Beint í efni

The League of Extraordinary Gentlemen, Volume II

The League of Extraordinary Gentlemen, Volume II
Höfundar
Alan Moore,
 Kevin O'Neill
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sagan hefst á Mars. Þar búa nokkrir þjóðflokkar, og meðal þeirra tveir jarðarbúar, annar þeirra heitir Gullivar... Stríð er yfirvofandi og svo virðist sem flestar þjóðirnar hafi bundist samtökum gegn einni sem þykir sérlega varhugaverð. En einmitt þegar sigurinn er tryggður heyrist mikill dynur og geimskip hinna illskeyttu geimvera rjúka burt – og stefna til jarðar. Og næst hittum við fyrir hetjur vorar, Bandalag hinna óvenjulegu herramanna, sem bókin heitir eftir eða The League of Extraordinary Gentlemen. Sagan er eftir Alan Moore en teikningar gerði Kevin O'Neill. Þetta er bók númer tvö, en sú fyrri var kvikmynduð á síðasta ári, með ekki nægilega góðum árangri. Eins og í fyrri bókinni er Moore hér að leika sér með bókmenntahefð nítjándu aldar, nánar tiltekið afþreyingarbókmenntir nítjándu aldar, því Bandalagið er samansett úr hinum ýmsustu persónum gotneskra og viktoríanskra bókmennta, og fer þar fremst í flokki Wilhelmina Murray, önnur kvenpersónan (sú sem lifði af) úr Drakúla eftir Abraham Stoker. Það var ljóst að hún hafði leiðtogahæfileika í fyrri bókinni, en hér er staða hennar sem einskonar foringi hópsins staðfest og persóna hennar fær mun meira rými. Með henni í för er svo Allan Quartermain, söguhetja margra ævintýrabóka H.R. Haggard, ósýnilegi maðurinn úr skáldsögu H.G. Wells, Nemo skipstjóri úr sögu Jules Verne og síðastur en ekki síst hinn tvöfaldi Dr. Jekyll, sem reyndar er mestallan tímann í líki herra Hyde í þessari sögu.

Og sagan? Hún er líka fengin að láni hjá H.G. Wells, eins og glöggur lesandi ætti þegar að hafa fattað, en að þessu sinni er hann þrefaldur. Sjálfur söguþráðurinn er fenginn að einhverju leyti að láni úr skáldsögu hans um innrásina frá Mars (finnst ykkur virkilega góð hugmynd að Bandaríkjamenn séu að tínkera við Mars? Hefur þetta fólk aldrei lesið bók?), ósýnilegi maðurinn er líka Wellskur og svo kemur þriðja saga Wells við sögu þegar þau skötuhjúin Mina Murray og Quartermain eru send til að hitta dularfullan vísindamann og heimta af honum vopn til að sigrast á Marsbúunum, sem eru langt komnir með að sigra England, og borða ensku þjóðina.

Vísindamaðurinn heitir Dr. Moreau og hann gerir tilraunir með blandanir: hann er maðurinn sem reyndi að gera menn úr dýrum. Teikningar Kevin O'Neill eru aldrei annað en frábærar, en í þeim senum sem dýrmenni eða manndýr doktorsins birtast fer hann framúr sjálfum sér, og dregur upp heim fullan af dýrum, smáum jafnt sem stórum, sem ganga upprétt íklædd ýmsum fatnaði. Öfugt við dýrmenni kvikmyndanna velur teiknarinn að hafa öll dýrin dýrsleg, en ekki lík mönnum og áhrifin eru, þrátt fyrir að þetta gæti hljómað eins og teiknimynd um bangsimon, vægast sagt óhugnanleg og sterkasta myndlýsing sem ég hef séð við skáldsöguna um eyju Dr. Moreau. Aðferð læknisins var sú að gera dýrin mennsk með skurðaðgerðum án deyfinga: ekki bara þjónaði skurðaðgerðin því markmiði að laga líkama dýrsins að uppréttri stellingu, heldur átti sársaukinn líka að beina dýrunum inn á braut mennskunnar. Og allt þetta dregur O'Neill fram í teikningum sínum, krumpuð andlit og stellingar dýranna segja sína sögu þjáninga.

