Beint í efni

Langelstur í bekknum og Af hverju ég?

Langelstur í bekknum og Af hverju ég?
Höfundur
Bergrún Íris Sævarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Langelstur í bekknum og Af hverju ég?
Höfundar
Hjalti Halldórsson,
 Aron Bergmann Magnússon
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Skólinn gegnir stóru hlutverki í lífi flestra barna; þar verja þau stórum hluta úr deginum og félagslífið og námið geta haft mikil áhrif. Í tveimur nýútkomnum barnabókum, Langelstur í bekknum eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Af hverju ég? eftir Hjalta Halldórsson er fjallað um krakka sem finnst af ólíkum ástæðum ekki alltaf auðvelt að vera í skóla. Bergrún Íris hefur áður sent frá sér myndabækur fyrir börn en Af hverju ég? er fyrsta bók Hjalta.

Langelstur í bekknum

Eyja er aðalpersónan í Langelstur í bekknum. Hún er nýflutt í annan bæ fjarri öllum vinum sínum. Sagan hefst þar sem hún er að fara að byrja í nýja skólanum, í fyrsta bekk. Hún þekkir engan í bekknum og kvíðir fyrir, en er reyndar líka mjög spennt að læra að lesa. Bekkjarfélagarnir þekkjast öll frá því í leikskóla og Eyja er feimin; það vex henni í augum að þurfa að gefa sig á tal við krakkana því hún veit ekki hvernig þau munu bregðast við. Það er þó einn nemandi sem hún er ekki feimin við og það er Rögnvaldur. Hann er samt mjög óvenjulegur nemandi í fyrsta bekk, því hann er 96 ára gamall. Eyju finnst eins og gefur að skilja stórundarlegt að hann sé með henni í bekk en einhvernveginn er ekkert erfitt að tala við Rögnvald. Þrátt fyrir aldursmuninn tekst með þeim ágætis vinátta og þau ákveða að gera með sér samning sem getur, ef allt gengur upp, hjálpað Eyju að kynnast bekkjarfélögunum og Rögnvaldi að klára ákveðið verkefni, en bæði þurfa þau að leggja mikið á sig til að geta staðið við sinn hlut.

Rögnvaldur er óvenjulegur eldri borgari og er bæði barnslegur og gamall í senn. Í sögunni er þessi aldursmunur á honum og hinum nemendunum settur fram á skondinn hátt, til dæmis þegar hann þarf að raka sig áður en hann leggur af stað í skólann og muna eftir gervitönnunum, sem er frekar langt frá daglegum veruleika fyrstu bekkinga almennt. Myndmál sögunnar er mjög lifandi og hugmyndaríkt og þegar Eyju líður eins og hún sé með þvottavél í maganum áður en hún byrjar í skólanum er ekki erfitt að setja sig í hennar spor. Sagan er í léttum dúr þó að hún fjalli um að takast á við kvíða fyrir breytingum og nýjum aðstæðum. Þau Rögnvaldur og Eyja vega hvort annað upp og sjónarhorn Rögnvaldar sýnir Eyju oft að kannski þarf bara að horfa á hlutina í öðru ljósi en maður er vanur. Sagan er myndskreytt með skemmtilegum og oft sniðugum myndum sem draga fram og leggja áherslu á ákveðin atriði í sögunni. Í byrjun eru þær að mestu í svart-hvítu, eins og þegar Eyja kemur að skólanum sínum í fyrsta sinn, en þegar líður á verða þær litríkari og kallast það á við batnandi líðan Eyju í sögunni.

Langelstur í bekknum er einlæg og skemmtileg saga þar sem aðalpersónan þroskast og lærir að besta leiðin til að sigrast á því sem vekur kvíða er að takast á við það, þó að það geti virkað óyfirstíganlegt í fyrstu.

Af hverju ég?

Af hverju ég? fjallar um Egil, sem er 11 ára og býr í Borgarnesi. Egill er afskaplega uppátækjasamur og hress, með mjög virkt ímyndunarafl og hugmyndaflugið í lagi. Eini gallinn er að hugmyndirnar sem hann fær virðast oft koma honum í vandræði og það skiptir engu máli þótt hann sé alsaklaus, hann virðist alltaf fá sökina fyrir allt. Eftir uppákomu í skólanum þar sem Agli er einmitt kennt um allt fær hann það verkefni hjá kennaranum sínum að reyna að eignast vin. Fæstir bekkjarfélaga hans leggja í að leika við hann því hann er skapstór og sterkur og þau vilja ekki eiga það á hættu að lenda í vandræðum vegna þess sem hann tekur upp á. Egill og Arna kennari sammælast um að hann reyni að glæða vinskapinn við Tóta bróður sinn nýju lífi en þeir hafa fjarlægst mikið að undanförnu. Egill á svo að færa dagbók yfir tilraunir sínar og skila þeim inn til Örnu. Verkefnið gengur upp og ofan, Egill er allur af vilja gerður en eins og venjulega fer allt úrskeiðis þegar hann reynir að finna upp á einhverju skemmtilegu sem þeir bræðurnir geta gert saman. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir, sem fela í sér alls konar misgáfuleg uppátæki, virðist ekkert ætla að ganga upp og Tóti er engu spenntari fyrir að vera með Agli en áður. En þá lendir Tóti í vandræðum og Egill verður að koma honum til bjargar.

Sagan er lauslega byggð á frásögnum af Agli Skallagrímssyni og á það við um persónur, söguþráðinn að vissu leyti og staðsetningu sögunnar. Margt er því kunnuglegt í sögunni en fært í nútímabúning og lagað að hugarheimi barna í dag. Egill sögunnar er töluvert líkur Agli Skallagrímssyni, sterkur og skapstór, ljótur að eigin sögn en hagmæltur og hefur gaman að því að henda í vísur. Margir hafa velt því fyrir sér hvernig Egill Skallagrímsson myndi passa inn í samfélag nútímans og Af hverju ég? er áhugavert innlegg í þá umræðu.

Egill er skemmtilegur sögumaður og oft á tíðum fyndinn, þrátt fyrir að hann sé aðallega að segja frá atburðum þar sem hann sjálfur hefur lent í vandræðum eða fengið ósanngjarna meðferð hjá skólastjórum eða foreldrum sínum. Sagan segir jafnt frá erfiðum atburðum sem Egill þarf að ráða fram úr og ýmsum fyndnum uppákomum þar sem hann kemur öllu í uppnám, alveg óvart, og oft með kostulegum afleiðingum. Þó hann sé laginn við að lenda í vandræðum er Egill hreinn og beinn, hann er sannur vinur þegar á reynir og stendur með sínu fólki, hvað sem á dynur. Sagan er fróðlegt og mjög sannfærandi innlit í hugarheim stráks sem passar ekki alveg inn í kerfið en er samt allur af vilja gerður. Hún vekur lesandann til umhugsunar um hve fljót við erum oft að draga ályktanir um aðra og hversu mikilvægt það sé að mæta fólki á þeirra eigin forsendum.

María Bjarkadóttir, desember 2017