrr.

Sagan gerist á tveimur tímasviðum, nútímanum og þeim tíma sem morðið var framið og þar hittum við fyrir Eddie og vini hans, þrjá stráka og eina stelpu, sem eru á aldrinum 11-12 ára. Það er hásumar og þau þurfa að taka upp á ýmsu til að drepa tímann. Nýr kennari er kominn í skólann, hann er albínói og því frekar sérstakur í útliti. Hann vingast þó við krakkana og leggur til að þau hafi samskipti með krítum og noti leynilegt kerfi skilaboða um fundarstaði og fólk. Þessi krítarskilaboð taka svo á sig óhugnanlegt form þegar eldri strákar komast að kerfinu og nota til að beita Eddie ofbeldi. Í kjölfarið koma upp vaxandi átök í hópnum, því bróðir Mickey er forsprakki eldri strákanna. Bróðirinn finnst svo drukknaður, eftir að hafa reynt að ná hjólinu sínu, en því hafði verið stolið og hent út í á. Þetta veldur enn frekara rofi í vinahópnum og ekki batnar ástandið þegar aldraður hundur eins drengsins finnst deyjandi, eftir eitrun.

Og dramatískir atburðir halda áfram að hlaðast upp, kennarinn er grunaður um morðið á stúlkunni, en þau höfðu átt í leynilegu ástarsambandi. Hann fremur sjálfsmorð áður en niðurstaða fæst og er málið þar með talið leyst. Inn í þetta blandast svo starf móður Eddies, en hún starfar á læknastofu fyrir fóstureyðingar. Presturinn í bænum, sem er faðir vinkonu félaganna, sker upp herör gegn stofunni.

Þannig byggist upp mynd af smábæjarlífi þar sem ansi margt gruggugt leynist og leyndarmálin eru mörg og margvísleg, ekki síst hjá sögumanninum sjálfum. Hann er einfari og fram kemur að hann safnar ‚minjagripum‘, hlutum sem hann stelur til að eiga til minningar um mikilvæg eða erfið atvik.

Í Krítarmanninum eru spurningar um glæpi og refsingar afar flóknar, en jafnframt einfalda, því eftir því sem líður á söguna kemur ýmislegt á daginn, og afhjúpanirnar í lokin eru afar athyglisverðar og koma á óvart. Glæpurinn sjálfur, morðið á stúlkunni, verður næstum því aukaatriði þegar kemur að þeim mörgu leyndarmálum sem leynast í smábæjarlífinu og sagan er sérlega skemmtileg og frumleg frumraun. Þar kemur sérstaklega til undirliggjandi vangaveltur um minningar og gleymsku, en faðir Eddie veikist frekar ungur af alzheimer sjúkdóminum og upprifjanir sonarins eru því blandaðar sársauka þess að fylgjast með vaxandi gleymsku hans, og ótta við erfðir.

Náttbirta eftir Ann Cleeves er önnur bókin í Hjaltlandseyjaseríu hennar, en þar er lögreglumaðurinn Jimmy Perez í aðalhlutverki. Hann er að fara á opnun á sýningu í galleríi sem þekktasta listakona eyjanna rekur, en með henni sýnir Fran, vinkona Jimmys sem hann kynntist í bókinni á undan. Þau eru skotin hvort í öðru en einkamál eru afskaplega flókin á svona litlum stöðum, og í reynd afskaplega lítil einka-mál. Á sýningunni verður óvænt uppákoma. Daginn eftir finnur einn heimamanna, Kenny, lík mannsins sem olli uppákomunni á sýningunni, hangandi í skúr við fjöruna. Morðið krefst þess að kallað sé á utanaðkomandi aðstoð: rannsóknarlögreglumanninn Roy Taylor, sem er alger andstæða við Jimmy Perez, ör og æstur meðan Perez er rólyndið sjálft. Hans taktur er sá sami og í eyjunum, enda er það þekking hans á öllu fólki þar, aðstæðum, efnahag og flóknum samskiptamynstrum sem ræður úrslitum. Taylor finnst hinsvegar samfélag eyjanna erfitt og skilur illa hvernig nokkur leyndarmál geta verið í svo miklu návígi örfárra. Og hann veltir því fyrir sér hvort íbúarnir séu hreinlega þátttakendur í samsæri um að halda upplýsingum frá lögreglunni.

Perez gefur sér tíma til að tala við fólk, en galleríið er staðsett í Biddista, afskekktri byggð í norðvesturhlutanum (þess má geta að þetta er tilbúið heiti). Þar hafa svo myndast ýmiskonar tengsl og sögur, en bróðir Kennys yfirgaf eyjuna óvænt fyrir áratugum síðan eftir að ástarævintýri með listakonunni endaði illa. Ungur frændi listakonunnar finnst svo líka látinn, eftir fall niður bratta kletta, en hann hafði nýlega orðið stórstjarna fyrir að flytja þjóðlög á fiðlu. Á staðnum er einnig rithöfundur, sem óvænt hefur mætt til eyjarinnar til að skrifa sínar bækur, að sögn vegna hrifingar á verkum listakonunnar.

Ann Cleeves er einn þekktasti höfundur Breta í dag, en sjónvarpsmyndir hafa verið gerðar eftir skáldsögum hennar, bæði um rannsóknarlögreglukonuna Veru og um Hjaltlandseyjamálin. Vinsældir hennar eru auðskildar, því hún er frábær höfundur og lýsingar hennar á hinum ýmsu hliðum lítilla samfélaga. Bækur hennar minna dálítið á skáldverk Arnaldar Indriðasonar, en hún er næm á sögu og menningu og þá sérstaklega hvað varðar spurningar um einkamál og einkalíf í miklu návígi og fámenni. Allir þekkja sögu allra og þær eru stöðugt sagðar og þannig festar í sessi, óháð því hversu sannar þær eru. Það eru slík atriði sem ráða úrslitum og til að vinda ofan af þessu neti frásagna, leyndarmála, einkamála og þess sem er á allra ‚vitorði‘ krefst þolinmæði og innsæis.

Krítarmaðurinn og Náttbirta fjalla einmitt um þessi mörk hins persónulega og þess að vera á allra vitorði, möguleikana á því að eiga einkalíf í umhverfi þar sem allir vita allt um alla og þörfina fyrir að vera bæði hluti af stærra samhengi og óttann við að eiga sér ekki stað. Jafnframt er velt upp ýmsum hliðum á mikilvægi minninga, frásagna, og ekki síst, gleymsku.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2018