Núnú, en aftur að sögunni, ósýnilegi maðurinn gerist svikari, og því þarf Bandalagið að berjast við hann líka, sem er ekki svo auðvelt, því hann er sko ósýnilegur. Og svo gerist hitt og annað sem ég ætla ekki að gefa upp, nægir að segja að sagan er bæði spennandi og dramatísk og ljóst að Moore hafi tekist vel að fylgja eftir fyrri sögunni, sem var einstök á sínum tíma. Nú er þessi heimur orðinn hversdagslegri, eins og gerist í öllum framhöldum, en það þýðir bara að rithöfundurinn og teiknarinn hafa betra rými til að leika sér með efniviðinn.

En hér er bara hálf sagan sögð, því bókinni fylgir viðauki í einskonar dagblaðaformi í sex köflum, sem ber nafnið Almanak nýja ferðamannsins eða The New Traveller's Almanac, og þar fer Moore á kostum í að draga saman í einskonar ferðalýsingu allar helstu fantasíu- og vísindasögur fyrri alda, og fram á miðja tuttugustu öld. Hér er ritmálið allsráðandi, en nokkrar frábærar teikningar fylgja. Við bókmenntirnar blandar hann svo hæfilegu kryddi úr goðsögum, þjóðsögum og ævintýrum og skáldar svo náttúrulega upp heilu söguþræðina og ívitnanir úr verkunum. Enn er Mina Murray í aðalhlutverki, yfirleitt í fylgd með Quartermain, en önnur kona, sem stundum er maður, Orlando, er líka fyrirferðamikil. Þá persónu þekkja margir úr samnefndri sögu femínistans Virginíu Woolf. Nítjánda öldin er enn fyrirferðamest, enda auðug af ævintýrasögum, en gotneska skáldsagan fær líka mikið pláss, auk sagna Gulivers. Almanakið er sett upp í kafla eftir löndum, svæðum og heimsálfum og virkar eins og ferðahandbók, þegar þú ferð þessa leið skaltu endilega reyna að hitta á staðinn þar sem Miss A.L. hvarf inn um holu í heim sem virtist ekki lúta hefðbundnum lögmálum um rými, og í þessu húsi er hlið inn í annan heim. Þannig hittum við fyrir ekki bara persónur og atburði úr afþreyingarverkum heldur er okkur líka vísað á staði úr fagurbókmenntum, Kastali Kafka og Refsinýlendan eru meðal viðkomustaða, eyja Robinsons Krúsó er á sínum stað og svo framvegis. Ísland er nefnt til sögunnar, svo og höll Snædrottningar H.C. Andersens. Á suðurpólnum hittum við að sjálfsögðu fyrir eyjuna sem Artúr Gordon Pym lenti í svo miklum hremmingum á, en mesta gleðin bíður á norðurpólnum því þar finnum við leikfangalandið úr Doddabókunum, yfir því ríkir drottningin Olympia úr sögu E.T.A. Hoffmanns um Sandmanninn og hefur hún tekið saman við annað þekkt gervimenni sem skapað var snemma á nítjándu öld, af hinni kornungu skáldkonu Mary Shelley. En eins og glöggir lesendur muna var sá skilinn eftir úti á ís norðursins í lok skáldsögunnar.

Þrátt fyrir að hafa kannast við ýmsilegt þá bar margt nýtt fyrir augu og það er engin spurning að samantekt einsog þessi ekki bara sýnir þá ótrúlegu þekkingu sem Moore hefur á ævintýrabókmenntum, heldur æsir lystina upp í lesandanum. Með Orðabók ímyndaðra staða (Dictionary of Imaginary Places) sér við hlið er hægt að fletta upp stöðum og bókum og lesa áfram. Ég mæli með því!

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2004